Hvers vegna á að kyssast undir mistilteini?

Í dag er það talið rómantískt að kyssast undir mistilteini en hver ætli sé söguleg skýring á því og af hverju að kyssast beint undir mistilteininun?

LESTÍMI: 2 MÍNÚTUR

 

Mistilteinn er sígræn planta sem er eitruð. Af þeim sökum kann að þykja undarleg hefð að kyssast undir mistilteini um jólin.

 

Hins vegar hefur mistilteinn verið tengdur frjósemi og lækningu ýmissa þjóða í gegnum tíðina.

 

Þessir eignleikar plöntunnar gerðu það að verkum að hefð myndaðist að kyssa undir mistilteini.

 

Hvaðan er mistilteininn?

Rómverski sagnfræðingurinn Plíníus eldri (u.þ.b. 23-79) sagði frá því að keltneskir drúídar hafi tínt mistiltein af eikartrjám.

 

Plíníus var jafnframt náttúruvísindamaður og vissi að hvít ber mistilteinsins eru eitruð, sé þeirra neytt í miklu magni en hann heillaðist einnig af trú drúídanna á lækningamátt plöntunnar.

 

Mistilteinn tengdist lækningu, frjósemi og vernd hjá drúídum. Sá siður að kyssa undir mistilteini kom þó fyrst fram síðar.

Þegar drúídar tíndu mistiltein breiddu þeir hvítan dúk undir tréð til þess að mistilteinninn glataði ekki mætti sínum ef hann snerti jörðu.

 

Þeir notuðu svo mistilteininn í tengslum við sérstakar fórnir og hengdu hann jafnframt upp í dyraopum þar sem hann gegndi annars vegar hlutverki frjósemistákns og hins vegar varði íbúa hússins gegn illum öflum.

 

Kirkjan bannaði mistilteininn

Kirkjan bannaði lengi vel alla notkun mistilteins, sökum fyrri tengingar við heiðni. Siðurinn hélst hins vegar lifandi á meðal almennings og þar sem fólk trúði statt og stöðugt á frjósemisgildi mistilteinsins myndaðist sá siður að fólk skyldi kyssast í dyraopum. Líklegt þykir að siðurinn hafi orðið til á síðmiðöldum.

 

Vinsældir og útbreiðsla þessa siðar náði þó hámarki á 19. öld Viktoríutímans, sennilega fyrir þær sakir að heppilegt þótti að hægt væri að fylgjast með öllu kossaflangsi þegar það átti sér stað fyrir augum allra.

 

Mistilteinn hefur verið álitinn vera frjósemistákn allar götur frá því í fornöld.

Enn einn siðurinn náði fótfestu: Þegar karlmaður hafði stolist til að kyssa stúlku undir mistilteininum átti hann að tína af honum berin og henda þeim.

Þegar mistilteinninn hafði glatað öllum berjum sínum hafði hann misst töframáttinn.

 

Mistilteinninn verður jólahefð

Um þetta leyti var einnig farið að tengja mistiltein við jólin.

 

Á Viktoríutímanum var lögð rík áhersla á að jólin skyldu snúast um kærleika og vináttu og þar sem líta mátti á fæðingu frelsarans sem frjósemistákn var brautin að kirkjunni rudd.

 

Þetta varð til þess að kirkjan tók mistilteininn í fulla sátt, þó svo að notkun hans hafi strangt til tekið ekki flokkast undir kristilegar hefðir.

 

Mistilteinninn kemur fyrir í norrænni goðafræði

Í norrænni goðafræði er guðinn Baldur, sonur Óðins og Friggjar, drepinn með mistilteini. Frigg hafði látið allt í heiminum sverja að þeir myndu ekki gera Baldri mein – nema mistilteininn.

 

Til að koma höggi á Baldur platar Loki hinn blinda Höður, bróður Baldurs að skjóta á Baldur með ör úr mistilteini.

 

Sögurnar um mistilteininn fjalla því ekki bara um ást, frjósemi og lækningu.

 

 

Birt: 24.12.2021

 

 

Hans Henrik Fafner

 

Lestu einnig:

(Visited 779 times, 1 visits today)

Tengdar Greinar

No Content Available

FULLUR AÐGANGUR AÐ VEFNUM Í 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR

PRÓFAÐU 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR