Skrifað af Loftlag og umhverfi

Ný græn bylting

Nýjar plöntur eiga að sjá okkur fyrir meiri fæðu

Mannkyninu fjölgar stöðugt og við þurfum að framleiða sífellt meiri fæðu, án þess þó að ýta undir hlýnun Jarðar frekar. Við þurfum með öðrum orðum að umbylta landbúnaðarhefðunum.

„Græna byltingin“ er heitið á þeirri gjörbyltingu sem átti sér stað í landbúnaði víðs vegar um heim upp úr 1960. Íbúafjöldi heims jókst gífurlega og þessi aukning virtist um tíma ætla að verða örari en framleiðslugeta matvæla réði við, einkum í fátæku löndunum. Þökk sé nýjum framleiðslutegundum og bættum ræktunaraðferðum tókst að koma í veg fyrir yfirvofandi matvælaskort á þessum tíma.

Græna byltingin hafði til dæmis í för með sér nýja tegund hrísgrjóna, sem óx hraðar og gaf meira af sér en áður hafði þekkst. Með þessari nýju tegund fjölgaði árlegum uppskerum úr tveimur í þrjár.

Nú þvinga loftslagsbreytingar og fjölgun mannkyns okkur til að umbylta landbúnaðinum á nýjan leik. Ástæðan er grafalvarleg: Meðalhiti Jarðar er nú um 15 stig og gert er ráð fyrir að hann eigi eftir að hækka um heilar tvær gráður, auk þess sem hækkunin er talin munu eiga sér stað hraðar en sem nemur þeim tíma sem það tekur plönturnar að aðlaga sig. Þá má jafnframt búast við miklum veðrasviptingum á mörgum stöðum. Þurr svæði Jarðar munu að öllum líkindum þorna enn meir og þau röku verða enn rakari. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að íbúum Jarðar muni fjölga um heila tvo milljarða til ársins 2050 og verða alls níu milljarðar.

Nauðsynlegt verður að rækta meira land og samkvæmt heimildum frá FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, er ónýtt svæði sem henta fyrir landbúnað einkum að finna í Afríku. Löndin í norðri ættu að sama skapi að geta uppskorið meira en nú þekkist á þeim svæðum, sökum þess að hnatthlýnunin mun gagnast þessum svæðum.

Þá er einnig ætlunin að beita erfðatækni til að aðstoða okkur við að þróa plöntur með auknu viðnámi gegn salti, þurrkum og sjúkdómum, auk þess að stuðla að þróun nýrra tegunda, sem gefa meira af sér eða þá þroskast hraðar.

Skógræktinni er ætlað að kæla andrúmsloftið

Um þrjátíu hundraðshlutar Jarðar eru skógi vaxnir og þegar á heildina er litið binda þessi svæði meiri koltvísýring en þau losa. Þessa vitneskju getum við jafnframt nýtt okkur, en með því að skapa nýjar skóglendur getum við aukið timburframleiðsluna og að sama skapi dregið úr gróðurhúsaáhrifunum.

Alls 77 hundraðshlutar alls kolefnis sem bundið er í gróðri Jarðar er bundið í trjám og ekki nóg með það: Skógar heimsins eru í þó nokkurri aukningu, bæði hvað heildarmassa þeirra og útbreiðslu varðar. Þar sem tré eru vel til þess fallin að taka upp koltvísýring eru bundnar vonir við að skógarnir muni gagnast vel við að koma andrúmsloftinu á réttan kjöl.

Andrúmsloftið inniheldur langtum meira af koltvísýringi nú en raunin var fyrir iðnbyltinguna en fyrir vikið hafa tré Jarðar miklu greiðari aðgang nú að koltvísýringi og þetta sést m.a. á vexti þeirra. Þau vaxa ofur einfaldlega hraðar og það hefur svo í för með sér að þau taka upp enn meira magn af koltvísýringi, auk þess sem skógarnir geta séð okkur fyrir meira timbri.

Núorðið vaxa tré norðar á hnettinum en nokkru sinni fyrr og trén eru á hraðri leið upp fjallshlíðarnar. Vísindamenn frá Nýja Sjálandi hafa rannsakað 166 ólíka staði, þar sem fylgst hefur verið með vexti trjáa allar götur frá árinu 1900 og á alls 87 svæðum hafði skógurinn breitt úr sér. Útbreiðslan hafði hins vegar staðið í stað á 77 stöðum en skógar höfðu einungis hopað á tveimur stöðum.

Þá hafa norskir vísindamenn að sama skapi sýnt fram á að trjámörkin hafa færst fimmtíu metrum ofar í fjöllunum og að vaxtartímabilið á Norðurlöndum hefur aukist um alls eina til tvær vikur. Lengri frostlaus tímabil og mildari vetur virðast vera nærtækasta skýringin á uppgangi skóganna, svo hlýnun jarðar virðist hafa gagnast þeim.

Þetta jafnvægi stendur hins vegar á brauðfótum. Á hitabeltissvæðunum er sífellt hærra hlutfall regnskóganna brennt til að skapa svæði fyrir landbúnað og þess má einnig geta að skógareldar eiga stóran þátt í koltvísýringslosun jarðar. Takist okkur ekki að takmarka hitastigshækkunina við innan við tvær gráður er hætt við að fari illa en þá má búast við að skógareldar verði svo útbreiddir og algengir að skógarnir í versta falli fari að losa sig við meiri koltvísýring en þeir taka upp.

Jörðin verður að fá koltvísýringinn sinn til baka

Þaulræktun landbúnaðarins hefur sogað kolefni úr jörðu svo áratugum skiptir. Nú er tími til kominn að snúa þróuninni við. Vísindamenn benda á margar leiðir til þess að varðveita koltvísýring í jörðu, í því skyni að draga úr gróðurhúsaáhrifunum.

Í Bandaríkjunum einum hafa skógar og landbúnaður getu til að binda 650 milljónir tonna af koltvísýringi á ári en það svarar til eins níunda af samanlagðri losun í Bandaríkjunum. Þetta sýndu sérfræðingar bandaríska jarðvegsfræðifélagsins (Soil Science Society of America) fram á. Þeir telja að okkur hætti til að gera of lítið úr því hvað meðhöndlun okkar á jarðveginum hefur mikil áhrif á andrúmsloftið í framtíðinni.

Sérfræðingarnir benda enn fremur á að beita megi tiltölulega einföldum ráðum til að gera jarðveginn langtum ríkari af koltvísýringi en raun ber vitni í dag. Ávinningurinn ætti meira að segja að verða tvíþættur, því ef við notum Jörðina sem kolefnisforðabúr gætum við jafnframt gert hana frjósamari og harðgerari, en þannig myndi Jörðinni jafnframt haldast betur á rigningarvatni.

Fram til þessa hefur þróunin nánast öll verið á skjön við það sem æskilegt þætti. Þaulræktun í landbúnaði hefur dregið úr kolefnismagni Jarðar, ef marka má mælingar frá ýmsum löndum í Evrópu. Í Belgíu hafa sérfræðingar til dæmis rannsakað kolefnisinnihald alls 210.000 jarðvegssýna og niðurstöðurnar leiddu í ljós að ár hvert á tíu ára tímabili hurfu 76 grömm kolefnis úr hverjum fermetra af jarðvegi.

Þegar á heildina er litið hefur jarðvegur í Evrópu að geyma u.þ.b. 71 milljarð tonna af kolefni en hann ætti að geta geymt miklu meira magn. Þetta væri til dæmis hægt með því að endurheimta mýrarnar sem við höfum þurrkað upp gegnum árin, en áhrifameira væri þó að plægja niður kolefni, en sú aðferð stuðlar sums staðar enn fremur að bættri uppskeru.

Á meðan við bíðum …

Við getum breytt matarvenjum okkar

Á meðan breytingar verða gerðar á framleiðslu innan landbúnaðar og skógræktar þá getum við neytendur samt ýmislegt gert.

Við neytum sem vitað er mikils magns af kjöti og gera má ráð fyrir enn meiri aukningu í takt við bætt lífskjör. Kjötframleiðsla hefur hins vegar mun slælegri áhrif á andrúmsloftið en framleiðsla annarra fæðutegunda.

Ef við viljum andrúmsloftinu vel gætum við lagt okkar af mörkum með því að breyta matarvenjunum og vanda val okkar á kjöti. Fiðurfé og svínakjöt eru miklu vænlegri kostir en til dæmis nautakjöt. Líkt og sjá má af tölunum hér að neðan íþyngir kjúklingakjöt andrúmsloftið fimm- til sexfalt minna en nautakjöt, vegna þess að kjúklingar þurfa miklu minna fóður til að framleiða kjöt en naut.

Subtitle:
Áður en langt um líður þurfa akrar og skógar Jarðar að geta séð átta til níu milljörðum manna fyrir fæðu og timbri, og það meira að segja í hlýrra loftslagi en áður, sem stuðlar að enn lakari aðstæðum. Verkefnið virðist vera gríðarstórt en til allrar hamingju er lífhvolf Jarðar mjög sveigjanlegt og með markvissu átaki ætti að vera unnt að auka framleiðni landbúnaðarins og skógræktarinnar og draga að sama skapi úr hlýnun Jarðar.
Old ID:
980
797
(Visited 24 times, 1 visits today)
Síðast breytt: september 17, 2019

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.