Sum okkar spretta upp við fyrsta hanagal og erum eins og glænýar Duracell rafhlöður allan daginn og náum svo að róa okkur niður bæði líkamlega og andlega þegar skyggja tekur.
Fyrir aðra er þetta öfugt.
Fyrri hópurinn eru morgunhanarnir eða A-manneskjurnar. Hinn hópurinn eru svokallaðir nátthrafnar eða B-manneskjur.
Og samkvæmt hóp vísindamanna frá Imperial College í London hafa nátthrafnarnir greinilega kosti fram yfir þá sem eru morgunhressir. Þetta fundu vísindamennirnir út með því að greina gögn 26.820 einstaklinga á aldrinum 53-86 ára, en heilsuupplýsingar þeirra eru geymdar í umfangsmikilli skrá, UK biobank í Bretlandi.
Standa sig betur í greindarprófum
Það kom í ljós að fólk sem hefur tilhneigingu til að vera nokkuð hresst á kvöldin stóð sig betur í greindarprófum, samanborið við morgunhanana.
Fræðimennirnir bresku skoðuðu hvernig ýmsir svefnþættir eins og lengd svefns, svefnmynstur og svefngæði höfðu áhrif á andlega skerpu og vitræna virkni þátttakenda. Þátttakendur þurftu einnig að láta vita hvort um þau væru morgunhanar eða nátthrafnar.
Rúmlega 26.000 þátttakendum í tilrauninni var skipt í tvo stóra hópa. Annar hópurinn, sem samanstóð af 10.067 manns, var prófaður í fjórum tegundum vitrænnar færni. Hinn , hópurinn sem samanstóð af 16.753 manns, var prófaður í tveimur tegundum vitrænnar færni.
Sjö til níu tíma svefn er ákjósanlegur
Samkvæmt rannsókninni, sem birt var í BMJ Public Health, var sjö til níu tíma svefn ákjósanlegur fyrir heilastarfsemina. Það hafði örvandi áhrif á minni, getu til að hugsa rökrétt og hraðann sem heilinn vinnur úr upplýsingum.
Ef sofið var minna en sjö klukkustundir eða meira en níu klukkustundir á hverri nóttu hafði það neikvæð áhrif á heilastarfsemi
Á heildina er litið stóðu næturhrafnarnir sig betur en morgunhanarnir í hinum ýmsu tegundum greindarprófa í báðum hópum. Í öðrum hópnum fengu næturhrafnarnir 13,5 prósent betri einkunn en morgunhanarnir. Í hinum hópnum stóðu nátthrafnarnir sig 7,5 prósent betur.
Ekki bara næturhrafnar sem eru skarpir
„Það er hins vegar mikilvægt að undirstrika að þetta þýðir ekki að allir morgunhanar standi sig illa í greindarprófum. Niðurstöðurnar endurspegla almenna tilhneigingu, þar sem meirihluti þeirra sem hafa betri vitræna virkni virðist vera næturhrafnar.
Það er vissulega hægt að breyta náttúrulegum svefnvenjum þínum með því að breyta háttatímanum í rólegheitum, minnka ljósmagnið á kvöldin og halda sig við ákveðna svefnáætlun. Hins vegar er öllu erfiðara að breyta sér úr morgunhana í nátthrafn,“ segir forsvarsmaður rannsóknarinnar Dr. Raha West frá Imperial College London í fréttatilkynningu á heimasíðu háskólans.
Dr. Raha bendir einnig á að þótt mikilvægt sé að skilja og vinna með eðlilega svefntilhneigingu sína er jafn mikilvægt að passa upp á að fá réttan magn af svefni – hvorki of mikið né of lítið. Þetta er mikilvægt fyrir viðhald á heilbrigðum og vel starfhæfum heila.
Slökktu á farsímanum og farðu að sofa! Margar dýratilraunir hafa sýnt að langtíma svefnleysi getur beinlínis verið banvænt. Nú sýna nýjar tilraunir að það er ekki heilinn heldur þarmarnir sem gefa sig fyrst.
Rannsókn bresku vísindamannanna tók tillit til annarra þátta eins og aldurs, kyns, reykingavenja og áfengisneyslu, auk langvinnra sjúkdóma eins og hjarta- og æðasjúkdóma og sykursýki. Yngri þátttakendur og þeir sem voru án langvinnra sjúkdóma fengu hærri einkunn í vitrænum prófum og einnig fannst fylgni á milli heilbrigðs lífsstíls og meiri vitrænnar færni.
Að sögn vísindamannanna sýnir rannsókn þeirra að lengd svefns hefur bein áhrif á heilastarfsemina og þeir eru þeirrar skoðunar að aðlögun á svefnmynstrinu sé afar mikilvægt til að efla heilastarfsemina. Þeir myndu vilja sjá meira gert til að bæta svefnmynstur almennings.