Hópur fornleifafræðinga var eiginlega að framkvæma viðgerðir á 4.400 ára gömlum pýramída sem á sínum tíma var reistur til að heiðra faraóinn Sahura af 5. konungsættinni.
Þeir voru að hreinsa rými og tryggja stöðugleikann þegar þeir uppgötvuðu ummerki um gamlan gang sem fornleifafræðinginn John Perring hafði grunað að gæti leynst þarna, þegar árið 1836.
Nú hafa egypskir og þýskir fornleifafræðingar undir forystu Ismails Khaled hjá Egyptalandsdeild Julius-Maximilians-háskólans í Würzburg rannsakað hinar þröngu gangglufur í pýramídanum.
Vísindamennirnir notuðu þrívíddarskanna og svonefnda lidar-radartækni sem m.a. tóku loftmyndir, til að skapa svo nákvæma mynd af pýramídanum með öllum göngum sínum og glufum að ekki skeikar millimetrum.
Leynigangurinn sást nú greinilega og í ljós kom að hann liggur að átta áður óþekktum herbergjum sem að sögn vísindamannanna gætu hafa gegnt því hlutverki að varðveita grafargjafir.
Þannig tókst vísindamönnunum með allra nýjustu tækni að staðfesta tilgátu Johns Perring frá árinu 1836.
Sjálfir telja vísindamennirnir að uppgötvunin marki tímamót í skilningi á Sahura-pýramídanum og því hvernig byggingarlag pýramídanna breyttist í tímans rás.