Maðurinn

Leiði er ofurkraftur okkar

Okkur finnst svo óþægilegt að láta okkur leiðast að við gerum nánast allt sem í okkar valdi stendur til að sleppa við það – og sú er einmitt ætlunin. Nú hafa vísindamenn komist að raun um hvar í heilanum leiði myndast og hvernig á því stendur að þessi leiðindatilfinning er okkur alveg nauðsynleg.

BIRT: 27/09/2024

Gerð var tilraun sem fólst í að skilja þátttakendur eftir eina með hugsanir sínar, hvern í sínu litla rými sem innihélt fáeina húsmuni. Þar var þeim ætlað að sitja aleinir í korter, án þess að hafa neitt fyrir stafni, utan það eitt að geta ýtt á takka sem fól í sér óþægilegt rafstuð þeim sjálfum til handa.

 

Niðurstaða þessarar þekktu tilraunar vakti mikla hneykslan, því alls 67% karlanna og 25% kvennanna leiddist í svo miklum mæli að þau völdu af fúsum og frjálsum vilja að fá í sig rafstuð, jafnvel hvað eftir annað. Í raun og veru ætti þetta ekki að koma neinum á óvart.

 

Vísindamenn eru nefnilega þeirrar skoðunar að leiði sé svo óþægileg tilfinning að honum megi beinlínis líkja við sult, því um sé að ræða viðvörunarmerki sem gegnum alla þróunarsöguna hafi fengið okkur til að taka okkur taki og halda okkar striki, í stað þess að verða sinnulaus.

 

Þetta táknar í raun að leiði sé ofurkraftur sem okkur hingað til hefur yfirsést því þegar okkur leiðist látum við hugann reika og fyllumst meiri sköpunarkrafti en ella. Nú benda vísindamenn hins vegar á að leiði eigi undir högg að sækja.

 

Heilinn útbúinn þremur gírum

Vísindamenn skilgreina leiða sem tilfinningalegt ástand sem einkennist af viðvarandi áhugaleysi, athyglisskorti eða fullnægjuskorti í tengslum við það sem við tökum okkur fyrir hendur ellegar í umhverfi okkar. Við fáum skyndilega ekki nægilega ögrun eða örvun og ástandið er iðulega tengt óróleika eða beinlínis kvíða.

 

Þetta þarf hins vegar ekki að tákna að okkur leiðist, þó svo að við sitjum einfaldlega bara og gónum út í loftið án þess að leiða hugann að neinu sérstöku. Leiði gerir ekki vart við sig fyrr en dagdraumar okkar, ellegar þau áhrif sem við verðum fyrir frá umhverfinu, uppfylla ekki þarfir okkar fyrir virkni eða dægrastyttingu.

Okkur leiðist ekkert endilega þegar við sitjum bara og látum okkur dreyma. Leiðindin skapast ef við finnum ekki neitt sem fangar athygli okkar.

Í raun réttri eru dagdraumar, þar sem hugsanir flæða í allar mögulegar áttir, undirstöðuástand heilans sem hann ver um 70% tímans í. Þetta svokallaða lausagangsnet er á fullum krafti þegar við förum út að ganga, ryksugum eða horfum út um glugga.

 

Hlutlausa netið felur í sér nokkrar heilastöðvar sem m.a. tengjast minni, innlifunargetu og hugleiðingum og þegar net þetta er virkt úir og grúir af samhengislausum hugsunum í höfði okkar.

 

Skyndilega gerist svo nokkuð óvænt, t.d. ef við heyrum krumma krunka á göngu okkar ellegar ryksugusnúran veltir um heilum bókastafla og við þetta skiptir heilinn um gír, fer úr hlutlausum yfir í það sem kalla mætti athyglisgír. Athygli okkar beinist að nýju aðstæðunum og býr okkur undir að þurfa að taka í skyndi ákvörðun um hvort við veljum að hunsa atburðinn eða gera eitthvað í málunum og fyrir bragðið virkjast svonefnt aðgerðanet heilans.

Þrjú net halda heilanum gangandi

Heilar okkar eru útbúnir þremur gírum, ef þannig má að orði komast: Hlutlausum, athyglisgír og aðgerðagír. Samstarf heilanetanna þriggja ræður því hvort við fáum þægilega dagdrauma eða látum okkur leiðast.

Dagdraumar örva eldmóðinn

Heilinn er í hlutlausu ástandi um 70% tímans, þar sem við hugleiðum hvað gerðist í gær og hvað við hyggjumst taka okkur fyrir hendur á morgun en við erum stöðugt með hugann við umhverfið og ef eitthvað áhugavert á sér stað virkjast athyglisnetið. Það vekur okkur til umhugsunar og fær okkur til að ákveða hvort við hyggjumst gera eitthvað í málunum og virkja þar með aðgerðanetið. Ef ekki, snúum við aftur í hlutlausa ástandið.

Leiði lokar okkur inni í neikvæðum hugsunum

Ef við horfum á leiðinlega mynd, ellegar þá ekkert skemmtilegt á sér stað í kringum okkur, heftist starfsemi heilasvæðisins sem kallast anterior insula. Um er að ræða hluta af athyglisnetinu sem skiptir sköpum fyrir virkni þess. Leiði torveldar að við virkjum athyglis- og aðgerðanetin, þrátt fyrir að okkur langi til þess. Þetta leysir úr læðingi neikvæðar hugsanir, óánægju og óþægindi.

Þrjú net halda heilanum gangandi

Heilar okkar eru útbúnir þremur gírum, ef þannig má að orði komast: Hlutlausum, athyglisgír og aðgerðagír. Samstarf heilanetanna þriggja ræður því hvort við fáum þægilega dagdrauma eða látum okkur leiðast.

Dagdraumar örva eldmóðinn

Heilinn er í hlutlausu ástandi um 70% tímans, þar sem við hugleiðum hvað gerðist í gær og hvað við hyggjumst taka okkur fyrir hendur á morgun en við erum stöðugt með hugann við umhverfið og ef eitthvað áhugavert á sér stað virkjast athyglisnetið. Það vekur okkur til umhugsunar og fær okkur til að ákveða hvort við hyggjumst gera eitthvað í málunum og virkja þar með aðgerðanetið. Ef ekki, snúum við aftur í hlutlausa ástandið.

Leiði lokar okkur inni í neikvæðum hugsunum

Ef við horfum á leiðinlega mynd, ellegar þá ekkert skemmtilegt á sér stað í kringum okkur, heftist starfsemi heilasvæðisins sem kallast anterior insula. Um er að ræða hluta af athyglisnetinu sem skiptir sköpum fyrir virkni þess. Leiði torveldar að við virkjum athyglis- og aðgerðanetin, þrátt fyrir að okkur langi til þess. Þetta leysir úr læðingi neikvæðar hugsanir, óánægju og óþægindi.

Þegar verkefnið hefur verið leyst fer heilinn aftur í hlutlausan gír og hugsanirnar leika lausum hala á nýjan leik.

 

Þvottur hamlar gírskiptum

Ýmsir geðrænir sjúkdómar og ágallar eiga rætur að rekja til galla í gírkassa heilans sem torveldar skiptin á milli netanna þriggja. Sem dæmi geta einstaklingar með ADHD átt í basli með að bæla lausagangsnetið og virkja athyglisnetið.

 

Þegar okkur leiðist kann ástæðan einmitt að vera óæskilegur skortur á áhrifum sem fangað geta athygli okkar og komið heilanum úr lausagangi.

 

Í tilraun einni sem unnin var undir stjórn eins helsta sérfræðings á þessu sviði, sálfræðingsins James Danckert við Waterloo-háskólann í Kanada, voru teknar sneiðmyndir af heila tveggja hópa tilraunaþátttakenda. Annar hópurinn var látinn horfa á margverðlaunaða náttúrulífsmynd á meðan hinn horfði á ákaflega leiðinlega mynd sem sýndi tvo menn hengja upp þvott.

 

Heilar beggja hópa voru í lausagangi en hjá þeim sem horfðu á leiðigjarna myndbandið var starfsemi tiltekins heilasvæðis heft en um var að ræða heilasvæðið anterior insula. Þetta svæði á einmitt ríkan þátt í athyglisneti heilans og stjórnar því að heilinn geti skipt um gír, ef þannig má að orði komast.

 

Tilraunin gaf til kynna að leiði geri okkur ófærari um að taka okkur taki og að beina athyglinni að einhverju, jafnvel þótt okkur í rauninni langi til þess. Við erum föst í órólegum hugsunum lausagangsins gegn vilja okkar og fyrir vikið valda dagdraumar okkar gremju.

Þegar við horfum á virkilega leiðinlega kvikmynd erum við ósjálfrátt föst í hlutlausum gír heilans og getum ekki flúið hverfular hugsanir.

Leiði er hins vegar ákaflega einstaklingsbundið fyrirbæri og algerlega huglægur. Breytilegt er hvað veldur leiðindum hjá okkur og sumu fólki leiðist að öllu jöfnu oftar en við á um aðra. Ýmsar rannsóknir hafa til dæmis leitt í ljós að börn og unglingar eigi auðveldar með að verða leiða að bráð en við á um fullorðna.

 

Ef marka má rannsókn sem unnin var undir stjórn James Danckert árið 2023, kann skýringin að vera sú að heilar ungs fólks hafi enn ekki náð fullum þroska. Sálfræðingurinn notaði tækni sem kallast EEG til að mæla heilabylgjur 185 barna á aldrinum 8-15 ára og lét þau jafnframt svara nokkrum spurningum sem lutu að því hve mikið þeim leiddist í skólanum.

Farsíminn læsir heila okkar inn í tilbreytingarlausum hringrásum taugatenginga og hindrar hann í að komast aftur í eðlilegan lausagang.

Niðurstöðurnar leiddu í ljós að tengslin milli svonefndra þeta- og beta-heilabylgna í ennisblöðum barnanna rýrðust að öllu jöfnu með hækkandi aldri sem sérfræðingarnir töldu vera til marks um að heilinn þroskist eðlilega og ljái börnunum betri stjórn á vitrænum ferlum þeirra.

 

Í einum hópi barna átti rýrnunin sér stað hægar en venjulega og það var einmitt þessum sömu börnum sem leiddist hvað mest í skólanum.

 

Hugsanlega getur slík óregla í þroska heilans orðið viðvarandi með þeim afleiðingum að þessum einstaklingum hættir meira en ella til að láta sér leiðast síðar á lífsleiðinni.

 

Þetta kann að draga dilk á eftir sér því ýmsar tilraunir hafa gefið til kynna að þeim sem hættir til leiða, þeir búa yfir minni sjálfsstjórn og taki frekar áhættu en aðrir. Þetta getur haft þær afleiðingar að þeir sæki í þýðingarmikil viðfangsefni sem í sumum tilvikum geta reynst þeim skaðleg.

Leiðindi – Streita – Núvitund

Líf okkar er hárfínt jafnvægi milli leiðinda og streitu en æfing í núvitund, þar sem einblínt er á návist og athygli á núið, getur í raun unnið bug á báðum þessum öfgum.

 

1. Leiði getur leitt af sér streitu

Þegar okkur leiðist festist heilinn í dagdraumum sem geta fætt af sér nýjan skilning og örvað sköpunargáfuna. Langvarandi leiði getur á hinn bóginn leitt til streitu vegna innri óróleika eða sökum þess að við vinnum upp leiðann með of mörgum athöfnum.

 

2. Streita deyfir leiða um stundarsakir

Skammvinn streita er þegar yfir okkur hellast verkefni, áhyggjur og ábyrgð, þannig að okkur gefst ekki tóm til að láta okkur leiðast. Verði streitan langvarandi getur hún á hinn bóginn leitt af sér tilfinningalega og andlega örmögnun sem að lokum getur leitt til leiða.

 

3. Núvitund heftir leiða og streitu

Þegar við beinum hugsunum okkar að einhverju tilteknu, án þess að taka afstöðu, leiðist okkur síður því þannig horfum við inn á við og þetta gagnast okkur við að finna tilgang. Núvitund heldur jafnframt hugsanaflæði í skefjum með þeim afleiðingum að við slökum á og finnum síður fyrir streitu.

Ýmsar rannsóknir hafa gefið til kynna að óhófleg notkun farsíma sé oft einkenni þeirra sem hafa tilhneigingu til leiða. Þeir virðast flýja neikvæðu tilfinninguna með því að einangra sig á bak við skjáinn sem hefur aftur á móti í för með sér aukna hættu á þunglyndi og kvíða.

 

Snjallsíminn er ekki vel til þess fallinn að vinna bug á leiða. Hann læsir heilann nefnilega í nokkrum tilbreytingarlausum hringrásum taugatenginga og kemur þar með í veg fyrir að heilinn geti komist í svokallaðan lausagang sem honum að öllu jöfnu er eðlilegt að vera í bróðurpart tímans.

 

Leiðinn leiddi til velgengni

Með því að velja auðveldan flótta frá leiðindum missum við af þeim kostum sem eru fólgnir í að leyfa hugsunum að leika lausum hala.

Mörg grípum við símann þegar við finnum leiðann læðast að okkur en síminn kemur hins vegar í veg fyrir dagdrauma sem eru í raun til marks um eðlilegt ástand heilans.

Þegar okkur leiðist og dagdraumar ná tökum á okkur erum við um leið að styrkja sköpunargáfuna. Þetta hefur breska sálfræðingnum Sandi Mann við háskólann í Lancashire tekist að sanna í tilraun þar sem þátttakendurnir voru látnir kljást við tvenns konar ólík viðfangsefni.

 

Annar hópurinn var látinn lesa eina blaðsíðu úr símaskránni sem gaf þeim þátttakendum ríkuleg tækifæri til að leiða hugann að öllu mögulegu öðru um leið og nöfn og símanúmer flæddu gegnum meðvitundina, án þess að þeim væri gefinn sérstakur gaumur.

 

Hinum hópnum var hins vegar ætlað að skrifa niður allt sem stóð á síðunni og þurftu þeir fyrir bragðið að einbeita sér að öllum leiðigjörnu upplýsingunum.

 

Eftir á þurftu allir þátttakendurnir að leysa nokkur verkefni sem reyndu á sköpunargáfuna. Þegar að þessum hluta kom reyndust þeir sem höfðu látið hugann reika meðan á leiðigjörnu athöfninni stóð færir um að veita fleiri skapandi svör en við átti um þann hluta þátttakendanna sem voru fastir í leiðanum.

 

Enn meiri furðu vakti sú staðreynd að viðmiðunarhópurinn sem fór beint í skapandi verkefnin án þess að hafa fyrst látið sér leiðast, stóð sig slælegar en báðir hinir hóparnir. Tilraunin leiddi þannig í ljós að hugarflug okkar örvast þegar okkur leiðist.

Eftir áratugaleit í heilanum hafa vísindamenn loksins fengið skýringu á því hvaðan ímyndunaraflið sprettur – og hvernig við getum aukið sköpunargleði okkar.

Vísindamenn eru beinlínis þeirrar skoðunar að leiði hafi verið drifkraftur alla þróunarsögu mannsins.

 

Í grein sem birtist árið 2021 færir bandaríski sálfræðingurinn Erin Westgate rök fyrir því að leiði hafi þann tilgang að hnippa í okkur þegar við leggjum stund á viðfangsefni sem hafa ekkert jákvætt gildi fyrir okkur.

 

Til þess að bæla niður þá óþægilegu tilfinningu erum við örvuð til að taka okkur eitthvað þýðingarmeira fyrir hendur og að nýta þannig sem best þau bjargráð sem við höfum yfir að ráða.

 

Leiði örvar okkur sem sé til að velja nýjar leiðir og tileinka okkur nýja færni til þess að við sættum okkur ekki bara við orðinn hlut. Óttinn við að láta sér leiðast kann því að vera drifkrafturinn að baki mörgum af helstu könnunarferðum og uppfinningum mannkynsins.

Leiði hefur að öllum líkindum haft veruleg áhrif á þróun mannsins sökum þess að eirðarleysið leiddi af sér nýjar uppfinningar og nýjar áhættur.

Á sama hátt og forfeður okkar notfærðu sér leiða í þágu mannkynsins getum við einnig nýtt hann til að efla persónulegan þroska okkar. Þetta krefst þess bara að við gefum hugsununum lausan tauminn þegar okkur byrjar að leiðast og förum ekki rakleitt í símann.

HÖFUNDUR: Gorm Palmgren

© Prostock-studio/Shutterstock & Lotte Fredslund,© Miguel Angel RM/Shutterstock,© Nejron Photo/Shutterstock,© Cookie Studio/Shutterstock & Lotte Fredslund,© Julio Ricco/Shutterstock

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Alheimurinn

NASA uppgötvar dularfullan hlut sem er 27.000 sinnum stærri en jörðin – hreyfist á 1,6 milljón km/klst.

Maðurinn

Lyktin afhjúpar öll þín leyndarmál: Lyktin er hið nýja fingrafar

Tækni

Líkami þinn er orkuver

Jörðin

Myndast skýstrókar í Norður-Evrópu?

Lifandi Saga

Hver var fyrsti þekkti guðinn?

Lifandi Saga

Hvenær fórum við að kyssast?

Maðurinn

Hvers vegna verður maður þreyttur eftir að hafa borðað?

Lifandi Saga

Hvers vegna eru til herra- og kvenreiðhjól?

Maðurinn

Lítið en mikilvægt atriði í uppeldinu getur haft mikil áhrif seinna á lífsleiðinni

Heilsa

Sérfræðingar í sykursýki: Jafnvel lítið magn af þessari tegund matar getur aukið hættuna um 15 prósent.

Maðurinn

Þú ert tveimur sekúndum frá því að springa úr reiði

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is