Enginn veit nákvæmlega hvenær fyrsta vélræna klukkan var smíðuð en ýmislegt bendir til að það hafi gerst í Evrópu í lok 13. aldar.
Miðaldahandrit frá þeim tíma nefna nýja gerð dýrra klukkna en orðið sem notað var í upphafi var horologium, sama orð og lengi hafði verið notað um aðra tímamæla sem lengi höfðu verið notaðir, svo sem sólúr og vatnsúr. Það er því ógerlegt að vita með vissu hvers konar klukkur var átt við í þessum ritum.
Kínverjar voru ekki fyrstir
Rétt eins og gildir um svo margar aðrar merkar nýjungar eru deildar meiningar um það í hvaða heimshluta vélrænar klukkur hafi fyrst verið gerðar.
Sumir vilja meina að stóru stjarnfræðiklukkurnar sem byggðar voru í kína á 11. öld eigi með réttu að teljast fyrstu mekanísku klukkurnar. En þetta er hæpin túlkun. Vissulega voru þetta flókin tæki en byggðust alltaf á grunni vatnsúrsins, þar sem vatnsbuna var notuð til að mæla gang tímans.
Í lok 13. aldar var farið að hafa klukkur í kirkjuturnum Evrópu.
Klukkan er orðin 3.500 ára
– 1500 f.Kr.
Sólúr og vatnsúr voru þróuð á forsögulegum tíma.
– 13. og 14. öld
Vélrænar klukkur koma fram.
– 16. öld
Fyrstu vasaúrin smíðuð en ná ekki útbreiðslu fyrr en á 19. öld.
– 17. öld
Pendúlklukkan gerði tímamælingar mun nákvæmari en áður var.
Þær vélrænu klukkur sem smíðaðar voru í Evrópu nýttu vissulega líka svokallað hömluhak til að stýra því hvernig úrverkið snerist.
En það sem knúði evrópsku klukkurnar voru lóð sem gengu upp og niður. Klukkan var þannig óháð kulda, öfugt við vatnsúrin sem stöðvuðust þegar vatnið fraus.
Bresk nákvæmni borgaði sig
Lóðin í vélrænni klukku knúðu úrverkið sem aftur sneri tímamælinum. Og í þessu lá stóri munurinn – vélræna klukkan notaði hreyfingar lóðanna til að mæla tímann. Þetta var gríðarleg tækniframþróun.
Að mæla tímann með hreyfingu sem gengur fram og til baka, í stað þess að mæla hann með vatni eða sandi, var gerbylting og lagði grunninn að öllum klukkum síðari tíma.
Fyrstu klukkurnar sem vitað er um með vissu smíðaði Englendingurinn Richard af Wallingford árið 1336.
Ábótinn og vísindamaðurinn Richard af Wallingford með klukkuna sem hann hannaði árið 1336.
Hann skrifaði svo nákvæma lýsingu á klukku sinni og virkni hennar að hægt hefur verið að endursmíða slíka klukku í nútímanum. Á síðari hluta 14. aldar breiddist uppfinning Wallingfords út um Evrópu.
Kirkjan þurfti nákvæmni
Klukkurnar héldu áfram að þróast í klaustrum Evrópu þar sem menn höfðu mikla þörf fyrir nákvæmar tímasetningar.
Guðsþjónustur átti t.d. að halda á nákvæmlega ákveðnum tímum – líka stundum að næturlagi, þegar sólúr voru alveg gagnslaus.
Síðar var klukkum svo komið fyrir í kirkjuturnum inni í miðjum borgum og bæjum og við það fengu þær stærra hlutverk í augum almennings. Klukkurnar voru hins vegar ekki alls kostar nákvæmar og það var sennilega ekki fyrr en á 16. eða 17. öld sem þær tóku að skipta verulega máli fyrir allan almenning.
En eftir að klukkurnar urðu nákvæmari, fjölgaði þeim hratt og þær urðu hluti af daglegu lífi fólks. Fyrirtæki fóru að nota klukkur til að ákvarða vinnutímann – í upphafi í námum og textíliðnaði.
Smám saman fengu klukkurnar æ meiri þýðingu í samfélaginu.
Christiaan Huygens (1629-1695) hafði mörg járn í eldinum. Auk rannsókna á nákvæmni klukkna rannsakaði hann m.a. hringa Satúrnusar og hröðun.
Hollendingurinn sem lét klukkur ganga rétt
Fyrstu vélrænu klukkurnar voru ekki nákvæmar og mældu aðeins klukkustundir. Það var ekki fyrr en hollenski vísindamaðurinn Christiaan Huygens fann upp pendúlklukkuna sem það þjónaði tilgangi að láta annan vísi sýna mínútur – og enn síðar þann þriðja telja sekúndur.
Klukka Huygens var svo nákvæm að ekki skeikaði meira en 10 sekúndum á sólarhring. Árið 1761 sigraði sjálflærður úrsmiður, John Harrison, í samkeppni á vegum breska flotans.
Verkefnið var að smíða klukku sem sýndi réttan tíma, líka um borð í skipi í kröppu veðri. Klukku Harrisons skeikaði ekki meira en um fimmtung úr sekúndu á sólarhring, alveg án tillits til veðurs.
Hagsagnfræðingurinn Lewis Mumford hefur bent á klukkuna sem mikilvægustu skýringuna á iðnbyltingunni í Englandi á 18. öld.
Klukkan gerði nefnilega kleift að líta á tímann sem vöru sem hægt var að kaupa og selja.
Klukkur áttu þannig sinn þátt í að auka kröfur um afköst. Í upprennandi iðnaðarsamfélagi gátu menn rannsakað hvernig unnt væri að nýta vinnutímann sem best. Slíkar rannsóknir skiptu sköpum og orðatiltækið „tíminn kostar peninga“ varð til.
Á hinn bóginn tók fólk snemma að mótmæla valdi klukkunnar yfir lífi sínu. Og þegar allt kemur til alls þarf það kannski ekki að vera svo skrýtið að sumir skuli enn í dag taka af sér úrið í fríinu – eins og til að undirstrika að nú skuli lífinu lifað í frelsi.
Meira um efnið:
David S. Landes: Revolution in Time: Clocks and the Making of the Modern World, Viking, 2000