Árið 2011 lenti Hollendingurinn Gert-Jan Oskam í vélhjólaslysi sem skaddaði mænuna svo mjög að hann lamaðist fyrir neðan mitti.
Með háþróuðum tæknibúnaði hefur hópur svissneskra vísindamanna nú gert þessum fertuga manni kleift að nota fæturna aftur.
Búnaðurinn felst í ígræddum flögum í heila og mænu.
Aðgerðin var gerð í júlí 2021 og þá söguðu læknarnir tvö hringlaga göt, hvort sínu megin á höfuðkúpuna og komu fyrir tveimur litlum ígræðsludiskum. Þessi tæki senda heilaboðin út í búnað sem festur er utan á höfuðið. Þaðan berast boðin áfram til gervigreindartölvu sem sendir þau áfram í formi hreyfiboða til enn einnar ígræðsluflögu í mænunni.
Þessi búnaður gerir Gert-Jan Oskam með öðrum orðum kleift að hreyfa fæturna með því einu að hugsa sér hreyfingarnar. Hann getur nú bæði staðið og gengið og jafnvel komist upp nokkurn bratta í göngugrind.
Eitt af því sem hinn hollenski Gert-Jan Oskam hlakkar mest til að geta gert aftur er að standa við barinn og drekka bjór með vinum sínum. „Þessi litlu atriði tákna verulega breytingu á lífi mínu,“ sagði hann á blaðamannafundi eftir að niðurstöður vísindamannanna voru birtar.
Endurbætur á náttúrulegum taugabrautum líkamans
Það hefur líka komið í ljós að tæknin hefur haft jákvæð áhrif á þær taugabrautir sem sködduðust í slysinu.
Þetta hefur gert honum mögulegt að ganga við hækjur, þótt slökkt sé á tölvukerfinu. Vísindamennirnir segja þetta trúlegast stafa af því að taugabrautirnar hafi orðið fyrir örvun á tilraunatímabilinu.
Sjáðu og heyrðu vísindamennina ræða um hinar byltingarkenndu niðurstöður hér:
Sá búnaður sem nú er notaður er uppfærsla tölvubúnaðar sem upphaflega var græddur í mænuna árið 2017.
Eftir þá aðgerð gat hann lyft hælunum örlítið og með því móti sent rafboð sem örvuðu taugar í mænunni nóg til að geta tekið skref. Þetta var gerlegt vegna þess að mænan var ekki alveg sundurskorin og hann hafði enn dálitla tilfinningu í fótunum.
Á síðustu árum hafa vísindamenn náð ekki ósvipuðum árangri með aðra lömunarsjúklinga en þessi nýjasta uppfinning markar þau tímamót að í fyrsta sinn hefur tekist að tengja ígræðslur í heila við ígræðslu í mænu manns. Til viðbótar verða hreyfingar Oskams mun eðlilegri og jafnari en í eldri tilraunum.
Líffærin hafa mjög náið samstarf
Sérhæfð líkamsstarfsemi er í umsjá fjölmargra mismunandi líffæra. Hvert um sig sér aðeins um fáein afmörkuð verkefni. En oft mynda tvö eða fleiri líffæri samstarfskerfi til að annast mjög flókin verkefni.
Vísindamennirnir vonast til að þessi tækni geti staðið til boða öllum þeim sem hún gæti gagnast.