Rafhlaða sem notar kjarnorku sem orkugjafa. Þetta hljómar frekar óhugnanlega.
En slík tækni hefur reyndar verið notuð í áratugi, m.a. í geimferðum og kafbátum.
Og nú hefur sem sagt stór rafhlöðuframleiðandi kynnt til sögunnar nýja kjarnarafhlöðu sem að sögn á að geta haldið margvíslegum smátækjum gangandi í heil 50 ár án nýrrar hleðslu.
Eigi fyrirbærið eftir að ryðja sér til rúms fyrir alvöru gæti farið svo að hleðslutækin verði alveg óþörf í framtíðinni.
Mun öflugri en venjulegar rafhlöður
Kínverska fyrirtækið Betavolt hefur sett 63 nikkel-ísótóp í nýju BV100-kjarnarafhlöðuna sem er smærri en margir smápeningar eða 15 x 15 x 5 mm að stærð og skilar allt að 100 míkróvöttum við 3 volt.
Smæðin gerir mögulegt að koma fleiri rafhlöðum fyrir, t.d. í snjallsíma og það eykur afköstin.
Hvað er kjarnarafhlaða?
- Kjarnarafhlaða sækir orku frá geislavirkri uppsprettu og er frábrugðin hefðbundnum rafhlöðum hvað varðar kostnað, endingu, notkun og virkni.
- Hefðbundnar rafhlöður nota rafefnafræðileg viðbrögð sem aflgjafa.
- Í kjarnarafhlöðunni er sundrun geislavirkra ísótópa notuð til að framleiða raforku.
- Úran er vinsælt geislavirkt frumefni til aflgjafa en það hefur verið notað sem aðalorkugjafi kjarnorkuvera í yfir 60 ár.
- Þar sem rafmagnið stafar af stöðugri sundrun einda afhleðst rafhlaðan ekki hraðar vegna aukinnar notkunar.
- Kjarnorkurafhlöður eru nú þegar notaðar í tæki eins og geimför og gervihnetti – þær hjálpa jafnvel til við að knýja Marsjeppann Perseverance.
Almennt veldur geislun og úrgangur áhyggjum af notkun kjarnorku en forsvarsmenn Betavolt segja alls enga hættu stafa af nýju rafhlöðunni vegna þess hversu ofboðslega lítil geislunin er.
BV100 rafhlaðan er jafnvel umhverfisvæn, segir í fréttatilkynningu frá Betavolt.
Þegar rafhlaðan er við það að tæmast breytast geislavirku efnin í kopar sem er ógeislavirkur og ógnar umhverfinu ekki.
Hjá Betavolt er nú verið að prófa nýju rafhlöðuna þar sem áætlað er að rafhlaðan fari í fjöldaframleiðslu til nota í símum, smádrónum og öðrum litlum raftækjum.
Það er enn óvíst hvenær þessi nýjung kemur á markað og mögulegur endingartími hefur heldur ekki verið staðfestur.