Undir lok 16. aldar hafði biskupinn William Cotton við dómkirkjuna í ensku borginni Exeter fengið sig fullsaddan af músagangi. Tannhjól klukkunnar voru smurð með dýrafitu og lyktin af henni laðaði að litlu nagdýrin.
Mýsnar klifruðu upp eftir snúrunum sem klukkulóðin héngu í og þaðan inn í sjálfa klukkuna þar sem þær hámuðu í sig fituna. Tannhjólin snerust fyrir vikið ekki jafn greiðlega og ella og þetta orsakaði að sama skapi slit á hreyfiflötum klukkunnar.
Biskupinn dó hins vegar ekki ráðalaus. Eins og fram kemur í árbókum dómkirkjunnar greiddi Cotton árið 1598 smiði einum fyrir að gera hringlaga gat á kirkjuhurðina. Kettir komust þá óáreittir inn og út um lúguna og mýsnar hættu að gera óskunda.
Kettir á launaskrá
Ef marka má bókhaldsbækur dómkirkjunnar hafa kettir verið ráðnir til músaveiða við dómkirkjuna í Exeter allar götur frá því á 14. öld. Launin námu 13 penníum sem jafngildir um 1.400 íslenskum krónum í dag og voru þau greidd á þriggja mánaða fresti.
Upphæðin var greidd „fjárhaldsmanni kattanna“ (lat.: custoribus pro cato). Að öllum líkindum hefur verið um að ræða mann sem leit eftir köttunum og keypti handa þeim fæðu fyrir peningana.
Kattalúgan í Exeter var lengi vel talin vera sú elsta í Englandi, allt þar til keppinautur birtist á sjónarsviðinu. Árið 2013 státaði Chetham bókasafnið í Manchester sig af því á Twitter-síðu safnsins að kattalúga þeirra stafaði „frá miðöldum“, einhvern tímann á síðari hluta 15. aldar.

Chetham's Library (til vinstri) og dómkirkjan í Exeter (hægri) segjast vera með elstu kattarlúgu Englands.
Kattalúguna á Chetham-bókasafninu er að finna á hurðinni á steinbyggingu safnsins sem reist var árið 1421.
Tilgangurinn með lúgunni var að tryggja að kettir hverfisins gætu gengið óáreittir inn og út til þess að hafa hemil á músum hverfisins sem sóttu ákaflega mikið í bæði pappír og bókfell.
Fræðimenn vita hins vegar ekki hvenær lúgan í Manchester var gerð, né heldur hvenær henni var komið fyrir.
Ef hins vegar hurðin og lúgan eiga rætur að rekja til miðalda verður kattalúgan í Manchester að teljast vera sú elsta í Englandi.
Báðar eru kattalúgurnar til í dag þó svo að músunum hafi fækkað. Í Exeter er stjörnuklukkan ekki smurð með dýrafitu lengur, heldur olíu.