Jörðin myndaðist fyrir tæplega 4,6 milljörðum ára og 3,8 milljarða ára steingervingar á Grænlandi eru elstu sannanir um tilvist lífs á hnettinum.
Nú hefur fjölþjóðlegur hópur vísindamanna beitt nýrri greiningaraðferð og fundið vísbendingar um að líf kunni að hafa myndast á jörðinni fyrir 4,2 milljörðum ára, sem sagt þegar hnötturinn var aðeins um 400 milljón ára.
Nú orðið er almennt talið að allt flókið frumulíf á hnettinum eigi ættir að rekja til sameiginlegrar formóðurfrumu sem nefnd hefur verið LUCA (Last Universal Common Ancestor).
Þessi formóðir er sameiginleg rót þess ættartrés sem greinst hefur í allt frá einfrumungum á borð við bakteríur til flóknari lífvera svo sem plantna og dýra, þar á meðal risaeðlna og spendýra sem maðurinn tilheyrir.
Sameindaklukka
Til að komast að því hvenær LUCA kann að hafa orðið til létu vísindamennirnir ekki nægja að einblína á elstu steingervingana.
Þeir rannsökuðu gen, bæði úr núlifandi lífverum og fjölmörgum steingervingum. Aðferðina mætti kalla sameindaklukku og með henni má fara nærri um hraða stökkbreytinga í genum.
Með því að telja stökkbreytingar má áætla hve langt þarf að fara aftur í tímann til að greina hvenær tilteknar tegundir greindust að.

Talið er að LUCA sé formóðir alls frumulífs, þar sem það hefur skipt sér í þrjár greinar: Bakteríur, fornbakteríur og heilkjörnungar. Menn og önnur dýr, svo og plöntur og sveppir, tilheyra grein heilkjörnunga.
Allar lífverur búa yfir sameiginlegum erfðakóða sem m.a. lýsir aðferðinni við að mynda prótín, byggja upp amínósýrur og senda orku um frumuna.
Með því að bera saman breytingar á þessum grunnkóða í fjölda núverandi og útdauðra lífvera komust vísindamennirnir að þeirri niðurstöðu að upprunann megi rekja 4,2 milljarða ára aftur í tímann.
Vísindamennirnir komust líka að því að í LUCA myndaðist mjög snemma eins konar ónæmiskerfi til að verjast veirum. Það kom líka í ljós að úrgangsefni sumra frumna hafa snemma orðið fæðuuppspretta annarra og vistkerfi þannig myndast mjög snemma.
Darwin taldi að vagga lífsins hefði verið lítill vatnspollur. Aðrir hafa nefnt hafsbotninn. Nú hafa örflögur og eldskjótar efnafræðilegar greiningar kollvarpað þessum gömlu kenningum og fært vísindamenn nær en nokkru sinni áður því dularfulla umhverfi sem fóstraði fyrsta líf hnattarins.
Vísindamennirnir álíta að niðurstöður þeirra geti komið að haldi í leitinni að lífi á öðrum hnöttum.
„[Niðurstöðurnar] sýna líka hve fljótt vistkerfi mynduðust á hinni ungu jörð. Það merkir að líf getur blómstrað í jarðlíku umhverfi á öðrum stöðum í geimnum,“ segir Philip Donoghue prófessor við Bristol-háskóla í fréttatilkynningu.
Rannsóknarniðurstöðurnar birtust í tímaritinu Nature Ecology & Evolution.