Herforinginn Quintus Cicero skipar með hárri raust örþreyttum hermönnum sínum að manna virkisvegginn á meðan ný bylgja af gallískum vígamönnum stormar að virki hans. Einungis gryfja og varnargarður alsettur gaddastaurum og turnum stendur milli Rómverjanna og árásarmannanna.
Þetta er veturinn 54 f.Kr. og ættbálkar Galla – þar sem nú er Belgía og Frakkland – hafa ráðist í leiftursókn gegn einangruðu rómversku setuliði. Leiðtogi Gallanna, Ambiorix, nýtir sér hagstæðan meðvind til að skjóta glóandi spjótum á varnargarða Rómverja. Sum þeirra ná að kveikja elda inni í virkinu.
Með ægilegu herópi endurtaka Gallarnir árásina. Um 60.000 hermenn búnir spjótum og sverðum æða í átt að ríflega 5.000 Rómverjum sem eru til varnar.
Fremstu Gallarnir bera knippi úr greinum sem þeir kasta niður í varnargryfju virkisins. Um leið og búið er að fylla hana ráðast vígamennirnir fram og klifra upp varnarvegginn á frumstæðum stigum.
Rómversku hermennirnir á bak við gaddastaurana draga upp sverð sín og höggva eins og þeir mest geta á hendur og höfuð sem koma í ljós yfir varnargarðinn. Loftið fyllist af sársaukaveinum og blóðið lekur stríðum straumum niður oddhvassa staurana. Fjöldi Gallanna er ægilegur en rómversku hermennirnir ná þó að halda stöðu sinni.
Quintus Cicero er verulega áhyggjufullur. Árásir Gallanna hafa nú staðið vikum saman og níu af hverjum tíu hermönnum hans eru særðir.
En uppgjöf er enginn valkostur. Nokkru áður hafði hinum lævísa Ambiorix tekist að lokka rómverska herdeild til að yfirgefa búðir sínar um 80 km norðan við virki Ciceros.
Þetta reyndist vera gildra. Úr nærliggjandi gljúfri réðust vígamenn Ambiorix á ríflega 7.000 rómverska hermenn og hjuggu þá niður til síðasta manns. Cicero hefur ekki hugsað sér að gera sömu mistök.
Skyndilega beinist öll athygli Gallanna að nokkrum reykjarbólstrum í fjarlægð. Yfirhershöfðingi rómverska hersins í Galliu, Júlíus Sesar, er nú loksins mættur með sinn liðsafla og marserar upp hæðardrag hinum megin við nærliggjandi fljót.
Gallarnir fylgjast furðu lostnir með því hvernig hermenn Sesars taka að grafa gryfjur og varnarvegg á örskömmum tíma. Ambiorix gefur skipanir um að yfirgefa umsátrið á virki Ciceros og halda þess í stað í átt að veigalitlu varnarvígi Sesars.
Hermenn Sesars eru hins vegar úthvíldir og berja atlöguna rækilega á bak aftur. Gallarnir flýja með miklu mannfalli inn í nærliggjandi skóga. Þrautpíndir hermenn Ciceros geta nú varpað öndinni léttar. Rómverska virkið hefur enn og aftur sannað ágæti sitt.
Hermenn báru allt sjálfir
Hermenn báru nánast allan sinn búnað á bakinu til að herinn gæti farið sem hraðast yfir. Í bakpokanum var að finna verkfæri til að reisa búðir og virki. Hver hermaður var auk þess með tvo gaddastaura fyrir varnarvegginn. Einungis tjöld og annar þungur búnaður var fluttur með burðardýrum.
1. Bakpoki fyrir vistir og tjaldbúnað
2. Ullarhempa
3. Haki (dolabra)
4. Gaddaspjót (sudis)
5. Hjálmur
Rómverjar lærðu af Pyrrhusi
Rómversku virkin sem nefndust castra, voru samkvæmt Rómverjum sjálfum fremur en nokkuð annað leyndarmálið að baki ótrúlegri sigurgöngu þeirra. Á hverjum einasta degi reistu hermennirnir frumstæð virki úr jarðvegi og trjám sem gerði þeim kleift að standast atlögur herja sem voru allt að tíu sinnum stærri.
Samkvæmt sagnaritaranum og gyðingnum Jósefusi voru hermennirnir svo kunnáttusamir í að reisa slík virki að þeir gerðu það hraðar en hugur á festi.
Rómverjar sóttu innblástur í slík virki þegar þeir sigruðu gríska kónginn Phyrrus árið 275 f.Kr. í bardaga við borgina Benevent suðaustan við Róm. Eftir bardagann hertóku Rómverjar búðir Grikkjanna og þær voru rannsakaðar í þaula og síðar betrumbættar til að þær hæfðu betur markmiðum Rómverja.
Meðan Grikkir leituðu jafnan eftir náttúrulegum virkjum í landslaginu hönnuðu rómverskir verkfræðingar tjaldbúðir sem var hægt að reisa hvar sem var, hvenær sem var og á ótrúlega skömmum tíma. Jafnframt voru hermennirnir stöðugt þjálfaðir í að reisa slíkar búðir og voru þeir færir um að byggja slík varnarvirki þrátt fyrir að hafa marserað heilan dag. Ósigrandi virki með varnargörðum, skurðum, oddagirðingum og gildrum.
Rómverski herforinginn Domitius Corbulo sagði þannig gjarnan að „hakinn er vopnið sem sigrast á óvinum okkar“.
Hermennirnir þurftu næturró
Þrátt fyrir að búðirnar hafi í sjálfu sér verið varnarvirki nýttu Rómverjarnir þær einnig sem árásarvopn. Slíkar búðir voru sérstaklega hannaðar fyrir aðgerðir djúpt inni í óvinalandi. Í hinum myrku skógum í miðri Evrópu, á brennandi heitum eyðimörkum Norður-Afríku og ægilegu fjalllendi Miðausturlanda voru Rómverjar á útivelli og því auðveld fórnarlömb fyrir óvinaherina sem þekktu landslagið betur en þeir og voru oft langtum fjölmennari.
Hin rómverska castra breytti þessu öllu. Um leið og Rómverjarnir höfðu byggt búðir sínar var það nú óvinurinn sem var á útivelli. Hermennirnir þekktu hvern krók og kima í virkjum sínum og andstæðingarnir voru grunlausir um að búðirnar voru alsettar dauðagildrum.
Fræðimenn hafa því kallað þessar búðir Rómverja „hreyfanlegar skotgrafir“, þaulhugsaðar til að neyða óvininn í árásir sem líkja mætti við sjálfsmorð.
Sofandi verðir barðir til dauða
Virki herleiðangursins voru einungis örugg ef þau voru vöktuð allan sólarhringinn. Refsingin var því þung þegar hermenn sváfu á verðinum.
Félli hermaður í svefn á næturvakt sinni beið hans grimmileg refsing. Herforingjar gátu alls ekki umborið slík agabrot þar sem örlög allra hermanna sem bjuggu í búðunum voru í húfi.
Auk varðmannanna voru eftirlitsmenn á ferli alla nóttina til þess að fylgjast með m.a. varðmönnum. Ef komið var að varðmanni sofandi á sinni vakt var settur upp tribune eða herréttur og dóminn skipuðu yngstu liðsforingjar hersveitarinnar. Væri hermaðurinn fundinn sekur var honum refsað með svonefndu bastinado.
Ungu liðsforingjarnir taka fram kylfur sínar og snerta dæmda manninn með þeim en síðan ganga óbreyttir hermenn fram og berja hinn dæmda eða grýta í hel, útskýrir forngríski sagnaritarinn Polybus.
Önnur refsing fyrir minni yfirsjónir gátu falist t.d. í því að syndaselurinn átti að standa teinréttur klukkustundum saman meðan hann hélt á þungum hlut beint út frá líkamanum.
Smíði og uppsetning búðanna var skipulögð niður í hvert minnsta smáatriði. Hver einasti hermaður í herdeild sem taldi jafna um 5.300 manns vissi nákvæmlega hvaða verkefni honum bar að sinna og hvenær:
„Af þessu leiðir að þegar hermennirnir höfðu marserað fram á heppilegt byggingarsvæði og kannað það gaumgæfilega vita allir gjörla skipulag þess. Þannig er allt ferlið við að koma upp búðum nánast eins og hjá her sem snýr aftur til heimabæjar síns“, skrifaði gríski sagnaritarinn Polypus.
Hermennirnir voru þannig þjálfaðir jafn mikið í byggingartækni búðanna eins og í eiginlegum bardögum.
Fornleifauppgreftir á Stóra-Bretlandi hafa sýnt að rómverskar herdeildir voru að því er virðist þjálfaðar til að byggja upp slíkar búðir fyrir utan bæina. Þar æfðu þeir sig einkum í að byggja upp erfiðustu og viðkvæmustu staði búðanna – gáttirnar inn í búðirnar og úthorn þeirra.
Á Stóra-Bretlandi einu saman hafa fornleifafræðingar fundið menjar um 500 slík vígi Rómverja.
Hersveitin byggði þorp fyrir eina nótt
Menn þurftu að vera gríðarlega vel á sig komnir til að koma upp stórum varnarveggjum. Þegar slíkt virki var fullbúið var nánast ógerlegt fyrir óvininn að hertaka það.
Herbúðir fyrir 5.300 hermenn samsvaraði að stærð litlu rómversku þorpi. Langhliðarnar gátu þannig verið allt að 350 metra langar á meðan breiddin var um 200 metrar, allt eftir landslagi. Þetta fól í sér að sérhver hermaður þurfti að grafa marga rúmmetra ýmist í skurðum eða til að hlaða upp varnarveggi á skömmum tíma.
Svæði búðanna var þaulskipulagt áður en hermennirnir settu upp tjöld sín. Hernum var skipt í minni herdeildir sem hver taldi um 480 menn en gátu þó vaxið í 800 liðsmenn. Þessar tíu deildir héldu til hver á sínum stað í búðunum og þeim var síðan skipt upp í svokallaða hundraðseiningar sem þó töldu 80 manns þegar fram liðu stundir.
Slík herdeild þurfti tíu átta manna tjöld og var þeim komið fyrir í löngum tröðum. Við enda þeirra var síðan tjald hundraðshöfðingjans að finna. Hann var liðsforingi deildarinnar og þurfti því að vera ævinlega nálægur mönnum sínum. Tjaldbúðirnar voru merktar með sérstökum flöggum til að auðvelda hermönnum að rata á sinn rétta stað.
Þannig byggðu Rómverjar búðir sínar
1. Landmælingar hefjast
Fyrsta verkefnið fólst í að afmarka svæðið þar sem tjaldbúðir hershöfðingjans áttu að vera. Út frá þeim stað voru síðan lagðir skipulagðir vegir og varnargarðar. Þar nærri voru jafnvel reist hof þar sem hægt var að biðja fyrir stríðsgæfu og góðu gengi.
2. Skurðir grafnir
Hver hermaður vann að því að grafa skurði en þeir voru jafnan um eins og hálfs metra breiðir og 1-3 metra djúpir og lágu umhverfis allar búðirnar.
2. Skurðir grafnir
Hver hermaður vann að því að grafa skurði en þeir voru jafnan um eins og hálfs metra breiðir og 1-3 metra djúpir og lágu umhverfis allar búðirnar.
4. Inngangurinn var veiki punktur virkisins
Einn inngangur var á hverri hlið búðanna. Þetta voru berskjölduðustu svæði virkisins og því var sérstakur varnarveggur byggður í sveig inn í þessar gáttir. Þetta neyddi óvininn til að safnast saman á þröngu svæði þar sem fjöldi þeirra naut sín ekki og Rómverjar gátu tiltölulega oft brotið árás þeirra á bak aftur.
5. Spjót og örvar máttu ekki ná til tjaldanna
Milli tjaldaraðanna og skurðsins var 30 metra breitt opið svæði sem nefndist intervallum en það tryggði að tjöldin væru staðsett utan seilingar spjótkastara og bogaskytta. Belti þetta tryggði ennfremur að herdeildirnar áttu auðvelt með að finna sinn verustað og koma upp tjöldum.
Þannig byggðu Rómverjar búðir sínar
1. Landmælingar hefjast
Fyrsta verkefnið fólst í að afmarka svæðið þar sem tjaldbúðir hershöfðingjans áttu að vera. Út frá þeim stað voru síðan lagðir skipulagðir vegir og varnargarðar. Þar nærri voru jafnvel reist hof þar sem hægt var að biðja fyrir stríðsgæfu og góðu gengi.
2. Skurðir grafnir
Hver hermaður vann að því að grafa skurði en þeir voru jafnan um eins og hálfs metra breiðir og 1-3 metra djúpir og lágu umhverfis allar búðirnar.
3. Varnarveggir og gaddastaurar settir upp
Jarðveginum og skurðgreftrinum var rutt upp í 1,5 metra háan vegg fyrir innan skurðinn. Veggurinn var oft þakinn með torfi sem sótt var í nærliggjandi staði. Efst á veggnum komu hermennirnir fyrir gaddastaurum og tálguðum trjástofnum.
4. Inngangurinn var veiki punktur virkisins
Einn inngangur var á hverri hlið búðanna. Þetta voru berskjölduðustu svæði virkisins og því var sérstakur varnarveggur byggður í sveig inn í þessar gáttir. Þetta neyddi óvininn til að safnast saman á þröngu svæði þar sem fjöldi þeirra naut sín ekki og Rómverjar gátu tiltölulega oft brotið árás þeirra á bak aftur.
5. Spjót og örvar máttu ekki ná til tjaldanna
Milli tjaldaraðanna og skurðsins var 30 metra breitt opið svæði sem nefndist intervallum en það tryggði að tjöldin væru staðsett utan seilingar spjótkastara og bogaskytta. Belti þetta tryggði ennfremur að herdeildirnar áttu auðvelt með að finna sinn verustað og koma upp tjöldum.
Landhættir gjörnýttir
Yfirleitt leituðust Rómverjar við að reisa búðir sínar á hæðardragi með bröttum brekkum. Þannig fengu þeir góða yfirsýn yfir nærliggjandi svæði og neyddu jafnframt óvininn til að ráðast til atlögu upp brekkur.
Búðirnar áttu ævinlega einnig að vera nálægt fljóti þannig að hermenn og burðardýr gætu fengið ferskt vatn. Jafnframt bauð rennandi vatnið upp á heppilegan stað til að tæma kamarskjólurnar. Fyrir vikið voru búðirnar vel hirtar og það dró jafnframt verulega úr hættu á að sóttfaraldur myndi höggva skörð í raðir Rómverja.
Slík virki voru jafnan ferköntuð með rúnnuðum hornum. Samkvæmt rómverska rithöfundinum Flavíusi Vegetívusi þurftu hermennirnir hins vegar einnig að kynna sér einkenni landslagsins gaumgæfilega. Búðirnar gátu því bæði verið ferhyrndar, hringlaga eða jafnvel þríhyrndar:
„Yfirleitt er stuðst við þá reglu að bestu virkin eru þau, þar sem lengdin er þriðjungi meiri en breiddin“.
Þröngt var um hermennina í litlum tjöldunum. Eldað var á fyrir framan tjaldið.
Átta manns deildu tjaldi
Vatnsþétt tjöld úr geitaskinni voru um þrír metrar á lengd og gátu átta manns verið inni í hverju þeirra – minnsta eining hersins kallaðist contubernia. Líklega hafa þó einungis rúmast í besta falli sjö flet. Líklega vegna þess að einn hermaður úr hverri slíkri einingu þurfti jafnan að vera á vakt.
Tjöldin voru opin í báða enda og nægjanlega há til að hermaður gæti staðið uppréttur inni í þeim. Hundraðshöfðingjarnir sem leiddu 80 manna stórar einingar voru með helmingi stærri tjöld.
Allir hermenn þurftu að grafa.
Ysti varnarveggurinn samanstóð af skurði sem lá alla leið í kringum búðirnar. Samkvæmt Vegetívusi merktu liðsforingjar og landmælingamenn svæði fyrir staðsetningu búðanna en síðan átti sérhver hundraðshöfðingi með einhverja 80 menn að moka upp tiltekinni lengd á varnargarðinum. Skurðurinn var jafnan einn og hálfur metri á breidd og eins metra djúpur.
Jarðvegurinn úr þessu verki var notaður til að byggja varnarvegg fyrir innan skurðinn. Þegar færi gafst var varnarveggurinn klæddur torfi sem kom í veg fyrir að nýgrafinn jarðvegurinn myndi síga niður. Ef herinn hugðist vera á sama stað í lengri tíma, t.d. þegar hermennirnir voru í vetrarbúðum, voru varnargarðarnir styrktir. Skurðirnir voru gerðir dýpri og garðarnir hækkaðir.
Fyrir utan gaddastaurana reistu hermennirnir oft varðturna. Þegar Quintus Cicero lenti í umsátri Galla árið 54 f.Kr. náðu liðsmenn hans að reisa hvorki fleiri né færri en 120 turna á einni nóttu.
Hver hermaður var með sína sigð til að geta uppskorið korn.
Hersveitin þurfti átta tonn af korni daglega
Drjúgur þáttur í tíma hermannanna fólst í að finna matvæli. Hluta þess keyptu þeir af staðarbúum en oft bar við að hermennirnir sjálfir þurftu að halda út á akurlendi og uppskera korn fyrir sitt daglega brauð.
Hersveit sem telur meira en 5.000 manns innbyrðir daglega gríðarlegt magn af matvælum og vatni. Fræðimenn áætla að daglegur skammtur hvers hermanns hafi verið um 850 g af korni og 40 – 80 g af kjöti. Við þetta bætist sitthvað af osti, ólífuolíu og vínum.
Mikið af matvælunum voru keypt eða einfaldlega lagt hald á þau í nágrenninu. Hver hermaður tók hins vegar einnig með sér kornsigð þannig að hermennirnir sjálfir gætu skorið upp korn. Ef fyrirséð var að hersveitin þyrfti að halda kyrru fyrir í búðunum í einhverja mánuði sáðu hermennirnir jafnvel korni í nálægan akur þannig að herinn fengi einnig matvæli þegar búið var að tæma kornhlöður í sveitinni.
Hver hersveit hafði meðferðis um 230 hesta, 900 múldýr og 400 uxa sem daglega átu 6 tonn af grænfóðri og 3,8 tonn af korni. Þetta fól í sér að hermenn og dýr gæddu sér þannig á allt að 8 tonnum af korni á degi hverjum. Mikið af tíma hermannanna fór því í að finna og flytja matvörur til búðanna.
Hermennirnir voru þrautþjálfaðir í margvíslegu handverki en herinn hafði einatt með sér sérfræðinga eins og landmælingamenn, verkfræðinga og smiði til að tryggja að hersveitin gæti unnið verk sín úr nánast öllum hráefnum frá nærliggjandi svæðum.
Þetta kom sér einkum vel þegar virki þeirra voru gerð varanleg. Í slík virki þurfti t.d. mikið magn af járni fyrir nagla og sauma. Sagnfræðingar vita dæmi þess að sumir hermenn hafi verið sendir af stað til að vinna í námum og ná sér þannig í heppileg hráefni.
Í Þýskalandi nútímans hafa fornleifafræðingar m.a. fundið blýstangir sem einhver rómversk hersveit hafði framleitt. Mestur hluti af unnu blýi var þó trúlega sendur heim til Rómar.
Hver og einn hermaður var fær um að moka burt 0,4 til 0,7 m3 af jarðvegi á hverri klukkustund, ef hann þurfti ekki að kasta úr skóflunni meira en tvo metra upp fyrir sig. Þetta leggur sig á ríflega eitt tonn hjá hverjum hermanni.
Því tók það jafnan herinn einungis um tvo og hálfan tíma frá því að fyrstu hermennirnir byrjuðu að grafa þar til skurðir og varnarveggir voru tilbúnir og hægt var að koma upp tjaldbúðum.
Þessi fjölmörgu verkefni kröfðust þess að hermennirnir væru vel útbúnir. Hver hermaður bar því sinn haka, sög, öxi og reipi á meðan skóflur og balar til að flytja jarðveg bárust að líkindum með burðardýrum og vögnum.
Þar var einnig að finna persónulegar eigur hermannanna sem reyndust endrum og sinnum valda nokkrum vandræðum. Árið 54 f.Kr. þegar her Quintusar Sabinusar lenti í umsátri í Gallíu barst sá orðrómur út meðal hermannanna að aðstæður væru svo skelfilegar að þeir þyrftu að skilja dýrmætustu eigur sínar eftir:
„Hvarvetna hlupu menn frá herdeildum sínum og tóku að leita eftir verðmætustu eigum sínum, hver eftir bestu getu í algerri ringulreið“, skrifaði Júlíus Sesar í ritverki sínu um Gallastríðin.
Búðirnar voru brenndar
Þegar búðirnar voru tilbúnar fékk hver hundraðshöfðingi með sína 80 menn svefnpláss fyrir þá í tíu tjöldum. Staðsetningin var ævinlega hin sama, dag frá degi og því auðvelt að komast leiðar sinnar. Þegar búið var að reisa tjöldin var vinnudeginum lokið. Einungis þeir hermenn sem valdir voru til að vera á verði héldu starfi sínu áfram.
Næsta morgun við dagrenningu undirbjuggu hermennirnir sig til að ráðast ennþá dýpra inn í óvinalandið.
„Þegar tími er kominn til að yfirgefa búðirnar gellur við sérstakt lúðrakall og þá rjúka allir á fætur og byrja að pakka tjöldum sínum saman“, skrifaði Jósefus.
Hundraðsdeildirnar stilla sér síðan upp í fylkingar, tilbúnar að marsera af stað. Samkvæmt Jósefusi enduðu þeir á því að kveikja í búðunum: „Til þess að óvinir þeirra geti aldrei nýtt sér þær“, útskýrði sagnaritarinn.
Fyrir framan hin rómversku castra komu hermennirnir fyrir breiðu belti af gildrum.
Gildrur lemstruðu óvininn
Sérhver rómversk hersveit flutti með sér einhverja 10.000 oddhvassa staura sem voru notaðir til að styrkja varnargarða búðanna gegn óvinum.
Rómverjar grófu ekki einungis skurði og reistu varnarveggi til að verja búðir sínar. Þeir þróuðu einnig fjölmargar banvænar gildrur sem voru teknar í gagnið þegar hermennirnir vissu að óvinaher væri væntanlegur.
Sérhver rómverskur hermaður bar með sér – samkvæmt fornum heimildum – tvö eins og hálfs metra löng spjót og því gátu spjót samanlagt talið um 10.000 í hverri hersveit.
Spjótin voru ydduð í báða enda og grennri í miðjunni. Fræðimenn eru ekki á einu máli um hvernig þetta varðar notagildi þeirra.
Lögun þeirra og lengd bendir þó til þess að þeim hafi verið stungið inn í varnargarðinn þannig að annar endinn stóð lárétt út úr honum og gat stungist í óvini þegar þeir réðust á garðinn.
Aðrir telja að gaddastaurarnir hafi verið bundnir saman í knippi með þremur í hverju og þeim komið fyrir á botni skurðsins eða á varnargarðinum, þegar ekki var hægt að finna heppilegri tré til að útbúa slíka staura í nágrenni búðanna.
Júlíus Sesar lýsir auk þess þeim gildrum sem hann nýtti oft í langvarandi umsátri við bæ Galla, Alesiu, árið 52 f.Kr. Meðal þeirra gildra sem trúlega voru notaðar til að verja venjulegar búðir voru niðurgrafnir oddhvassir staurar, þaktir greinum eða torfi.
Þannig vörðu Rómverjar búðirnar
Gaddar vörðu vígið
Hersveit tók með sér um 10.000 gaddaspjót. Þeim var stungið inn í varnargarðinn eða bundin saman og sett ofan á vegginn þegar ómögulegt reyndist að finna betri efnivið í nágrenni.
Oddhvössum greinum stungið í jörðina
Til að hægja á framrás óvinarins var svæðið fyrir framan virkið þakið hindrunum. M.a. skurðir með oddhvössum greinum.
Fallgildrur með skaðræðistólum
Svonefndar „liljur“ – oddhvassir staurar í knippum – voru settar í holur á breiðu belti fyrir framan virkisveggina og síðan mokað yfir þær. Júlíus Sesar notaði slíkar m.a. í umsátrinu við Alesiu.
Járnkrókar lemstruðu fætur
Margir óvinir Rómverja börðust berfættir. Hermennirnir festu því járnkróka á toppinn á þúsundum niðurgrafinna staura sem lágu í belti fyrir framan búðirnar.
Þannig vörðu Rómverjar búðirnar
Gaddar vörðu vígið
Hersveit tók með sér um 10.000 gaddaspjót. Þeim var stungið inn í varnargarðinn eða bundin saman og sett ofan á vegginn þegar ómögulegt reyndist að finna betri efnivið í nágrenni.
Oddhvössum greinum stungið í jörðina
Til að hægja á framrás óvinarins var svæðið fyrir framan virkið þakið hindrunum. M.a. skurðir með oddhvössum greinum.
Fallgildrur með skaðræðistólum
Svonefndar „liljur“ – oddhvassir staurar í knippum – voru settar í holur á breiðu belti fyrir framan virkisveggina og síðan mokað yfir þær. Júlíus Sesar notaði slíkar m.a. í umsátrinu við Alesiu.
Járnkrókar lemstruðu fætur
Margir óvinir Rómverja börðust berfættir. Hermennirnir festu því járnkróka á toppinn á þúsundum niðurgrafinna staura sem lágu í belti fyrir framan búðirnar.
Þessu næst yfirgaf herinn búðirnar í langri lest. Allt eftir stærð hersins gat brottförin tekið mjög langan tíma. Framsveitir riddara og létt fótgöngulið, eins og bogaskyttur, fóru fremstir. Þessu næst komu hermenn í fylkingu með sex mönnum á breiddina í hverri röð. 5.300 manna stór her gat þannig náð einum og hálfum kílómetra á lengdina.
Þegar Sesar marseraði í átt að Sambre-fljóti í Gallíu með sex hersveitir árið 57 f.Kr. náði lengd hers hans nánast 10 kílómetrum. Við þetta bættust 900 vagnar með birgðum sem bættu fjórum kílómetrum við lengdina.
Síðast í þessari löngu röð var þyngsti útbúnaðurinn eins og slöngvivaðir og verkfræðingaútbúnaður sem öftustu hermennirnir gættu. Þessi þrautskipulega ganga gat því náð meira en 22 km. Samanlagt var því lengdin á herleiðangrinum heilir 36 km.
Þetta fól í sér að þegar fyrstu hermennirnir komu á áfangastað þar sem reisa skyldi nýjar búðir og hófust strax handa við að grafa nýja skurði, þá stóð drjúgur hluti hersins enn átekta og beið eftir því að geta haldið af stað úr gömlu búðunum.
Það var síðan fyrst eftir 12 tíma sem efirlegukindurnar náðu fram til nýju búðanna sem á þeim tíma var þegar búið að reisa fyrir löngu þannig að hæfði þeim öllum.
Sesar gabbaði óvininn
Óvinir tóku vitanlega eftir þessu mikla byggingarstarfi Rómverja. Í herleiðöngrum Sesars í Gallíu fylgdu gallískir njósnarar oft á hæla hersins og ættbálkar reyndu í sumum tilvikum að líkja eftir virkisgerð Rómverja.
Þegar Quintus Cisero varð fyrir árás Galla undir forystu Ambiorix árið 54 f.Kr. byggðu ættbálkarnir heljarinnar herbúðir með miklum skurðum og varnarveggjum umhverfis búðir Ciceros. Með þessum hætti voru þeir öruggir um að geta leitað skjóls ef á þyrfti að halda en jafnframt var Rómverjum gert ókleift að flýja.
Sesar vissi að Gallarnir þekktu vel til rómverskra búða og þegar hann kom Cicero til hjálpar nýtti hann sér þessa vitneskju þeirra gegn þeim. Í verki sínu um stríðin skrifar Sesar hvernig hann lokkaði Gallana í gildru:
„Vitað var að þetta yrðu fremur litlar búðir þar sem hann (Sesar, ritstj.) hafði ekki yfir meira en 7.000 mönnum að ráða og bar engan þungan farangur en hann smækkaði búðirnar enn frekar með því að þrengja vegi búðanna þannig að herafli hans virtist vera afar lítill“.
Þessu næst skipaði Sesar hermönnum sínum að „hækka varnarvegginn allan hringinn og byrgja fyrir alla innganga en á meðan áttu hermennirnir að hlaupa villuráfandi um og láta eins og þeir væru dauðhræddir“.
Hugmyndin um að útrýma Rómverjum og ekki síst drepa Sesar varð til þess að Ambiorix gerði hlé á umsátrinu um vetrarbúðir Ciceros og hélt þess í stað að þessum veigalitlu búðum Sesars sem virtust innihalda langtum minni herafla en jafnan var raunin.
Gallarnir sóttu alveg upp að búðunum án þess að mæta minnstu mótspyrnu. Þeir gátu ekki einu sinni komið auga á nokkurn rómverskan hermann á virkisveggjunum. Sigurvissir tóku Gallarnir því að fylla skurðina í kringum búðirnar þannig að þeir gætu ráðist frá öllum hliðum í senn.
Skyndilega gall við lúðrahljómur innan úr búðunum.
Torfinu var velt úr gáttunum í virkisveggjunum sem áður voru byrgðir og rómverskir hermenn streymdu út með skipulegum hætti. Þetta kom Göllum algjörlega í opna skjöldu og mikill ótti greip um sig meðal þeirra. Þeir vörpuðu frá sér vopnum og flúðu í algeru ofboði. Hermenn Sesars og ekki síst riddarar hans fylgdu beint á hæla þeirra og hjuggu þúsundir hermanna niður. Samkvæmt frásögn Sesars missti herdeild hans ekki einn einasta mann þennan dag.
Skyndiárásir Rómverja úr búðunum komu óvininum einatt í opna skjöldu
Herbúðir verða að bæjum
Rómverskir hermenn héldu áfram að byggja upp slíkar búðir allt fram á 3. öld e.Kr. Þar kom þó að keisaradæmið var svo stórt að Rómverjar neyddust til að stilla frekara hernámi í hóf. Þess í stað einbeittu hermennirnir sér að því að verja hertekin svæði.
Varanlegar búðir komu nú í stað þeirra gömlu og voru þær styrktar með timbri og steinhleðslum. Slík virki löðuðu til sín fjöldann allan af staðarbúum –kaupmönnum, handverksmönnum og gleðikonum – sem falbuðu þjónustu sína. Þetta leiddi til þess að heilu bæirnir döfnuðu sem aldrei fyrr og líflegt samfélag spratt upp í kringum þá víðsvegar í Evrópu.
Eitt dæmi um slíkar búðir sem urðu að þorpi er Mogontiacum þar sem hermenn dvöldu í vetrarbúðum árið 69 e.Kr. Virki þetta varð síðan að þýska bænum Meinz ásamt fjölda annarra evrópskra borga. Núna er Meinz minnisvarði um þann tíma þegar rómverskir hermenn lögðu undir sig heiminn með sverðum og spjótum en þó fyrst og fremst skóflum.
Í rómverskum herbúðum fundu fornleifafræðingar um 800.000 sauma.
Rómverjar földu tíu tonn af saumi undir gólfinu
Í Skotlandi er nú að finna leifarnar af rómverska virkinu Inchtuthil. Upphaflega voru þetta fábrotnar tjaldbúðir en urðu síðan að varanlegu vígi með háum girðingum úr tré. Byggingarnar voru negldar saman með saumi.
Við uppgröft í Inchtutil árið 1959 fundu fornleifafræðingar sér til mikillar furðu nokkuð sem sýndi hversu verðmætir slíkir saumar voru Rómverjum.
Þrem metrum undir verkstæði búðanna leyndust um 800.000 handgerðir járnsaumar. Þeir voru líklega grafnir niður skömmu áður en Rómverjar neyddust til að yfirgefa virkið endanlega.
Þyngd naglanna nam næstum 10 tonnum og því hefur það verið ærið verkefni að flytja allt þetta járn með sér.
Rómverjarnir kusu þess í stað að grafa saumana niður svo þeir myndu ekki falla óvininum í skaut. Mögulega ætluðu þeir að sækja þá síðar. Þessu næst brenndu þeir verkstæðið. Skoskir ættbálkar uppgötvuðu því aldrei þessi verðmæti sem leyndust undir virkinu.
Lesið meira um virki Rómverja
Elizabeth Shirley: Building a roman legionary fortress, Tempus, 2001
John Peddie: The Roman War Machine, Sutton Publishing, 2004
Chris McNab, The Roman Army, Osprey, 2010