Maðurinn

Líkamsklukkan getur dregið þig til dauða

Hún eykur hættuna á hjartastoppi á morgnana, heftir virkni lyfja og gerir kvöldsnarlið lífshættulegt. Sláttur líkamsklukkunnar getur dregið okkur til dauða.

BIRT: 07/01/2024

Við stígum út úr vélinni um hábjartan dag eftir tólf klukkustunda flug. Við erum vön að vera full af orku á þessum tíma en núna líður okkur eins og uppvakningum. Ef við hefðum ekki farið í flug værum við steinsofandi í myrkrinu heima í rúmi á þessari stundu.

 

Svefnleysið hrjáir okkur næstu daga á eftir, svo og slæleg matarlyst og skapsveiflur, því ferðin yfir nokkur tímabelti hefur ruglað líkamsklukkuna.

 

Klukkuna er að finna lengst inni í heilanum. Klukkan lagar líkama þinn að takti sem samræmist 24 stundum sólarhringsins og stjórnar öllu frá matarlyst og meltingu yfir í blóðþrýsting og vöðvastyrk.

 

Tímaskynjun líkamans skiptir sköpum fyrir velferð okkar. Ef við svo dettum úr takti við líkamsklukkuna getur það orsakað hjartastopp eða skemmt krabbameinslyfjameðferð.

 

Tíminn leið hægt í æsku

Tími er undarlegt fyrirbæri. Þó svo að sólarhringurinn feli ætíð í sér 24 stundir finnst okkur sumir dagar vara að eilífu á meðan aðrir líða á svipstundu.

 

Sálfræðingar við háskólann í Alabama gerðu nokkrar tilraunir á árinu 2012 í því skyni að öðlast betri skilning á óútreiknanlegri skynjun okkar á tíma og komust að raun um að löngunin til að öðlast  eitthvað skipti þar meginmáli.

Sem börn verðum við fyrir fleiri nýjum hughrifum, sem gerir það að verkum að tíminn líður hægar en seinna á ævinni, þegar nýju hughrifin verða færri.

Þátttakendum tilraunarinnar voru sýndar þrenns konar myndir: ein hlutlaus með rúmfræðilegum myndum, þá eilítið örvandi mynd af blómum, svo og einkar upplífgandi mynd af girnilegum eftirrétti.

 

Þó svo að myndirnar væru allar sýndar í jafnmargar sekúndur fannst flestum myndir af girnilega matnum staldra styst við.

 

Þá leiddi tilraunin einnig í ljós að þeir þátttakendur sem höfðu neytt matar skömmu fyrir tilraunina og höfðu fyrir vikið minni áhuga á eftirréttinum fannst sú mynd vera sýnd lengur en hinar tvær. Skynjun þeirra var með öðrum orðum allt önnur en svöngu þátttakendanna, sem fannst sama mynd vera horfin á svipstundu.

 

Löngun okkar í eitthvað tiltekið, í þessu tilviki girnilegan eftirrétt, hefur sem sé áhrif á tímaskynjun okkar. Annað dæmi um það hvernig tímaskynjunin breytist er sú upplifun okkar að tíminn líði sífellt hraðar með aldrinum.

 

Eitt ár er heila eilífð að líða í augum tíu ára gamals barns en ári seinna kann tíminn að fljúga áfram.

 

Munurinn er ekki hvað síst fólginn í því að við höfum reynt og séð meira eftir því sem aldurinn færist yfir okkur. Þegar við erum tíu ára gömul nemur eitt ár tíu hundraðshlutum af ævi okkar á meðan eitt ár í lífi 50 ára manns nemur aðeins tveimur prósentum af æviskeiðinu.

 

Þá má einnig geta þess að við verðum stöðugt fyrir nýjum áhrifum sem börn, sem gerir það að verkum að okkur finnst tíminn líða hægar en seinna á ævinni, þegar nýju áhrifunum fækkar.

Þegar við erum börn er allt svo áhugavert og fyrir vikið virðist tíminn líða hægt.

Skynfæri okkar kunna jafnframt að hafa áhrif á líkamsklukkuna. Rannsókn ein leiddi t.d. í ljós að okkur finnst tíminn líða hraðar þegar við hlustum á góða tónlist. Tilraunaþátttakendurnir komust að þeirri niðurstöðu að þó svo að lagalengdin væri sú sama fannst þeim þægileg tónlist staldra við skemur en tónlist sem óþægilegt var að hlýða á.

 

Skynjun okkar á tíma er með öðrum orðum óútreiknanleg því hún ræðst af því hvað við erum að upplifa og gera og ekki því hversu langur tími í raun er liðinn. Líkamar okkar geta á hinn bóginn alveg fylgst með því hvað tímanum líður.

 

Þú ert með klukku í heilanum

Til að fá það besta út úr tímanum er líkaminn gerður með það fyrir augum að fylgja tilteknum takti sem samsvarar 24 stundum sólarhringsins.

 

Klukkan samanstendur af frumuklasa í krossbrúarkjarna í undirstúku heilans. Svæðinu berast upplýsingar frá augunum, sem nema ljósstyrk umhverfisins. Sjónhimna augans felur í sér sérhæfðar taugafrumur sem gefa krossbrúarklasanum til kynna hvort bjart sé eða dimmt.

 

Boð berast frá krossbrúarkjarnanum til heilaköngulsins í miðjum heilanum, þar sem svefnhormónið melatónín myndast.

 

Hormón þetta er eins konar útsendari klukkunnar og upplýsir líkamann um það hvenær sé mál að hátta og hvenær tími til að vakna. Því meira birtumagn sem augun skynja, þeim mun minna melatónín er framleitt.

 

(Greinin heldur áfram eftir myndirnar)

Dægursveiflurnar eru upprunnar í heilanum

Líkamsklukku í heilanum berast stöðugt upplýsingar um tímann í umheiminum og hún stillir aðra líkamsstarfsemi í samræmi við það.

1. Augun upplýsa heilann um tímann

Taugafrumur í sjónhimnu augans skrá birtustigið og senda upplýsingar um tíma dags beint inn í þann hluta undirstúkunnar sem nefnist krossbrúarkjarni, en hann hefur að geyma u.þ.b. 20.000 heilafrumur.

2. Klukkan segir líkamanum hvað tímanum líður

Krossbrúarkjarninn gegnir hlutverki miðlægrar klukku líkamans, sem sér til þess að líkaminn fylgi dægursveiflunum. Skynji augun t.d. að nú taki að dimma, sendir krossbrúarkjarninn skilaboð um að framleiða melatónín sem gerir okkur syfjuð.

3. Líffærin fylgjast sjálf með tímanum

Vefir og líffæri hafa yfir að ráða sínum eigin staðbundnu líkamsklukkum sem hafa áhrif á líkamssveiflurnar. Þegar við innbyrðum fæðu virkjast meltingarfærin og staðbundin klukka í þeim sendir boð til miðlægu líkamsklukkunnar um að samhæfa aðra hluta líkamans.

Dægursveiflurnar eru upprunnar í heilanum

Líkamsklukku í heilanum berast stöðugt upplýsingar um tímann í umheiminum og hún stillir aðra líkamsstarfsemi í samræmi við það.

1. Augun upplýsa heilann um tímann

Taugafrumur í sjónhimnu augans skrá birtustigið og senda upplýsingar um tíma dags beint inn í þann hluta undirstúkunnar sem nefnist krossbrúarkjarni, en hann hefur að geyma u.þ.b. 20.000 heilafrumur.

2. Klukkan segir líkamanum hvað tímanum líður

Krossbrúarkjarninn gegnir hlutverki miðlægrar klukku líkamans, sem sér til þess að líkaminn fylgi dægursveiflunum. Skynji augun t.d. að nú taki að dimma, sendir krossbrúarkjarninn skilaboð um að framleiða melatónín sem gerir okkur syfjuð.

3. Líffærin fylgjast sjálf með tímanum

Vefir og líffæri hafa yfir að ráða sínum eigin staðbundnu líkamsklukkum sem hafa áhrif á líkamssveiflurnar. Þegar við innbyrðum fæðu virkjast meltingarfærin og staðbundin klukka í þeim sendir boð til miðlægu líkamsklukkunnar um að samhæfa aðra hluta líkamans.

Öll líkamsstarfsemi tengist, allt frá þarmakerfinu yfir í hjartsláttinn, og til þess að allur líkaminn starfi á sem ákjósanlegastan máta verður líkaminn allur að vera stilltur á sama tíma, ekki óþekkt því sem við á um hermenn sem samhæfa úrin sín áður en þeir leggja upp í herferð.

 

Rétt tímasetning kann að skilja á milli lífs og dauða og fyrir vikið er líkamsstarfsemin stillt eftir sérstakri dægursveiflu sem byrjar upp á nýtt í hvert sinn sem sólarhring lýkur og nýr tekur við.

 

Sveiflurnar gera vart við sig sem breytingar á orku, matarlyst og líkamshita yfir daginn, auk þess sem t.d. blóðþrýstingur lækkar eftir að dimma tekur, til þess að líkaminn sé undir bestu ákjósanlegu hvíldina búinn.

 

Rugl í klukkunni getur verið lífshættulegt

Þessi líkamsklukka er okkur afar mikilvæg og fyrir vikið getur það haft alvarlegar afleiðingar ef takturinn fer úrskeiðis.

 

Ýmsar rannsóknir hafa leitt í ljós tengsl á milli næturvinnu og aukinnar hættu á hjarta- og æðasjúkdómum, krabbameini og efnaskiptavanda.

 

Helsta orsök skaðlegu áhrifinna er sú að næturvinna hamlar framleiðslu melatóníns, sökum þess að líkaminn er ekki í algeru myrkri yfir nóttina.

Allt hefur sinn tíma

Líkaminn innir af hendi ýmis verkefni allan sólarhringinn og hæfa sum þeirra betur tilteknum tíma dags en önnur. Fyrir vikið gætir líkamsklukkan þess að líkaminn fylgi dægursveiflunum, sem tryggir að afköst og áhrif hvers verkefnis verði hvað ákjósanlegust.

Morgunn (6-12): Blóðþrýstingur og þarmar hrinda deginum af stað

Dagsbirtan stöðvar framleiðslu svefnhormónsins melatóníns. Blóðþrýstingur og líkamshiti hækka, jafnframt því sem framleiðsla streituhormónsins kortísóls eykst. Þarmakerfið virkjast og margir segjast hafa hægðir á morgnana.

Síðdegi (12-18): Líkamleg geta nær hámarki

Líkamsgetan er í hámarki síðdegis, jafnframt því sem viðbragðshraði og viðbragðsgeta eru upp á sitt besta. Þetta er einnig sá tími sólarhringsins þegar vöðvastyrkur er með besta móti og hjarta- og æðakerfið starfar hvað best.

Kvöld (18-00): Framleiðsla svefnhormónsins eykst

Um klukkan níu hefst framleiðsla svefnhormónsins melatóníns smám saman. Síðla kvölds hægir enn fremur á þarmastarfseminni til þess að við þurfum ekki að fara á salernið um miðja nótt.

Nótt (00-06): Líkamshitinn lækkar og það hægist á öllu

Melatónínframleiðslan nær hámarki milli kl. 3 og 4 um nóttina. Um svipað leyti er líkamshitinn hvað lægstur. Blóðþrýstingurinn og kortísólmagnið er í lágmarki en blóðsykurinn helst hins vegar stöðugur.

Skemmtanalíf um helgar getur jafnframt truflað dægursveiflurnar. Helgardjammið gerir ekki bara mánudagana að erfiðustu dögum vikunnar heldur mögulega einnig að þeim hættulegustu.

 

Tölfræðilega séð er fólki miklu hættara við að fá hjartaáfall á mánudagsmorgni en á nokkrum öðrum tíma vikunnar.

 

Þessi mánudagsvá stafar af því að líkaminn eykur framleiðslu sína á próteininu PAI-1 á hverjum morgni, sem gegnir því hlutverki að gera blóðið seigfljótandi. Hormónamagnið er mest að morgni og fer síðan minnkandi eftir því sem líður á daginn.

 

Þykkara blóð að degi til er mikilvægt út frá þróunarfræðilegu sjónarmiði. Á þeim tíma sólarhringsins var forfeðrum okkar nefnilega hættara við meiðslum og blæðingum, t.d. í tengslum við veiðar eða líkamlega erfiðisvinnu.

Sé djammað langt fram eftir nóttu og sofið allan sunnudaginn ruglast líkamsklukkan í ríminu og hætta eykst á að láta lífið af völdum hjartaáfalls á mánudagsmorgni.

Ókosturinn er þó sá að þykkara blóð eykur hættuna á hjartaáfalli á morgnana, einkum ef líkamsklukkan er slæpt af völdum nætugölts, ef skemmtanahaldið hefur staðið yfir alla nóttina og við sofið á daginn um helgina.

 

Breytingin gerir það að verkum að innri dægursveiflan er eftir á, miðað við birtu-/myrkurlotu sólarhringsins. Þegar svo klukkan hringir á mánudagsmorgni verður líkaminn að drífa sig á rétta braut.

 

Þessi tímabundna rangaðlögun kann að leiða af sér hækkaðan blóðþrýsting og útbreiddan þrota í líkamanum, sem orsakast af bólgum, sem svo auka hættuna á hjartaáfalli.

 

Líkaminn krefst fæðu snemma

Morgunninn er að öllu jöfnu einkar mikilvægur tími sólarhrings, einnig hvað inntöku fæðunnar snertir.

 

Margt virðist nefnilega benda til þess að það sem við borðum hafi ekki einvörðungu áhrif á heilsuna, heldur einnig hvenær við innbyrðum fæðuna, en þess má geta að þeim sem sleppa því að snæða morgunmat er hættara við að fitna og þróa með sér sykursýki en ella.

 

Vísindamenn við lýðheilsudeildina í Harvard rannsökuðu matarvenjur hartnær 30.000 manns yfir 16 ára tímabil. Niðurstaðan var sú að þeir sem sleppa því að borða morgunmat voru í 20% meiri hættu á að veikjast af sykursýki en þeir karlar sem neyttu morgunverðar.

 

Vísindamenn greindu jafnframt samhengi á milli tímasetningar máltíða annars vegar og þyngdartaps hins vegar. Í tilraun einni sem stóð yfir í 12 vikur grenntust þeir þátttakendur sem neyttu margra hitaeininga að morgni meira en þeir sem aðallega innbyrtu hitaeiningarnar að kvöldi, jafnvel þótt meðalneysla hitaeininga yfir daginn hafi verið sú sama.

Síðbúnar máltíðir og kvöldsnarl geta komið þér í forsykursýkisástand.

Máltíðir seint að deginum komu illa út fyrir þátttakendur. Geta líkamans til að stilla blóðsykurinn minnkaði til muna eftir klukkan 20 á kvöldin og seinar máltíðir, svo og snarl að kvöldi, geta orsakað tímabundin forsykursýkiseinkenni, þar sem blóðsykurinn er of hár yfir nóttina og hefur truflandi áhrif á nætursvefninn.

 

Krabbamein skyldi meðhöndla um miðnætti

Líkt og öll önnur líkamsstarfsemi, sveiflast virkni efnaskiptanna einnig yfir sólarhringinn og þetta hefur veruleg áhrif á virkni lyfja.

 

Í tilraun einni sem gerð var með sjúklinga með þarmakrabbamein brást rösklega helmingurinn betur við krabbameinslyfjameðferð en ella ef lyfjagjöfin fór fram um miðnætti. Á þeim tíma sólarhringsins eykst framleiðsla líkamans á ensíminu díhýdrópýrímídín dehýdrógenasa, sem brýtur niður krabbameinslyfið Flúoróúracíl.

 

Rannsóknir gefa enn fremur til kynna að geislameðferð gegn krabbameini gagnist betur að morgni dags en síðdegis, auk þess sem hættan á alvarlegum skaða eftir hjartaaðgerðir er helmingi minni ef aðgerðirnar eru gerðar síðdegis í stað þess að gera þær að morgninum.

Þannig skal stilla líkamsklukkuna.

Sleppið kvöldkaffinu og slökkvið á farsímanum fyrir háttatíma. Hér eru 10 vísindalega sönnuð hollráð um hvernig stilla skuli líkamsklukkuna.

 

1. Farðu á fætur u.þ.b. sama tíma alla daga – stilltu vekjaraklukkuna ef þörf krefur.

2. Borðaðu nokkurn veginn á sama tíma á hverjum degi.

Forðastu að leggja þig, sérstaklega seint á daginn.

4. Forðastu koffín eftir kl. 16 síðdegis.

5. Ekki borða eftir kl. 20 um kvöldið.

6. Myrkvaðu svefnherbergið alveg þegar þú þarft að sofa.

7. Slökktu á skjáum, þar á meðal símanum, að minnsta kosti einni klukkustund áður en þú ferð að sofa.

8. Taktu svefnherbergið frá fyrir svefn og kynlíf.

9. Passaðu að fá dagsbirtu strax þegar þú ferð á fætur.

10. Æfðu reglulega.

 

Jafnvel bakteríur eru með klukku

Líkamar okkar eru ekki einir um að kunna á klukku, því einnig plöntur, dýr og sveppir hafa tímaskyn.

 

Plöntur nýta sér sem dæmi birtustig sólarinnar og sykurmagnið í frumunum til að ákvarða tíma og stjórna því hvenær skuli blómstra og losa frá sér ilmefni.

 

Nú hefur fjölþjóðlegt teymi vísindamanna komist að raun um að jafnvel bakteríur lengst niðri í jörðinni geta fylgst með framvindu tímans. Í rannsókn einni sem var birt i janúar í ár komust þeir að raun um að jarðbakterían Bacillus subtilis lifir í samræmi við 24 stunda dægursveiflu.

 

Rannsóknin gaf til kynna að erfðavísar bakteríunnar séu afritaðir í lotum og þessi vitneskja kann nú að nýtast í meðhöndlun á sýkingum.

 

Loturnar kunna nefnilega að gera það að verkum að erfðavísar sem t.d. verja bakteríurnar gegn sýklalyfjum séu vanvirkari á sumum tímum sólarhringsins en öðrum og bakteríurnar sé þá varnarlausar á meðan svo er.

 

Vísindamennirnir hyggjast fyrir bragðið rannsaka hvort sýklalyf gegn sýkingum virki betur á tilteknum tímum dags en öðrum og beita þannig líkamsklukku bakteríanna gegn þeim sjálfum.

LESTU EINNIG

HÖFUNDUR: JONAS GROSEN MELDAL

Shutterstock,© Shutterstock & Lotte Fredslund

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

Eðlisfræðingar afnema hlutlægan raunveruleika 

Lifandi Saga

Af hverju vill Indland heita Bharat?

Lifandi Saga

Hve mikið af gulli fannst í gullæðinu?

Alheimurinn

Með þvergöngu Venusar var hægt að mæla sólkerfið

Lifandi Saga

Uppreisn Castros velti einræðisherranum úr sessi

Lifandi Saga

Ástæðan fyrir falli Tróju

Alheimurinn

Dálítill fróðleikur um eitt helsta afrek mannsandans 

Náttúran

Hér eru aðeins leyfð kvendýr og afkvæmi þeirra: Kvennasambýli hafsins

Náttúran

Hvernig myndast haglél?

Maðurinn

Hvað er stífkrampi?

Alheimurinn

Af hverju eru plánetur og sólir alltaf kúlulaga?

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is