Fæddi María mey Jesúbarnið raunverulega í útihúsi?

Getur það virkilega verið satt að María mey hafi eignast Jesúbarnið í fjárhúsi?

LESTÍMI: 2 MÍNÚTUR

 

Ef marka má jólaguðspjallið urðu María og Jósef að láta sér nægja fjárhús þegar þau komu til Betlehem, því öll gistihús bæjarins voru yfirfull.

 

Voru yfirleitt til gistihús?

Sagnfræðingar eru í fyrsta lagi mjög efins um að gistiheimili hafi yfirleitt fyrirfundist í Betlehem á þessum tíma.

 

Bærinn var einkar lítill og þar var engin verslun að ráði, svo ósennilegt þykir að þar hafi verið grundvöllur fyrir rekstur gistihúsa. Einkum og sér í lagi sökum þess hve stutt var til Jerúsalem sem var miklu stærri bær.

 

Áningarstaður utan bæjarins

Sennilega er meiri hjálp að hafa í fornri grískri þýðingu á Lúkasarguðspjallinu en þar er ekki talað um gistiheimili, heldur kemur þar fyrir orðið „kataluma“ sem táknar áningarstað.

 

Slíka staði var iðulega að finna í litlum bæjarfélögum í Mið-Austurlöndum til forna en þeir voru oftar en ekki staðsettir fyrir utan bæina, nærri brunnum eða uppsprettum. Áningarstaðir kunna að hafa verið yfirbyggðir en þeir þekktust einnig með stóru tjaldi umhverfis, líkt og tíðkaðist meðal hirðingja á svæðinu. Þá er einnig mögulegt að um hafi verið að ræða svæði sem grjóti og hnullungum hafði verið rutt í burtu frá, til þess að ferðamenn gætu sjálfir gert sér skjól fyrir nóttina.

 

Fæddist Jesúbarnið í hellisskúta?

Þegar Ágústus keisari Rómverja lét gera manntal má gera því skóna að margt fólk hafi verið á faraldsfæti við áningarstaðina umhverfis Betlehem. Rómverska hernámsveldið hafði nefnilega ákveðið að hver og einn borgari skyldi ferðast til þess staðar, með fjölskyldu sína sem ætt fjölskylduföðurins átti rætur að rekja til.

 

Þegar María fékk hríðir má gera ráð fyrir að hún og Jósef hafi fært sig frá hinu ferðafólkinu og leitað inn í einn margra hellisskúta á staðnum. Þessir hellar voru notaðir öldum saman til að hýsa í dýr á nóttunni og dýrin hafa ugglaust einnig ornað foreldrunum væntanlegu. Þá hefur hellirinn einnig varið þau gegn nístingskaldri gjólunni á svalri desembernóttu.

 

 

Birt: 25.12.2021

 

 

 

Hans Henrik Fafner

 

Lestu einnig:

(Visited 481 times, 1 visits today)

Tengdar Greinar

FULLUR AÐGANGUR AÐ VEFNUM Í 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR

PRÓFAÐU 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR