Vísindamönnum hefur nú í fyrsta sinn tekist að líma sérstakan plástur á hjartað í manni og að fá líffærið þannig til að gera við sig sjálft.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu læknadeildarinnar í Göttingen-háskóla, en vísindamennirnir segja nýju tæknina hafa valdið algerum straumhvörfum.
Plástrunum var komið fyrir á hjarta 46 ára gamallar konu, sem er fyrsta manneskja í heimi sem þessi útbúnaður er notaður á.
Sjálfir telja vísindamennirnir að aðferðin eigi í framtíðinni eftir að verða vænleg lausn fyrir einstaklinga með hjartagalla.
Plásturinn er gerður úr stofnfrumum og hefur gert það að verkum að ástand konunnar hefur verið stöðugt á meðan hún hefur verið að bíða eftir hjartaígræðslu. Þetta kemur fram í tímaritinu Nature.
Ræktað í rannsóknarstofu
Vísindamennirnir við læknadeildina í Göttingen-háskóla og læknadeildina við háskólann í Schleswig-Holstein lýsa tækninýjunginni í vísindalegri grein þar sem fram kemur að komið hafi verið fyrir á konunni tíu plástrum sem ganga undir heitinu „ræktaður hjartavöðvi“.
Plástrarnir samanstanda af hjartavöðvum sem ræktaðir eru í rannsóknarstofu úr þeirri gerð frumna sem geta þróast yfir í ýmsar frumugerðir, en með því er átt við stofnfrumur.
Ræktuðu hjartafrumurnar eru látnar hvíla í hlaupi sem getur myndað ytra byrði hjartans og gegnir því hlutverki að gera við hjarta sem hjartagalli leynist í, skrifa vísindamennirnir í fréttatilkynningu.
400 milljón frumur
Í þessari nýju grein sem birtist í vísindatímaritinu Nature er bæði sagt frá sjálfri lækningaaðferðinni, svo og fyrri rannsóknum sem leitt höfðu í ljós að öruggt væri að beita aðferðinni.

Rafbylgja fer gegnum hjartað
Fylgst er grannt með hjartslættinum með gangráði sem komið var fyrir í sjúklingnum. Hann sendir taktföst rafboð út í vöðva hjartans, sem sjá líkamanum fyrir súrefnisríku blóði í fullkominni samvinnu sín á meðal.
1. Líffræðilegur gangráður stjórnar hjartanu
Sínushnútur er samsafn sérhæfðra frumna og er hann staðsettur í hægri hjartagátt þar sem hann sendir frá sér rafboð með reglulegu millibili. Rafboðin berast þaðan í hjartað eftir sérlegum leiðum sem eiga að tryggja að vöðvar hjartans dragist saman í réttri röð.
2. Gáttir hjartans dæla í takt
Gáttirnar tvær dragast fyrst saman. Hægri gáttin felur í sér súrefnissnautt blóð sem farið hefur um líkamann en hin vinstri inniheldur hins vegar súrefnisríkt blóð sem haft hefur viðkomu í lungunum. Gáttirnar tvær dæla blóðinu áfram yfir í hvolfin.
3. Lokur tryggja einstefnu
Hjartalokur sem eru staðsettar milli gáttanna og hjartahvolfanna gegna hlutverki ventla sem tryggja að blóðið renni ekki til baka úr hjartahvolfinu yfir í gáttina.
4. Hjartahvolfin dæla blóðinu áfram
Samdráttur í báðum hjartahvolfunum er síðasti þátturinn í hjartslættinum. Hægra hjartahvolf, sem er fullt af súrefnissnauðu blóði, sendir innihald sitt yfir í lungun þar sem blóðið tekur í sig súrefni. Vinstra hjartahvolfið, sem er útbúið sterkari vöðvum en hið hægra, dælir súrefnisríku blóðinu út í allan líkamann með stóru slagæðinni sem nefnist ósæð.
Í fyrri tilraunum voru vöðvaplástrarnir gerðir úr allt að 200 milljón frumum.
Plástrarnir hrintu af stað uppbyggingu nýrra hjartavöðvafrumna og stuðluðu þar með að bættri hjartastarfsemi, segja vísindamennirnir í fréttatilkynningunni.
Getur leyst af hólmi vélar
Konan er fyrsti sjúklingurinn sem fengið hefur plástur á hjartað.
Í hverjum þeirra tíu plástra sem komið var fyrir á hjarta konunnar var að finna 400 milljón frumur, stendur í Nature.
Hjörtu okkar slá 100.000 sinnum á sólarhring. Vísindamenn hafa nú komist að raun um að hver einasti sláttur hefur áhrif á heilann þannig að skynfærin slævast, sársaukaþröskuldurinn hækkar og tilfinningarnar verða næmari.
Vísindamennirnir segja hjarta sjúklingsins hafa þróast í afar jákvæða átt eftir að plástrunum með stofnfrumunum var komið fyrir á hjartanu og að það hafi framleitt nýjar hjartavöðvafrumur þrátt fyrir hjartagallann.
„Þetta úrræði getur komið í stað vélræns stuðnings í sumum einstaklingum og jafnvel verið varanleg lausn fyrir þá sjúklinga“, segir einn af vísindamönnunum að baki rannsókninni.
