Í september 1912 var fellibyljatíminn í Suð-austur Asíu í hámarki. Stormarnir herjuðu einnig á Japan og grönduðu uppskeru, símastaurum og tugum þúsunda húsa.
Auðvitað höfðu stormarnir einnig áhrif á hafnir og siglingar sem reyndist örlagaríkt fyrir farþegaskipið Kiche Maru.
Þann 22. september 1912 sökk það í sérstaklega sterkum fellibyl og tók meira en 1.000 manns með sér í djúpið.
Þessi hörmungaratburður fékk lítið rúm í heimsfréttunum þar sem athygli heimsins beindist öll að öðru og þekktara skipi sem fórst sama ár: Titanic.
Öllum var sama um Kiche Maru
Fimm mánuðum áður en Kiche Maru fórst hafði Titanic sokkið eftir að hafa siglt á borgarísjaka í jómfrúarferð sinni yfir Atlantshafið. Með því fórust um 1.500 manns.
Kiche Maru var bara venjulegt farþegaskip á reglubundinni siglingu meðfram ströndum Japans en Titanic var annarrar gerðar; íburðarmesta farþegaskip í heimi – og sagt ósökkvandi – og flutti ríka og fræga fólkið yfir Atlantshafið. Þess vegna var Titanicslysið miklu áhugaverðara en Kiche Maru í augum heimspressunnar.
Þar að auki var Kiche Maru bara eitt af fjölmörgum skipum sem fórust í þessum fellibyl. Fellibylurinn 22. september 1912 var sá kröftugasti sem gengið hafði yfir Japan í 50 ár.
Stóru, olíuknúnu fragtskipin fá nú samkeppni frá umhverfisvænni farartækjum. Svíar hyggjast sjósetja 200 metra langt seglskip 2024.

Frásögnin af Kirche Maru fékk lítið rúm í vestrænum fjölmiðlum
„Tjón upp á 20 milljónir dollara varð í Japan í fellibylnum sem gekk yfir landið á sunnudaginn … uppskera eyðilagðist um allt land, Keiku Maru sökk úti fyrir Enshu með allri áhöfn og farþegum“, sagði í frétt í The New York Times 27. september 1912.
Nafn skipsins var ekki rétt stafsett og Enshu sem er nefnt í blaðinu var í raun stærsta eyja Japans, Honshu.