Nemandi einn endaði líf sitt með stríðsöxi á kafi í höfuðkúpu sinni og annar var stunginn til bana af því að hann ögraði syngjandi karlakór.
Dæmin um ofsafengin morð í enskum háskólabæjum hafa verið þaulskoðuð í umfangsmikilli rannsókn á ofbeldi í Oxford, Cambridge og York.
Í umfangsmiklum gagnagrunni „Medieval Murder Maps“ kortleggja vísindamenn og bera saman þekkt morðmál í bæjunum þremur og afhjúpa skelfilega tilhneigingu: Það var fjórum til fimm sinnum líklegra að vera myrtur þegar maður bjó í háskólabænum Oxford heldur en í stórborgum miðalda eins og London og York.
Meðal þekktra morðingja í Oxford voru um 3 af hverjum 4 skilgreindir af réttarmeinafræðingum sem „clericus“. Það sama átti við um 72% af öllum fórnarlömbum morðingjanna í Oxford. Á þessum tíma vísar „clericus“ yfirleitt til námsmanna eða starfsfólks háskólanna.
„Nemendur í Oxford voru allir karlmenn og jafnan milli 14 og 21 árs gamlir og því skjótir til að grípa til ofbeldis væri þeim misboðið. Þetta voru ungir menn sem voru í fyrsta sinn lausir undan hörðum aga fjölskyldunnar eða sóknarkirkjunnar og var kastað inn í umhverfi sem var fullt af vopnum, krám og hóruhúsum“, segir Manuel Eisner prófessor, forstjóri Cambridge Institute of Criminology.
Það var þó ekki einungis aldursins vegna sem ofbeldið var svona mikið í háskólabænum. Margir nemendur tilheyrðu mismunandi félögum sem nefndust „nations“ og oft kom til blóðugra átaka milli þeirra.
Kviðdómur átti að finna þá seku
Nú er hægt að fara í kynnisferð og fræðast um mismunandi morðmál á heimasíðu Cambridge Violence Research Center.
Með aðstoð fornra korta hafa fræðimenn útbúið götukort yfir 345 morðum sem framin voru í bæjunum þremur. Í hverju máli er hægt að lesa upprunalega lýsingu réttarmeinafræðinga á morðinu en þær hafa verið þýddar frá latínu yfir í ensku. Í mörgum málunum er einnig að finna ágrip af dómsmálum sem fylgdu í kjölfar morðanna.
„Þegar möguleg fórnarlömb morða fundust á síðmiðöldum í Englandi var réttarmeinafræðingur kallaður til og fógeti staðarins safnaði saman kviðdóm,“ segir Eisner. „Dæmigerður kviðdómur samanstóð af stöndugum karlmönnum frá svæðinu sem höfðu gott orðspor. Verkefni þeirra var að uppgötva atburðarrásina með því að yfirheyra vitni, leggja mat á möguleg sönnunargögn og síðan nafnkenna þann grunaða“.
Skýrslur kviðdómsins urðu því blanda af rannsóknarstarfi lögreglunnar og alls konar flökkusögum, samkvæmt fræðimönnum. Sumir kviðdómarar settu þannig saman spennandi frásögn með það að markmiði að hafa áhrif á niðurstöðuna, t.d. ef þeir töldu að drápið hafi átt sér stað í sjálfsvörn.
Á miðöldum gengu flestir með hnífa á sér. Þeir voru notaðir í hversdagsleg verkefni en einnig var hægt að spretta upp maganum á andstæðingi. Hér er safn hnífa frá um 1200 - 1500 sem allir hafa fundist í Thames.
Áfengi leiddi til heiftarlegra götubardaga
Sérstaklega mikilvægt þótti að sannfæra kviðdóminn um að þarna hefði verið brugðist við í sjálfsvörn. Á 14. öld var Oxford eitt veigamesta menntasetur í Evrópu þar sem íbúar töldu um 7.000 en af þeim voru 1.500 nemendur við skólann. En lífið þarna var einnig ákaflega ofbeldisfullt.
Manuel Eisner og kollegi hans Stephanie Brown áætla að morðtíðnin í Oxford hafi á einhverjum tímum verið um 60 – 75 fyrir hverja 100.000 íbúa. Þetta er um 50 sinnum meira en gengur og gerist í stórborgum nútímans í Englandi. Þessi hættulega blanda af ungum nemendum og alkóhóli reyndist vera sérstaklega eldfim.
Kvöld eitt árið 1298 enduðu deilur á krá einni í Oxford í heiftarlegum götubardaga þar sem sverðum og öxum var beitt. Bardaginn endaði þegar einn nemandinn var hogginn í höfuðið með stríðsöxi.
Við fyrstu sýn virtist Lucan lávarður vera hinn fullkomni breski aðalsmaður en spilafíknin lék hann aftur á móti grátt og maðurinn var skuldum vafinn. Þegar eiginkonan fékk forræði yfir börnunum við skilnað þeirra hjóna skipulagði Lucan blóðug áform sín.
Ekki fór betur árið 1306 þegar hópur ungra karlmanna úr efri stéttum hafði haldið upp á fæðingardag Jóhannesar skírara. Um miðnættið gengu þeir syngjandi um göturnar vel við skál þegar nemandinn Gilbert Foxlee steig þar allt í einu fram vopnaður sverði og heimtaði að fá að gerast meðlimur í kórsöng þeirra.
Þegar mennirnir neituðu honum um þann heiður elti hann þá og hrópaði að hann myndi höggva höndina af einum þeirra og taka stöðu hans í kórnum. Þar kom að þessar ögranir reyndust of miklar fyrir fimm stráka sem réðust á Foxlee með vopnum sínum. Foxlee lést átta vikum síðar en ekki er að sjá af málsgögnum að nokkur mannanna hafi verið dæmdur fyrir glæpinn.
Það eru einnig til fjölmörg dæmi um þrautskipulögð morð í gagnagrunninum. Sumarnótt eina árið 1325 varð embættismaðurinn Richard Overé fyrir árás fjögurra nemenda í Oxford sem réðust á hann með sverðum og öðrum vopnum og fannst hann dauður á heimili sínu seinna.
Þrátt fyrir að slíkar frásagnir séu ofbeldisfullar undirstrikar Eisner:
„Lífið í miðbæjum miðalda gat verið harðneskjulegt en þar ríkti samt alls ekki lögleysa. Þegnarnir voru ágætlega meðvitaðir um réttindi sín og skyldur og nýttu sér óspart lögin þegar kom til ofsafenginna átaka.“
Meiri fróðleikur á heimasíðunni