Innsti kjarni jarðar er þétt og glóandi heit kúla úr nikkel og járni. Frá fótum okkar niður að kjarnanum eru um 5.100 km en að umfangi er hann um tveir þriðju af stærð tunglsins.
Síðustu tvo áratugi hafa hreyfingar kjarnans verið mjög til umræðu meðal jarðvísindamanna. Sumir telja hann snúast hraðar en yfirborð jarðar en aðrir hafa verið á alveg öndverðri skoðun. Nú hefur nokkru ljósi verið varpað á þetta.
Hópur vísindamanna sem stýrt er frá Suður-Kaliforníuháskóla (USC) í BNA hefur komist að þeirri niðurstöðu að snúningshraði kjarnans fari minnkandi.
Jarðskjálftamælingar
Við rannsóknina voru notuð gögn jarðskjálftamæla frá 121 jarðskjálftahrinu við eyjarnar Suður-Samlokueyjar sem eru sunnarlega í Atlantshafi. Gögnin náðu frá 1991-2023.
Til viðbótar studdust vísindamennirnir við gögn frá kjarnorkutilraunum Sovétmanna á árunum 1971-74 ásamt gögnum frá kjarnorkutilraunum Bandaríkjamanna og Frakka ásamt eldri rannsóknum á innri kjarna jarðar.
Vísindamennirnir athuguðu hvernig jarðskjálftabylgjurnar juku hraða, drógu úr honum eða blönduðust til að reikna út staðsetningu og snúningshraða innri kjarnans. Í ljós kom að snúningshraðinn hefur minnkað síðan 2010.
Vísindamennirnir álíta að minni hraði kunni að skýrast af stöðugri hreyfingu í ytri kjarnanum sem gerður er úr fljótandi járni, ásamt áhrifum frá mikilli þéttni sums staðar í möttlinum.
„Þegar ég sá fyrst mæligögn sem bentu til þessarar breytingar, átti ég ekki orð,“ segir John Vidale prófessor við USC, einn vísindamannanna í fréttatilkynningu.
„Í fyrsta sinn í marga áratugi hafði innri kjarninn hægt á sér. Aðrir vísindamenn hafa nýlega fært rök að svipaðri þróun og stutt með tölvulíkönum en þessi nýjasta rannsókn okkar er sú sem býður upp á mest sannfærandi skýringu.“
Ferð að iðrum jarðar myndi útheimta að farið yrði gegnum mörg sjóðandi heit jarðlög. Þessi 6.370 km langa ferð myndi hefjast á stuttri ferð gegnum skorpu jarðarinnar. Síðan tæki við ferð gegnum þykkan möttulinn sem meginlandsflekarnir fljóta á. Ferðinni myndi svo ljúka í miðjum járnríkum kjarnanum.
Enn er alveg óvíst hvaða þýðingu þetta kynni að hafa fyrir íbúa jarðar eða hvernig við gætum hugsanlega fundið fyrir áhrifum minnkandi snúningshraða.
Vísindamennirnir telja að minni snúningshraði innri kjarnans gæti stytt sólarhringinn um fáein sekúndubrot.
Í nánustu framtíð hyggjast vísindamennirnir kortleggja snúning innri kjarnans af enn meiri nákvæmni til að öðlast sem nákvæmastan skilning á því hvernig og hvers vegna hann hreyfist.
Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í vísindatímaritinu Nature.