Þegar tveir indverskir steingervingafræðingar leituðu steingervinga í kolanámu, var það þeirri von að finna steingerðar leifar eða spor forsögulegra hvala.
Það sem þeir hins vegar fundu voru 27 hryggjarliðir sem voru of litlir til að geta verið af hvölum, en þeir töldu þá líklega vera af stórri útdauðri krókódílategund.
Nú hefur komið í ljós að steingervingarnir eru í raun af slöngutegund sem er um 47 milljón ára gömul, og að mati vísindamannanna gæti hugsanlega verið stærsta slanga sem hingað til hefur fundist.
Slangan virðist hafa verið það stór að hún gat étið dýr á stærð við krókódíla.
Hið forsögulega dýr hefur verið nefnt Vasuki indicus eftir hinni goðsagnakenndu slöngu um háls hindúaguðsins Shiva.
Hluti af ríkjandi slöngutegund
Í rannsókn Indian Institute of Technology Roorkee komust vísindamennirnir að þeirri niðurstöðu að slangan hafi líklega verið um 44 sentímetrar á breidd og allt að eitt tonn að þyngd.
27 hryggjarliðir hennar mældust á milli 4 til 6 sentímetrar á lengd og 6 til 11 sentimetrar á breidd.
Hryggjarliðir af þessari stærð þýða, að sögn vísindamannanna, að hin forsögulega slanga gæti hafa verið allt að 15 metrar að lengd.
Hún er þá nokkrum metrum lengri en venjulegur strætisvagn – og það gerir hana mögulega að stærstu slöngutegund sem fundist hefur.
Anakonda er stærsta núlifandi slanga heims. Hún getur vegið allt að 250 kíló og verið allt að 9 metrar að lengd.
Til samanburðar má nefna að Titanoboa – önnur forsöguleg slanga sem lifði fyrir milljónum ára í norðurhluta Kólumbíu – var ,,aðeins” 13 metrar að lengd.
En Titanoboa gæti líka hafa vegið allt að tonn – og hugsanlega meira.
Það er því enn óljóst hvaða slöngutegund hefur vinninginn.
Ég hef heyrt að flestar eiturslöngur sé að finna í Ástralíu. Hvernig stendur á því?
.
,,Við getum ekki sagt til um hvort Vasuki hafi verið stærri eða mjórri miðað við Titanoboa,“ segir Sunil Bajpai, meðhöfundur rannsóknarinnar og steingervingafræðingur við Indian Institute of Technology Roorkee.
Þessar risastóru slöngur voru uppi fyrir um 45-66 milljónum ára sem hluti af ríkjandi slöngutegund sem kallast Madtsoiidae og lifði á stóru landsvæði sem nær yfir Afríku, Evrópu og Indland.