Hvenær var farið að merkja rafhlöður með bókstöfum?

Fyrstu rafhlöðurnar voru af öllum hugsanlegum stærðum og gerðum sem olli bandaríska hernum töluverðum vandræðum í fyrri heimsstyrjöld. Fyrir vikið tóku yfirvöld þá ákvörðun að gefa út fyrirmæli um lögun rafhlaðanna.

Samfélag

Lestími: 2 mínútur

 

Árið 1836 þróaði breski efnafræðingurinn John Frederic Daniell fyrstu nothæfu rafhlöðuna sem m.a. sá fyrir rafmagni í nýju ritsímana á þeim tíma.

 

Næstu áratugina á eftir þróuðu hinir ýmsu keppinautar Daniells ógrynnin öll af nýjum rafhlöðum sem voru mjög svo breytilegar hvað stærð, gerð og tækni snerti.

 

Eftir fyrra stríð var tekin ákvörðun í bandaríska hernaðarmálaráðuneytinu um að binda skyldi enda á þennan misleita rafhlöðumarkað.

 

Í stríðinu höfðu breytilegar rafhlöðurnar reynst Bandaríkjaher mikill dragbítur og þörf var komin fyrir að gera rafhlöðuframleiðsluna einsleitari og skilvirkari.

 

Árið 1919 undirbjó ráðuneytið tilskipun um stærð á rafhlöðum sem fól jafnframt í sér fyrirmæli um hvernig prófa skyldi rafhlöðurnar til að tryggja bestu gæðin.

 

Nýju viðmiðunum var svo breytt á komandi árum í samræmi við þróun nýrra rafhlöðutegunda og nýrrar tækni en sem dæmi má nefna að endurhlaðanlegar rafhlöður bættust í safnið.

 

                                                                                                 © Shutterstock

Bókstafir innleiddir

 

Árið 1928 samþykkti bandaríska staðlaráðið, þ.e. samtök sem stóðu fyrir samræmingu iðnaðarstaðla í Bandaríkjunum, formlega fyrirmæli ráðuneytisins og lét gera tæmandi yfirlit yfir allar rafhlöðustærðir.

 

Í yfirlitinu kom fram að nota skyldi bókstafinn A um minnstu rafhlöðurnar og nota síðan næstu stafi stafrófsins eftir því sem rafhlöðurnar stækkuðu.

 

Margar af upprunalegu rafhlöðugerðunum eru nú dánar drottni sínum og í dag eru merkingarnar AA, AAA, C og D þær sem mest eru notaðar.

 

Í Evrópulöndunum var ekki tekin ákvörðun um sameiginlegan rafhlöðustaðal fyrr en árið 1957. Síðan hafa staðlarnir þar svo verið samstilltir við þá bandarísku.

 

 

 

Birt 06.06.2021

 

 

Emrah Sütcü & Bue Kindtler-Nielsen

 

 

 

(Visited 396 times, 1 visits today)

Tengdar Greinar

No Content Available

FULLUR AÐGANGUR AÐ VEFNUM Í 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR

PRÓFAÐU 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR