Ramses 2. er í dag talinn hafa verið einn fremsti faraó Egyptalands og múmía hans er höfð til sýnis á þjóðminjasafni landsins í Kaíró.
Á árunum upp úr 1970 rannsakaði franski læknirinn Maurice Bucaille múmíu Ramsesar 2. á þjóðminjasafninu í Kaíró. Bucaille fýsti að komast að raun um hver hefði verið dánarorsök hins aldna faraós. Læknirinn fann leifar af salti í lungum faraósins og gat sér til um að hann hefði á sínum tíma drukknað.
Bucaille komst jafnframt að raun um að sveppir herjuðu á 3.200 ára gamla múmíuna. Hann fékk fyrir vikið leyfi fyrrum forseta Egyptalands, Anwars al-Sadat, til að senda múmíuna til Parísar þar sem teymi franskra vísindamanna gæti gert við hana.
Áður en að ferðalagi múmíunnar kom, gáfu egypsk yfirvöld út löggilt vegabréf fyrir Ramses 2. sem innihélt mynd af múmíunni og allar viðeigandi persónuupplýsingar. Í reitnum fyrir atvinnugrein stóð „konungur (látinn)“.
Heiðurssveit tók á móti faraónum
Gengið var frá öllum hagnýtum þáttum samkomulagsins í september árið 1976 og þá mátti Ramses fara úr landi. Ráðherra menntamála í Frakklandi, Alice Saunter-Seite, beið á Le Bourget flugvellinum í nágrenni Parísar, ásamt heiðursverði, þegar múmían lenti.
„Ramses 2. hlaut einstakar móttökur á Le Bourget flugvellinum“, mátti lesa í dagblaðinu The New York Times eftir komu vélarinnar.
„Ég hylli hér jarðneskar leifar eins voldugasta leiðtoga til forna“, sagði Alice Saunter-Seite í tilefni af komu faraósins aldna.
Ekið var með múmíuna á þjóðháttasafn Parísarborgar þar sem prófessor Pierre-Fernand Ceccaldi stóð fyrir rannsóknum á henni. Hann gat þess sérstaklega í skýrslu sinni að „hárið hefði verið einstaklega vel varðveitt“.
Þær gátu unnið eins og karlmenn, drukkið sig fullar þar til þær ældu og jafnvel orðið guðdómlegir drottnarar landsins. Egypskar konur voru öllum konum frjálslegri á fornöld.
Efnarannsókn á hárinu leiddi í ljós að Ramses 2. hefði verið ljós á hörund og með rauðleitt hár. Að aflokinni geislameðferð sem fól í sér nokkur skipti af gammageislum sem vinna bug á sveppum og gerlum, var Ramses loks útskrifaður úr meðferðinni árið 1977 og hann sendur aftur til Kaíró.
Tilgáta læknisins Maurice Bucailles um að Ramses 2. hefði drukknað er afar umdeild. Í dag telja flestir vísindamenn að faraóinn hafi einfaldlega dáið úr elli.