Lifandi Saga

Pestin lagði Rómarríki í gröfina

Eftir 60 ára sundrungu nær býsanski keisarinn Justinían 1. að sameina Rómarríki á ný árið 541. Út á við virðist ríkið sterkara en nokkru sinni fyrr en kornskip á leiðinni frá Egyptalandi bera innanborðs með sér fall Rómarveldisins: Rottur smitaðar af pestinni.

BIRT: 07/03/2023

 

Miðjarðarhafsborgin Pelúsíum iðar af lífi. Á höfninni er verið að skipa upp vefnaði í stórum böggum og hveitisekkjum, ferma um borð í önnur verslunarskip.

 

Skipin stefna til annarra hafna um allt Miðjarðarhaf því að vörur frá Pelúsíum eru eftirsóttar og hafa gert borgina við mynni Nílar víðfræga í gjörvöllu býsanska keisaradæminu.

 

En árið 540 eru skipin með annað innanborðs heldur en bara hefðbundinn varning.

 

Pestin dreifðist meðfram Miðjarðarhafi. Hún er t.d. nefnd á spænskum steini frá 6. öld. 

Í lestunum reyndust rottur og á þeim flær sem bera í sér pestarsmit. 

 

Áður en rotturnar náðu að komast um borð í skipið hefur farsóttin þegar breiðst til íbúa í Pelúsíum. Þeir sjúku fá háan hita og óráð. 

 

„Stór svört kýli komu fram á sumum á stærð við baunir. Þeir lifðu ekki einu sinni í einn dag. Margir köstuðu einnig upp blóði án sýnilegrar ástæðu“, segir sagnaritari þess tíma, Procopios. 

 

Sjúkdómurinn afmarkast ekki lengi við hafnarborgina. Með skipum nær pestin m.a. til Alexandríu sem er um tvær dagleiðir í burtu.

 

Brátt mun smitið berast um Mið-Austurlönd og norður til Konstantínóbels, hjarta keisaraveldisins.

 

„Hún dreifðist í allar áttir, allt á heimsenda“, segir Prócópíus. 

 

Pestin hefur í fyrsta sinn náð fótfestu meðal manna og milljónir munu láta lífið þar til versta farsótt sögunnar fjarar á endanum út. 

 

Keisarinn gerði konu sína, Theódóru, að einni af voldugustu konu fornaldar. 

Voldugur keisari ríkti ásamt konu sinni 

Bóndadrengurinn Justinían var ættleiddur af frænda sínum, Justis 1. keisara og þegar Justis lést árið 527 var Justinían gerður að keisara. 

 

Þessi nýi keisari var enginn snillingur en hann var harðduglegur og náði að safna í kringum sig góðum ráðgjöfum. 

 

Þegar hann kvæntist fyrrum leikkonu, Theódóru og gerði hana að meðstjórnanda, leist mönnum ekki á blikuna. Hún reyndist samt vera bæði dugmikil og úrræðagóð. 

 

Hún var stoð og stytta keisarans, sérstaklega þegar uppreisn braust út í Konstantínóbel árið 532. Justinían var sem lamaður þar til Theódóra mælti hin ódauðlegu orð: 

 

„Stattu þig nú og berstu. Keisaralegur purpuri er fallegasta líkklæðið.“ 

 

Þá sendi keisarinn hershöfðingja sinn, Belesaríus, til leikvallar borgarinnar þar sem uppreisnarmenn höfðu safnast saman.

 

Meira en 30.000 voru drepnir af Belisaríusi og hermönnum hans og uppreisnin var kæfð niður. 

 

Þrátt fyrir að hann hafi stjórnað með harðri hönd er oft litið á Justinían sem síðasta mikla rómverska keisarann.

 

Hann gerði bragarbót á lögum og byggði margar glæsibyggingar í Konstantínóbel. 

 

Lög gegn heiðingjum til styrktar ríkinu

Innbyrðis valdabarátta og stríð höfðu allt frá 3. öld reynt á þolrif Rómarríkis. Árið 355 klofnaði keisaraveldið í austurhluta og vesturhluta, hvorum með sínum keisaranum.

 

Á næstu 100 árum molnaði Vestur-rómverska ríkið niður meðan Gotar og Vandalar herjuðu úr norðri.

 

Að lokum, árið 479, réðu Gotar yfir allri Ítalíu og komu síðasta vestræna keisaranum, Rómúlusi Ágústusi, frá völdum.

 

Margir keisarar í Austur-rómverska ríkinu, einnig nefnt Býsanska ríkið, vonuðust til að sameina ríkið á ný.

 

En það var fyrst undir Justinían 1. sem sameiningin tókst á 6. öld. Þökk sé hinum snjalla hershöfðingja Justiníans, Belisarius, voru Gotar og Vandalar hraktir úr fyrri löndum Rómverja, á Spáni og í Afríku.

 

Árið 535 hélt sigurvegarinn upp á árangurinn með því að hernema Róm og hrekja Gota út þaðan. Upprunaleg höfuðborg ríkisins var nú aftur komin í rómversk-býsanskar hendur. 

 

Justinían stóð nú í fararbroddi þessa mikla keisaraveldis og tók að bæta lögin þannig að allir íbúar yrðu jafn réttháir – svo fremi sem þeir væru kristnir.

 

Markmið hans var að skapa kristið stórveldi þar sem forn bábilja heiðingja átti sér ekkert athvarf og sem dæmi var harðbannað að bölva í Guðs nafni. 

 

„Þess konar synd leiðir bæði af sér hungursneið og jarðskjálfta og plágur“, mátti lesa í nýrri löggjöf Justiníans, „Corpus Juris Civilis“. 

 

En ríki Justiníans var að niðurlotum komið. Áratugalangur hernaður gegn m.a. Húnum á 5. öld hafði tæmt ríkiskassann.

 

Og án fjármagns fyrir ýmis konar viðhald hrörnaði m.a. vegakerfið og vatnsból eyðilögðust.

 

Justinían hugðist þó ráða bót á þessu; Skattar voru brátt hækkaðir og peningar rúlluðu inn í kassann. 

„Á þessum svæðum sáum við mörg mannlaus þorp. Á jörðinni lágu lík án þess að nokkur hirti um þau“.

Jóhannes af Efesos, 6. öld.

 

Skatturinn var ákveðinn eftir því hvaða eignir viðkomandi átti, þannig að skattheimtumenn fóru út um allt ríkið og sneru heimilum fólks á hvolf til að meta verðmæti hvers og eins. 

 

Orðrómur barst út um að það væri búið að innrétta fangelsiskjallara þar sem skattsvikarar fengju að dúsa ef þeir greiddu ekki sinn skatt.

 

Til þess að forðast óeirðir tryggði keisarinn sér hollustu fólksins með því að halda afar vinsælar veðreiðar í Konstantínóbel á glæsilegum velli sem tók allt að 100.000 áhorfendur. 

 

Þetta gafst ágætlega og á fáeinum árum blómstraði höfuðborgin á ný.

 

Eitt helsta afrek Justiníans var smíði Hagia Sofia sem var heimsins stærsta kirkja er byggingu hennar lauk árið 537. 

 

Eftir ótal sigra á vígvellinum og með keisara sem alþýðan elskaði og dáði, virtist þessi mikla borg vera óvinnanlegt vígi árið 541.

 

En ekki leið á löngu þar til nokkrar flær áttu eftir að kollvarpa keisaradæminu.

 

Justinían 1. byggði meðal annars hina víðfrægu kirkju Hagia Sofia eða Ægisif, í Konstantínóbel. 

Korn og vín eyðileggst

Nokkrum mánuðum eftir að pestin gaus upp í Pelúsíum smituðust borgarar meðal annars í Gaza og Jerúsalem. Þeir fengu háan hita, svört kýli í nára og handarkrikum. 

 

Meðan annálar frá þessum tímum benda allir til Afríku sem upprunastaðar smitsins eru sérfræðingar nútímans í meiri vafa. Ein ný kenning kveður á um að sjúkdómurinn hafi frekar komið frá Indlandi. 

 

Skip frá t.d. hafnarborginni Barigaza í norðvestur Indlandi sigldu upp í gegnum Rauða hafið og lögðust að bryggju við strendur N-Afríku. Um borð í þeim voru líklega rottur með sýktar flær.

 

Rotturnar smituðust sjálfar af biti flónna og gátu nú dreift sjúkdómnum áfram. Þegar þær drápust hoppuðu flærnar yfir í nýjan hýsil – rottur eða manneskjur.

 

Indversk krydd og klæði voru fröktuð áfram norður á bóginn með verslunarferðum til t.d. Pelúsíum.

 

Með þeim voru pestarflær einnig í hári manna eða varningi. Smituð fló gat lifað af í margar vikur. 

„Á þessum tíma geisaði plága þar sem næstum allt mannkyn var í hættu“.

Sagnfræðingurinn Procopius.

 

Árið 541 breiddist pestin út í kringum Miðjarðarhafið og olli skjótt skelfilegum hörmungum. Á þessum tíma hélt sýrlenski presturinn Jóhannes af Efesos í ferð um keisaradæmið.

 

Þar sá hann hræðilegar afleiðingar pestarinnar.

 

„Á þessum svæðum sáum við mörg yfirgefin þorp. Á jörðinni lágu lík eins og hráviði án þess að nokkur sinnti þeim“, skrifar hann. 

 

Á öðrum stöðum, segir kirkjufaðirinn, voru lík dregin í fjöldagrafir allan liðlangan daginn. Kýr og geitur hlupu um frjálsar því eigendur þeirra voru dauðir. Bændur hættu að sinna ökrunum sem jók bara á vandann. 

 

„Á öllum stöðum þar sem við fórum um voru yfirgefnir akrar með háreistu hveiti en það var enginn til að uppskera það“, skráði Jóhannes. 

 

Pestin náði til Konstanínóbel sumarið 442 og dreifðist um eins og eldur í sinu. Þessi þéttbýla borg með um hálfa milljón íbúa var ein sú stærsta í heimi og samkvæmt sagnfræðingnum Prócópíusi dóu allt að 5.000 – 10.000 manns á hverjum degi.

 

Líkin hrúguðust upp á götunum því að líkgrafarar borgarinnar gátu ekki annað öllum þessum fjölda. 

 

„Á þessum tíma var þetta farsótt þar sem við lá að allt mannkyn myndi verða aldauða“, ritaði Prócópíus. 

 

540 – Plágan kemur

Plágan berst til egypsku hafnarborgarinnar Pelúsíum. Óvíst er hvernig hún berst til borgarinnar, en líklega eru það smitaðar rottur sem hafa komist um borð í skip frá Austur-Afríku eða Indlandi.

541 – Sjúkdómurinn breiðist hægt út

Pestasmitaðar rotturnar fjölga sér gríðarlega í Pelúsíum, en sjúkdómurinn hefur hægt um sig fyrsta árið. Hins vegar verða nærliggjandi svæði við Miðjarðarhaf og Gaza illa fyrir barðinu á pestinni, m.a. stærsta borg Egyptalands, Alexandría.

542 – Höfuðborgin verður illa úti

Pestasmitaðar rotturnar laumast um borð í kaupskip sem sigla frá Egyptalandi til hins býsanska heimsveldis. Höfuðborg konungsríkisins og ein af stærstu borgum heims Konstantínópel verður hin eiginlega farsóttarmiðja og þúsundir deyja daglega í borginni.

543 – Dauðinn ríkir um allt keisaradæmið

Pestin berst frá Konstantínópel og hinum stóru verslunarborgunum með skipum til alls heimsveldisins og herjar m.a. í Karþagó, Róm og Arlens í Frakklandi. Milljónir deyja áður en árið er á enda og fyrsti plágufaraldur heimsins hjaðnar ekki fyrr en árið 549. Á næstu 200 árum verður heimurinn fyrir barðinu á 17 bylgjum til viðbótar

Keisarahjónin liggja undir ámæli

Ekki einu sinni í höll sinni í Konstantínóbel gátu Justinían og kona hans, Theódóra, forðast stybbuna af rotnandi líkum, því þúsundir þeirra lágu eins og hráviði hér og þar í sumarhitanum.

 

Keisarinn heimilaði meira að segja að ekki þyrfti lengur kristilega jarðarför fyrir hina látnu.

 

Þess í stað var líkunum varpað út í Bosporus-sund eða þeim siglt til bæjarins Sycae hinum megin við sundið. 

 

„Líkgrafararnir skriðu upp í virkisturna í Syceu og fylltu þá af líkum. Fyrir vikið barst fnykurinn í gegnum borgina öllum íbúum til mikils ama“, greinir Prócópíus frá. 

 

Líkin rotnuðu svo hratt að grafararnir þurftu að sauma hina dauðu inn í sekki því ella duttu líkamar í sundur bara við það að færa líkin upp á börur.

 

Fljótt kom í ljós að það voru ekki nægjanlega margar líkbörur í borginni þannig að keisarinn fyrirskipaði smíði 600 nýrra hjá smiðum borgarinnar. 

 

Þetta framtak Justiníans hreif þó ekki gagnrýnendur keisarans. Bak við fagurt orðaskrúð var Prócópíus heldur enginn aðdáandi hans – í leynilegu riti sínu „Anecdota“ talaði hann um Justinían sem „gráðugan og illskeyttan harðstjóra“. 

 

Meðan pestin geisaði óx gagnrýnin á keisarann einkum meðal yfirstéttarinnar og liðsforingja sem um áraraðir höfðu verið andsnúnir eiginkonu hans, Theódóru.

 

Við krýningu sína árið 527 hafði Justinían hrellt íhaldssömu elítuna með því að gera hina 20 árum yngri konu sína að meðstjórnanda. Þó þorðu fæstir gagnrýnendur að opinbera óánægju sína. 

 

Yfirstéttin varð einnig illa úti í pestinni og kvartaði yfir „hneykslanlegri græðgi“, þegar líkgrafarar kröfðust tvöfaldra launa fyrir að draga rotnandi lík þrælanna burt.

 

Pestin var sérstaklega skæð í þéttbýlum borgum í Býsanska ríkinu. 

Skortur á vinnuafli varð til að launin snarhækkuðu og bara það eitt að láta þvo klæði varð þrisvar sinnum dýrara en áður.

 

Þó leið ekki á löngu þar til lífleg viðskipti á mörkuðum liðu undir lok og hungursneyð braust út. 

 

Það var einkum í borgunum sem fólkið svalt, því bændur vildu ekki fara með vörur sínar þangað af ótta við smit.

 

Justinían setti lög gegn verðhækkunum en skortur á mat fékk fólk til að borga næstum hvað sem var. Í sýrlenska bænum Antiokkíu mátti skipta á brauði fyrir eina kú. 

 

Fyrir keisarann þýddi þetta að skattatekjur hurfu og til að spara eðalmálma var Justinían neyddur til að draga úr magni gulls, silfur og kopars í myntsláttu ríkisins.

„Sumir telja að guðdómleg reiði sé orsök þessara hörmunga. Að þetta sé endurgjald fyrir syndir manna sem felst í að drepa fjölmarga íbúa“

Gríski sagnfræðingurinn Agathia á 6. öld

 

Þá var myntin jafnframt minnkuð og var fyrst og fremst úr járni og blýi.

 Fornleifafundir sýna að t.d. koparmynt varð 23% léttari eftir að pestin gaus upp. 

 

Justinían átti enga valkosti – hann hækkaði skattana enn frekar sem jók á óvinsældir hans.

 

Eitt umdeildasta verk hans var að bændur þurftu nú ekki aðeins að borga fasta skatta, heldur áttu þeir einnig að leggja sitt af mörkum fyrir skattana sem látnir nágrannar þeirra skulduðu. 

 

Óútskýrð dauðsföll voru skýrð með farsótt

Í fornöld varð Evrópa mörgum sinnum fyrir farsóttum. En núna eru sérfræðingar ósammála um hvort smitin hafi verið eiginlegur faraldur.

 

Þegar sagnfræðingar til forna lýstu farsótt kölluðu þeir hana oft „plágu“.

 

Orðið er komið úr latínu, plaga sem þýðir orrusta eða sár. Orðið er einnig þekkt úr frásögnum Biblíunnar um hinar tíu plágur Egyptalands.

 

Á ensku varð plaga að plague sem við þýðum oft sem pest. Þess vegna eru miklar farsóttir kallaðar pest þrátt fyrir að trúlega sé um að ræða aðra sjúkdóma.

Aþenska pestin: Þéttbýl borg varð að sóttarbæli

Tími: 430 f. Kr.
Hvar: Borgin Aþena
Fjöldi látinna: Allt að 100.000

 

Í Pelepóníska stríðinu gegn Spörtu varð Aþena fyrir ægilegri farsótt sem sagnfræðingar töldu vera komna frá Eþíópíu.

 

Borgin var full af flóttamönnum sem skapaði fullkomnar aðstæður fyrir dreifingu smita.

 

Talið er að allt að 100.000 manns hafi látið lífið. Sjónarvottar lýsa einkennum sem benda til innvortis sýkinga.

 

Því telja sérfræðingar ekki að þetta hafi verið eiginleg pest heldur öllu fremur taugaveiki eða mislingar.

Antóníska pestin: Austurlandasjúkdómur drap milljónir

Tími: 166 e. Kr.
Hvar: Rómarríki
Fjöldi látinna: 20 – 25 milljónir

 

Sigursælar rómverskar hersveitir snéru heimleiðis eftir að hafa náð bænum Seleukeia þar sem nú er Íran en fluttu með sér hræðilega smitsótt. Á næstu 10 – 15 árum lést allt að þriðji hver íbúi Rómarríkis en þeir voru 60 – 70 milljónir.

 

Sérfræðingar telja að farsóttin hafi verið upprunnin í Kína og borist með Silkileiðinni til vesturs. Rómverski læknirinn Galen lýsti m.a. einkennum eins og örmögnun og niðurgangi.

 

Sérfræðingar telja því ekki að þetta hafi verið eiginleg pest heldur mögulega bólusótt.

Kýpverska pestin: Pestin gæti hafa verið ebóla

Tími: 250 e. Kr.
Hvar: Rómarríki
Fjöldi látinna: Óþekktur

 

Allt að 5.000 borgarar dóu á hverjum degi í Róm þegar óþekktur smitsjúkdómur geisaði þar.

 

Cyprian, biskup í Karþagó, komst einnig í tæri við pestina í sinni borg og skrifaði hvernig „þarmarnir verða slappir við stöðugan niðurgang og í mergnum geisaði eldur“.

 

Síðar var farsóttin nefnd eftir biskupinum en þrátt fyrir að hann hafi kallað smitsóttina pest eru sérfræðingar í vafa. Lýsingarnar benda frekar til veiru eins og ebólu.

Bænahald gegn farsóttinni

Fyrir Býsansbúa var dauði svo margra óskiljanlegur. Læknar voru hjálparvana og farsóttin leysti úr læðingi trúarofsa.

 

Fólk flykktist í kirkjur til að biðja Guð um náð. Meðal margra annarra taldi gríski sagnfræðingurinn Agaþías mögulegt að pestin væri refsing guðs. 

 

„Sumir telja að guðdómleg reiði sé orsök þessara hörmunga. Að þetta sé endurgjald fyrir syndir manna sem felst í að drepa fjölmarga íbúa“, ritaði Agathias í verki sínu „Historian“ frá 6. öld. 

 

Ekki bætti úr skák að hinir smituðu virtust oft sem andsetnir af djöflum: Þeir töluðu óráð og margir hentu sér út í sjóinn til að kæla brennandi heita húð sína. 

Rottur sem voru smitaðar af flóm héldu um borð í verslunarskip og dreifðu plágunni vítt og breitt á fáeinum árum. 

Þetta óvenjulega háttalag varð til að prestar reyndu að reka út djöflana. 

 

„Menn litu á þá sem ónáttúrulegar verur í dulbúningi manna og leituðust við að hreinsa þá með því að nefna heilögustu nöfn í Biblíunni en það reyndist gagnslaust því allir dóu“, segir Prócópíus. 

 

Sjúkdómurinn gat borist hratt út og var svo skæður að sumir smitaðir duttu niður dauðir þar sem þeir stóðu. Því tók fólk að sauma nöfn sín í klæðin, því að þá gæti verið hægt að bera kennsl á líkin og greina fjölskyldunni frá örlögum ástvina. 

 

Það er ljóst að farsóttin herjaði á alla hópa samfélagsins, því árið 542 varð sjálfur Justinían veikur.

 

Meðan keisarinn var milli heims og helju tók Theódóra völdin sem jók áhyggjur íbúanna.

 

„Þrátt fyrir að ekki tækist að sanna neitt á Belísaríus var hann hrakinn frá störfum“.

 Sagnaritarinn Prócópíus.

 

Í æsku sinni hafði hún verið leikari, dansari og síðar jafnvel vændiskona eða svo var sagt.

 

Í kirkjusögu sinni kallar Jóhannes af Efesós keisaraynjuna „hina óverðugu Theódóru“. 

 

En hún lét slíkt umtal ekkert á sig fá.

 

Hún nýtti fjármuni ríkisins til að byggja m.a. sjúkrahús og barnaheimili fyrir öll þau fjölmörgu börn sem farsóttin hafði gert munaðarlaus. 

 

Farsóttin geisaði í öllu Rómarveldi

Frá Írlandi í vestri til Persíu í austri – allur hinn þekkti heimur fékk að kenna á pestinni á 6. og 7. öld. Eftir fyrstu bylgjuna barst pestin út minnst 18 sinnum á næstu 200 árum.

 

Tíglar: Þekkt pestarbæli

Örvar: Möguleg leið pestarinnar

Appelsínugult: Býsanska ríkið (Austur-rómverska ríkið) árið 565

Antiokka (542,590): Við enda silkivegarins

Bærinn Antiokka var ein endastöðin á silkiveginum og fékk að kenna á mörgum farsóttum. Í sjálfsævisögu Símons Stylites, kristins einsetumans, er sagt: „Fólk í Antiokku sýktist í nára og holhöndum og létust margir skjótt“.

Jerúsalem (542): Dauðinn geisar

Samkvæmt munkinum Cyril í Jerúsalem, flúði fólk þegar borgin varð fyrir „mikilli og hræðilegri drepsótt“. Mörg þúsund létust á fáeinum vikum.

Írland (543,664): Írland varð illa úti

Frá Miðjarðarhafi komu skip með m.a. korn og klæði til Írlands. Smitaðar rottur fóru á land og smituðu þriðja hvern íbúa á eyjunni.

 

Árið 731 var skrifað í kirkjuannála munksins Edens: „Smitið geisaði vítt og breitt og herjaði á Bretlandi og Írlandi með hræðilegri eyðileggingu“.

Karþagó (543): Skip til Karþagó

Pestin náði til norður afrísku borgarinnar með sjóleiðinni. Skáldið Corippus ritaði: „Dauðinn var svo útbreiddur að fólk varð sinnulaust gagnvart honum og hætti að syrgja hina látnu“.

Róm (543): Róm næstum aldauða

Eftir fyrstu pestina voru einungis fáeinar þúsundir íbúa eftir í Róm. Árið 590 dó páfinn Pelagíus úr sóttinni. Eftirmaður hans, Gregor, skipulagði líkfylgdina. Í henni létust 80 þátttakendur úr sjúkdómnum.

Clairmont-Ferrant (573): Lík hrúgast upp

Smitið dreifðist frá frönskum strandbæjum með verslunarskipum upp eftir fljótunum. Gregor biskup af Touls ritaði í „Sögu Frankanna“: „Á einum sunnudegi voru 300 lík talin í St. Peters Basilica í Clairmont-Ferrant“.

Farsóttin geisaði í öllu Rómarveldi

Frá Írlandi í vestri til Persíu í austri – allur hinn þekkti heimur fékk að kenna á pestinni á 6. og 7. öld. Eftir fyrstu bylgjuna barst pestin út minnst 18 sinnum á næstu 200 árum.

 

Tíglar: Þekkt pestarbæli

Örvar: Möguleg leið pestarinnar

Appelsínugult: Býsanska ríkið (Austur-rómverska ríkið) árið 565

Antiokka (542,590): Við enda silkivegarins

Bærinn Antiokka var ein endastöðin á silkiveginum og fékk að kenna á mörgum farsóttum. Í sjálfsævisögu Símons Stylites, kristins einsetumans, er sagt: „Fólk í Antiokku sýktist í nára og holhöndum og létust margir skjótt“.

Jerúsalem (542): Dauðinn geisar

Samkvæmt munkinum Cyril í Jerúsalem, flúði fólk þegar borgin varð fyrir „mikilli og hræðilegri drepsótt“. Mörg þúsund létust á fáeinum vikum.

Írland (543,664): Írland varð illa úti

Frá Miðjarðarhafi komu skip með m.a. korn og klæði til Írlands. Smitaðar rottur fóru á land og smituðu þriðja hvern íbúa á eyjunni.

 

Árið 731 var skrifað í kirkjuannála munksins Edens: „Smitið geisaði vítt og breitt og herjaði á Bretlandi og Írlandi með hræðilegri eyðileggingu“.

Karþagó (543): Skip til Karþagó

Pestin náði til norður afrísku borgarinnar með sjóleiðinni. Skáldið Corippus ritaði: „Dauðinn var svo útbreiddur að fólk varð sinnulaust gagnvart honum og hætti að syrgja hina látnu“.

Róm (543): Róm næstum aldauða

Eftir fyrstu pestina voru einungis fáeinar þúsundir íbúa eftir í Róm. Árið 590 dó páfinn Pelagíus úr sóttinni. Eftirmaður hans, Gregor, skipulagði líkfylgdina. Í henni létust 80 þátttakendur úr sjúkdómnum.

Clairmont-Ferrant (573): Lík hrúgast upp

Smitið dreifðist frá frönskum strandbæjum með verslunarskipum upp eftir fljótunum. Gregor biskup af Touls ritaði í „Sögu Frankanna“: „Á einum sunnudegi voru 300 lík talin í St. Peters Basilica í Clairmont-Ferrant“.

Nágrannar réðust á hina ríku

Þessi góðverk Theódóru milduðu ekki vantrú fólks á henni. Þrátt fyrir að keisarinn hafi opinberlega deilt völdum með henni óttaðist Theódóra uppreisn.

 

Hjónin voru barnlaus og litrík fortíð hennar gróf undan valdboði keisaraynjunnar. Meðan farsóttin geisaði var Theódóra allan tímann í Konstantínóbel, þar sem hún gætti þess að bestu læknar sinntu keisaranum.

 

Þar gat hún einnig fylgst náið með mögulegum keppinautum sínum. 

 

Helsta ógnin þótti henni vera Belísaríus hershöfðingi sem hafði endurheimt Róm og sameinað gamla Rómarveldi. Hershöfðinginn var samt of vinsæll meðal alþýðu manna til að vera fangelsaður eða tekinn af lífi.

 

Þess í stað skipaði hún Belísaríus að koma til hallarinnar og fyrir framan hirðina kærði hún hann fyrir uppreisnartilraun og landráð. Trúlega voru þær ákærur upplognar. 

 

„Þrátt fyrir að ekki tækist að sanna neitt á Belísaríus var hann hrakinn frá störfum“, skrifar Prócópíus. 

 

Nú gat keisaraynjan haldið áfram að stýra ríkinu, þar til Justinían náði sér af veikinni og tók við stjórninni.

 

En ríkið varð nánast allt í rúst. Í Konstantínóbel einni saman höfðu allt að 40% íbúa dáið og í öllu keisaraveldinu höfðu milljónir látið lífið á fyrsta ári farsóttarinnar. 

 

Pestin þynnti einnig raðir hermanna Justiníans. Á landamærunum að Persaríki voru virki keisarans hálftóm. Herforingi Persíu, Khosroes 1., var ekki seinn á sér að nýta tækifærið.

 

Viss um skjótan sigur marseraði Persakóngur árið 543 inn í rómverska héraðið Armeníu, þar sem nú er Azerbaijan.

 

Justinían flýtti sér að setja Belísaríus aftur yfir herinn og hélt hann með hermönnum sínum á móti Persum.

 

Her hans var svipur hjá sjón en á fyrsta fundi með persneskum sendiherra mætti Belísaríus með 6.000 bestu menn sína – allir saman léttvopnaðir.

 

Brellan virkaði: Persar voru sannfærðir um að þetta hlyti að vera framvarðasveitin – og að eiginlegur her biði að baki henni. 

 

Persakóngur dró hersveitir sínar til baka og þegar pestin náði til hersveita hans yfirgaf hann fljótt héraðið. 

Í 1.500 ára gamalli tönn hafa vísindamenn fundið pestarbakteríuna sem orsakaði justiníönsku pestina.

Justiníanska pestin var undanfari svartadauða

Vísindamenn eru nú vissir um að justiníanska pestin hafi verið fyrsta pestarfarsóttin.

 

Með nákvæmum rannsóknum á DNA efni úr fjölmörgum fjöldagröfum frá tímabilinu hafa vísindamenn fundið skýr merki um pestarbakteríuna Yersinia pestis.

 

Sumar best varðveittu beinagrindurnar eru frá 6. öld í Þýskalandi. Þar fundust tennur sem báru leifar næstum 1.500 ára gamallar pestarbakteríu.

 

Rannsóknirnar sýna þó einnig að þrátt fyrir að bæði justiníanska pestin og Svarti dauði hafi verið af völdum Yersinia pestis þá er ekki um að ræða sömu grein af smiti. 

 

Núna er bakterían sem orsakaði justiníönsku pestina, nokkur ráðgáta þar sem hún – ólíkt bakteríunni sem olli Svarta dauða – virðist vera alveg útdauð í dag.

 

Vísindamenn telja að þarna hafi verið stökkbreytt útgáfa af bakteríunni. En hvernig þessi stökkbreyting átti sér stað er erfitt að segja til um með vissu. 

 

Erfðafræðilegar rannsóknir benda til þess að pestin hafi komið frá Mið-Asíu.

 

Beinagrind frá því um 180 e. Kr. sem fannst í Tian Shan fjallgarðinum í austurhluta Kína ber enn menjar af Yersinia pestis sem minnir um margt á justiníönsku pestina.

 

Því telja vísindamenn að pestin hafi komið upp þar og á 4. og 5. öld borist til Mið-Austurlanda og Evrópu. 

 

Enn þann dag í dag rekast læknar á pestarbakteríur í mönnum en ráða má niðurlögum þeirra með sýklalyfjum. 

 

Snjöll taktík bjargaði höfuðborginni

Um 544 var farsóttin að mestu gengin niður í Býsanska ríkinu – mögulega þar sem margir þeirra sem lifðu af voru nú ónæmir eða vegna þess að færri menn drógu úr smiti.

 

En ógæfa Justinían hélt áfram þegar ástkær eiginkona hans lést árið 548.

 

Dánarorsök er ekki þekkt en ekkert bendir til að pestin hafi verið þar að verki. 

 

Án Theódóru við hlið sér var Justinían nú einmana maður með nær óviðráðanleg verkefni.

 

Sérfræðingar ætla að allt að 4 milljónir manna við Miðjarðarhaf hafi dáið áður en pestin fjaraði út árið 549.

 

Í öllu keisararíkinu er talið að fjöldi látinna hafi verið um 7 milljónir eða fjórði hver þegn Justiníans. 

 

Farsóttin skildi eftir veikburða ríki. Brátt réðust Vísigotar inn í Spán og á Ítalíu voru Austurgotar í herleiðangri.

 

Jafnframt gerðu margir rómverskir hershöfðingjar uppreisn og rændu landið og rupluðu. 

 

Enn á ný var kallað eftir Belísaríusi sem átti að ná Ítalíu á ný – með einungis 4.000 manna her. Eftir fjögurra ára baráttu flúðu Austurgotar og Róm var aftur endurheimt. En bardagarnir höfðu reynt mikið á Belísaríus.

Á 18. öld komu fram sögusagnir um að afprýðisamur Justinían hafi látið stinga augun úr hershöfðingja sínum, Belisarius og neytt hann til að ráfa um ríkið sem betlara. 

Hann sagði af sér en þessi ósigrandi hershöfðingi hafði þá þegar lagt mikið af mörkum til að farsóttin hefði ekki verri afleiðingar fyrir ríkið. 

 

Árið 555 náði Býsanska ríkið hátindi sínum.

 

Með landvinningum í vestri og útþenslu til austurs tókst Justinían að stækka keisaradæmið um 45% frá því að hann tók við völdum 28 árum áður.

 

En þessi hápunktur markaði einnig endalok á stórveldistíma þess. Á næstu árum sneru bæði farsóttir og óvinir til baka. Vonir Justiníans um að halda ríkinu sameinuðu brustu. 

 

Þegar árið 558 barst farsótt á ný til Konstantínóbel og kostaði bæði mannslíf og skattatekjur.

 

Lausn Justiníans fólst í að skera niður mála hermannanna sem varð til þess að margar hersveitir gerðu uppreisn. 

 

Án þess að mæta mótstöðu náðu búlgarskir hermenn nánast óhindraðir að hliðum Konstantínóbels árið 559.

 

Justinían taldi hinn aldraða Belísaríus á að bjarga höfuðborginni enn einn ganginn. 

 

Hershöfðinginn tók að sér verkefnið en með fámennan her fann hann snjalla taktík: Sjálfboðaliðar úr bændastétt og íbúar í Konstantínóbel fengu herklæði ásamt sverði og skildi.

 

Með þennan veikburða her tók Belísaríus sér stöðu fyrir framan borgarmúra Konstantínóbel.

 

Hershöfðinginn skipaði síðan „her“ sínum að berja fast með sverðum á skildina. Óhljóðin frá svo mörgum hermönnum urðu til þess að Búlgarar flúðu.

 

Sigurinn var þó skammvinnur fyrir keisaradæmið, því Belísaríus dó 60 ára gamall árið 565.

 

Án hershöfðingja síns varð Justinían bjargarlaus þegar Langbarðar streymdu inn í Ítalíu til að ræna og rupla.

 

Fáeinum mánuðum eftir dauða hershöfðingjans lést Justinían sjálfur – 83 ára gamall. Frankar hertóku Gallíu og Langbarðar alla Ítalíu árið 568.

 

Áður en öldin var úti var keisaradæmið búið að glata nær öllum sínum landvinningum. 

 

Olli farsóttin endalokum Rómarríkis? 

Sérfræðingar eru ekki sammála um hvaða afleiðingar pestin hafði í för með sér fyrir þetta mikla veldi sem Justinían sameinaði. Nýrri rannsóknir benda til að dánartíðni pestarinnar hafi verið ýkt í samtímabókum. 

 

Já, pestin rústaði stórveldinu 

Milljónir dóu 

Annálaskrifarar þess tíma greina frá hvernig allt að 10.000 manns dóu á hverjum degi í Konstantínóbel.

Núna telja sérfræðingar að 25 milljón manns við allt Miðjarðarhafið og í Evrópu hafi látið lífið meðan pestin geisaði, einkum í fyrstu bylgjunni á árunum 541 – 49.

 

Verslun stöðvaðist

Fornleifafundir sýna að rómversk-býsanskar vörur urðu fágætari í m.a. Frakklandi. Um 7. öld hættu skip frá eystri héruðum að koma með vörur til Vestur-Evrópu. Fundur á klæðum sýnir að þau urðu grófari og einfaldari í sniðum. 

 

Ríkið sundraðist 

Pestin fól í sér að skatttekjur hurfu og umsvif hersins minnkuðu.

Því missti Býsanska ríkið áhrif sín. Á 7. öld kvarnaðist frekar úr ríkinu. Í vestri missti ríkið völd yfir Spáni og Ítalíu. 

Nei, áhrif pestarinnar eru ýkt. 

Dánartíðnin er of há 

Vísindamenn við Maryland-háskólann í BNA hafa gert líkan fyrir smitdreifingu sem sýnir hve banvæn pestin á 6. öld var. Samkvæmt útreikningum gat smitið ekki borist svo hratt sem talið hefur verið. Sérfræðingar áætla þess í stað að justiníanska pestin hafi kostað 10 – 12 milljónir manna lífið. 

 

Ríkið stóð í áratugi 

Þetta nýja mat á dánartíðni bendir til að pestin hafi ekki orðið til þess að Býsanska ríkið hrundi.

Eftir að Justinían 1. keisari lést árið 565 tók frændi hans Justin 2. við án vandkvæða. Þrátt fyrir endurteknar farsóttir á næstu áratugum var ríkið öflugt.

 

Ríkið upplifði þannig hvorki uppreisnir né valdarán fyrr en árið 602, þegar herforingi Phocas hrifsaði völdin af Mauricos keisara. Þessu næst sundraðist ríkið vegna borgarastyrjaldar, því án þess að hafa sterkan keisara áttu herir múslima frá Mið-Austurlöndum auðvelt með að leggja undir sig býsönsk lönd. Það var síðan á 7. öld sem Býsans glataði héruðum til múslima. 

 

Landbúnaður hélt áfram

Alþjóðleg rannsókn frá 2019 sýnir að landbúnaður í ríkinu stóð af sér farsóttina. 

Vísindamenn frá BNA, Þýskalandi og Ísrael hafa greint frjókorn úr jarðvegi á botni vatna.

 

Niðurstöðurnar sýna að landbúnaðurinn hélt sínu striki eftir farsóttina. Hefði pestin haft stórkostleg áhrif á landbúnaðinn ættu vísindamenn að hafa fundið færri frjókorn af hveiti, rúgi og höfrum eftir að smitið barst þangað árið 541. 

 

Því álykta sérfræðingar að pestin hafi drepið færri úti á landi, þar sem fólk bjó dreifðara og var því ekki í jafn miklu návígi og í borgum.

 

Væri bóndabær yfirgefinn tóku nágrannar líklega við ökrunum og héldu áfram að yrkja þá. 

Endalok keisaradæmisins

Styrjaldirnar klufu Býsanska ríkið og fólu í sér að flóttamenn dreifðust um sveitirnar – og báru pestina með sér. Á næstu 200 árum geisuðu farsóttir minnst 18 sinnum í m.a. Frakklandi. 

 

„Svo margir drápust á öllu þessu svæði að ekki var mögulegt að kasta tölu á þá alla. Það var mikill skortur á kistum og grafsteinum og oft voru tíu eða fleiri lík lögð í grafirnar“, skráði biskupinn Gregor hjá sér árið 571. 

 

Árið 602 braust borgarastyrjöld út í Býsanska ríkinu og múslimskar hersveitir nýttu tækifærið til að ráðast inn í Mið-Austurlönd.

 

Gömlu rómversku héruðin Sýrland og Egyptaland runnu nú keisaradæminu úr greipum. 

 

Þegar farsóttin hvarf síðan af ókunnugum ástæðum í kringum árið 750, höfðu – að mati núverandi sérfræðinga – allt að 25 milljón manns látið lífið. 

 

Stjórn ríkisins yfir stórum hlutum Evrópu var nú að engu orðin og þessi heimshluti hvarf niður í myrkar miðaldir.

 

Smáríki tóku nú að einkenna meginlandið. Jafnvel minningin um Justiníönsku pestina bliknaði – þannig að Evrópa varð algjörlega óundirbúin árið 1347 þegar Svarti dauði barst til hennar. 

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: Natasja Broström

© Archivo Digital Centro CIL II, Universidad de Alcalá,© North Wind Picture Archives/Imageselect,© Shutterstock,© State Collection of Anthropology and Palaeoanatomy Munich,

Jörðin

Vísindamenn greina vaxtarverki: Fæðuhringur eldfjallsins

Maðurinn

Ást er eintóm efnafræði

Maðurinn

Ást er eintóm efnafræði

Náttúran

Hjarta steypireyðar slær bara tvisvar á mínútu

Náttúran

Hjarta steypireyðar slær bara tvisvar á mínútu

Maðurinn

Hvaða blóðflokkur er sjaldgæfastur?

Lifandi Saga

Gestapo: Leynilögregla Hitlers olli skelfingu í Evrópu

Lifandi Saga

Getur Rússland orðið uppiskroppa með hermenn? 

NÝJASTA NÝTT

Lifandi Saga

Robert the Bruce var hinn sanni Braveheart Skotanna

Maðurinn

Samfélagsmiðlar ógna samkenndinni

Heilsa

Breytingarnar á líkamsþyngd geta leitt í ljós hættu á heilabilun

Náttúran

8 uppfinningar sem þú getur þakkað Einstein fyrir

Náttúran

Að klóna risaeðlur: Er hægt að vekja risaeðlur til lífsins?

Maðurinn

Sársauki – Hvað er sársauki?

Alheimurinn

Hvað er andefni?

Maðurinn

Þess vegna tekur ástarsorg svona mikið á okkur

Maðurinn

Heilann þyrstir í fitu

Maðurinn

Er það skaðlegt að plokka nefhárin?

Lifandi Saga

Robert the Bruce var hinn sanni Braveheart Skotanna

Maðurinn

Samfélagsmiðlar ógna samkenndinni

Heilsa

Breytingarnar á líkamsþyngd geta leitt í ljós hættu á heilabilun

Náttúran

8 uppfinningar sem þú getur þakkað Einstein fyrir

Náttúran

Að klóna risaeðlur: Er hægt að vekja risaeðlur til lífsins?

Maðurinn

Sársauki – Hvað er sársauki?

Alheimurinn

Hvað er andefni?

Maðurinn

Þess vegna tekur ástarsorg svona mikið á okkur

Maðurinn

Heilann þyrstir í fitu

Maðurinn

Er það skaðlegt að plokka nefhárin?

Fáðu aðgang að vÍSINDI.IS

Ókeypis í 2 vikur!

 

Eftir það kostar eingöngu 1.390 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

 

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Náttúran

Þrisvar til tunglsins og til baka aftur

Náttúran

Þrisvar til tunglsins og til baka aftur

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

Jörðin

Hversu mikið menga leikföng?

Maðurinn

Af hverju þessi ást á áfengi?

Heilsa

Er hægt að sofa of mikið?

Lifandi Saga

Hver fann upp á „kalda stríðinu“?

Vinsælast

1

Maðurinn

Einvígið: Er rafmagnstannbursti betri en venjulegur?

2

Alheimurinn

Fullt tungl 2024 – Hvenær er tunglið fullt?

3

Heilsa

Breytingarnar á líkamsþyngd geta leitt í ljós hættu á heilabilun

4

Maðurinn

Þess vegna tekur ástarsorg svona mikið á okkur

5

Maðurinn

Heilann þyrstir í fitu

6

Maðurinn

Hvaða blóðflokkur er sjaldgæfastur?

1

Maðurinn

Einvígið: Er rafmagnstannbursti betri en venjulegur?

2

Heilsa

Breytingarnar á líkamsþyngd geta leitt í ljós hættu á heilabilun

3

Maðurinn

Þess vegna tekur ástarsorg svona mikið á okkur

4

Maðurinn

Heilann þyrstir í fitu

5

Maðurinn

Hvaða blóðflokkur er sjaldgæfastur?

6

Jörðin

Vísindamenn greina vaxtarverki: Fæðuhringur eldfjallsins

Maðurinn

Hvernig grær brotið bein?

Maðurinn

Öfgar persónuleikans: Úthverfur eða innrænn persónuleiki

Alheimurinn

Hvað verður um orkuna frá sólarljósinu? 

Lifandi Saga

Hvað gerðu blikksmiðir fyrr á tímum? 

Tækni

Dulkóðaður gjaldmiðill: 7 atriði sem þú ættir að vita um rafmynt 

Menning

Af hverju fengu inúítar ekki skyrbjúg?

Lifandi Saga

Fjórir kvillar sem bóluefni hafa knésett

Menning og saga

Frumstæð manntegund jarðsetti hina látnu

Maðurinn

Vísindamenn endurnýja hárvöxt á músum

Lifandi Saga

Nanjing harmleikurinn verri en hin versta martröð

Maðurinn

3 ókostir við greind

Jörðin

Ný NASA-flugvél á að minnka losun í flugi

Robert the Bruce var hinn sanni Braveheart Skotanna

Í Hollywood-myndinni Braveheart svíkur Robert the Bruce málstað Skota og færir Englendingum William Wallace á silfurfati til grimmilegrar aftöku. Í veruleikanum var þessi skúrkur þó hetja Skota. Þótt frelsisbarátta Skota kostaði bræður hans lífið og systur hans enduðu bak við lás og slá, gafst hinn raunverulegi Braveheart aldrei upp.

Lifandi Saga

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.690 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.