Ólympusfjall á Mars teygir sig 26 km upp í loftið og er því ekki aðeins hæsta fjalla á Mars, heldur í öllu sólkerfinu.
Á grundvelli fjölda loftsteinagíga í hraunum frá eldfjallinu er áætlað að það hafi síðast gosið fyrir um 25 milljónum ára.
Sjálfur toppurinn hefur reyndar fallið niður í kvikuhólf þannig að efst er nú djúpur gígur.
En þarna uppi hafa stjörnufræðingar nú greint meira en 150 milljón lítra af ís gegnum myndavél um borð í evrópska geimfarinu ExoMars Trace Gas Orbiter.
Ís hefur áður greinst við pólana og neðanjarðar á Mars en hingað til hafa menn ekki vitað til að vatn gæti verið í svo mikilli hæð á Mars. Olympusfjall er nefnilega á svonefndu Tharsissvæði nálægt miðbaug og þar er loftslagið tiltölulega milt.
60 sundlaugar af ís
Stjörnufræðingar uppgötvuðu ísinn við greiningar á meira en 30.000 myndum af þessu 3,5 milljarða ára gamla eldfjalli.
Í niðurstöðum sínum, sem birtar voru í Nature, segja vísindamennirnir að ísinn gufi upp um tveimur tímum eftir að sólin kemur upp. Íslagið er líka ótrúlega þunnt, sennilega ekki öllu þykkara en mannshár.
Engu að síður er þetta töluvert magn af vatni.

Ólympusfjall er 26 km á hæð og þar með 2,5 sinnum hærra en Everestfjall. Við tind fjallsins eru sex gígar sem sumir eru allt að 3 km á dýpt.
Vísindamennirnir áætla að þarna séu um 150 milljón lítrar eða ámóta mikið og þarf til að fylla 60 sundlaugar á Ólympíuleikum.
„Við álitum ómögulegt að nokkurt vatn gæti verið að finna við miðbaug á Mars þar eð sólskin og þunnt gufuhvolf hjálpast að við að halda hitastiginu tiltölulega háu bæði á fjallinu og landinu í kring – öfugt við það sem gerist á jörðinni, þar sem jöklar myndast í mikilli hæð,“ segir Adomas Valantinas, einn stjörnufræðinganna í fréttatilkynningu.
Ísinn myndast einkum niðri í gígnum og samkvæmt niðurstöðu stjörnufræðinganna er það loftstreymi við tindinn sem veldur því að ís getur myndast einmitt þarna uppi. Vindur blæs upp hlíðarnar og flytur með sér þann litla raka sem er að finna í loftinu. Þarna uppi þéttist rakinn og myndar ís.
Samkvæmt rannsókninni getur ísinn verið leifar af fornri loftslagshringrás á Mars, þegar mögulega snjóaði í fjöll.
Þetta opnar vísindamönnum alveg nýja sýn. Flestar gervihnattamyndir af Mars eru teknar síðdegis þegar birtan er mest. Á þeim tíma er þess ekki að vænta að hægt sé að greina ísingu á fjöllum rauðu plánetunnar.