Fögnuðu Rómverjar jólunum?

Kristni breiddist fyrst út á 5. öld - þ.a. Rómverjar héldu ekki jól, eða...?

LESTÍMI: 2 MÍNÚTUR

 

Rómverjar héldu veislu

Árið 217 fyrir Krist lutu Rómverjar nokkrum sinnum í lægra haldi fyrir Hannibal, hinum þekkta herforingja frá Karþagó. Rómverjum veitti ekki af svolítilli uppörvun og fyrir bragðið var ákveðið að efna til mikilla hátíðahalda í Róm þann 17. desember.

Hátíðin þótti takast með þvílíkum ágætum að hún var endurtekin árið á eftir og þar með hafði verið lagður grunnur að nýrri hefð, Satúrnusarhátíðinni.

 

Hátíðin óx stöðugt þegar fram liðu stundir. Skemmtanahaldið teygði sig yfir heila viku, allt fram til 23. desember, þegar Rómverjar fögnuðu vetrarsólstöðum, stysta degi ársins. Hátíðin fékk jafnframt á sig nýjan brag.

 

Minningin um að hafa lotið í lægra haldi fyrir Hannibal fölnaði smám saman í meðvitund Rómverjanna og þess í stað einblíndu þeir á betri tíð með blóm í haga og hlökkuðu til langra sumardaga.

 

Á þessum sama tíma varð samneyti manna með frjálslegra sniði en verið hafði. Þegar farið var í veislur var ekki nauðsynlegt lengur að klæða sig í tóga-skikkjur og þrælar höfðu enn fremur leyfi til að skemmta sér og hegða sér eins og frjálsir menn.

 

Það varð meira að segja algengt að efnaðir Rómverjar bæru fram mat fyrir þræla sína, á meðan þeir allir svolgruðu í sig víni og skemmtu sér.

 

Sérstakur siður fór að gera sífellt meira vart við sig en hann fólst í því að gefa gjafir sitt á hvað. Gjafirnar voru iðulega vaxkerti sem hugsanlega hafa átt að tákna vetrarsólstöðurnar.

 

Hátíðahöld Rómverja urðu að jólahefðum

Rithöfundurinn Seneca kvartaði undan því að „almenningur gleymdi sér yfir nautnunum“ og á fyrstu öld eftir Krist sagði lögmaðurinn og stjórnmálaskörungurinn Plíníus yngri frá því að hann hefði læst sig inni í vinnuherbergi sínu á meðan annað heimilisfólk sletti úr klaufunum á Satúrnusarhátíðinni.

 

Ágústus keisari gerði tilraun til að stytta hátíðahöldin niður í þrjá daga og Kalígúla reyndi að takmarka þau við fimm daga. Rómverjarnir kærðu sig hins vegar kollótta: Þeir skemmtu sér af öllum lífs- og sálarkröftum í heila viku. Siðurinn með að gefa vaxkerti og aðrar gjafir lifði fram á 4. öld, allt þar til kristni öðlaðist útbreiðslu.

 

Sagnfræðingar telja fyrir vikið að sumar jólahefðirnar kunni að eiga rætur að rekja til Rómverja.

 

 

Birt: 25.12.2021

 

 

Hans Henrik Fafner

 

 

Lestu einnig:

(Visited 571 times, 1 visits today)

Tengdar Greinar

FULLUR AÐGANGUR AÐ VEFNUM Í 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR

PRÓFAÐU 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR