Það er vel þekkt að ófædd börn geta byrjað að heyra hljóð eftir um sjö mánuði í móðurkviði.
Nú sýnir ný rannsókn frá Paduaháskóla á Ítalíu að fóstrið byrjar að læra málið fyrir fæðingu.
Vísindamennirnir settu rafóður á nýfædd börn frönskumælandi foreldra. Rafóðurnar greindu virkni þeirra heilastöðva sem vinna úr hljóðum og tali. Meðan fylgst var með þessari virkni var klassísk barnasaga spiluð fyrir börnin á þremur tungumálum.
Móðurmálið trompar
Eftir að börnin höfðu heyrt söguna lesna á frönsku, spænsku og ensku, varð alveg ljóst að heilavirknin hafði verið mest meðan sagan var lesin á frönsku.
Þessi kornabörn virtust þannig þekkja takt og hljómfall móðurmálsins sem bendir til að þau hafi verið byrjuð að tileinka sér það strax í móðurkviði.
Vísindamennirnir álíta nú að það geti komið barninu til góða að tala sem mest þótt barnið sé enn ófætt, bæði beint við það sjálft en líka við annað fólk.
Ef steyptum gangstéttarhellum og möl væri skipt út fyrir jarðveg, gras og plöntur gæti það styrkt ónæmiskerfi barna og þarmaflóru þeirra á innan við mánuð.
Flestum ætti þó að duga sín venjubundna hegðun.
Vísindamennirnir segja flest fólk tala heilmikið, hvort það eru foreldrarnir að tala saman eða hin verðandi móðir að spjalla við nágranna, vinnufélaga eða á afgreiðslukassa í búðinni.
Hvort umræðuefnið skiptir einhverju máli, kemur ekki fram í niðurstöðunum.