Í strætó hefur þú lent við hliðina á manni sem þefjar. Ólyktin er óþægileg en hún afhjúpar þó margt fleira en bara skort á hreinlæti.
Á síðari árum hafa vísindamenn kortlagt út í hörgul hvernig líkamslyktin myndast við það að heill her af örverum hámar í sig svita, fitu og ýmis efni innan úr líkamanum og komist að þeirri niðurstöðu að lyktin skýri ástand okkar og persónubundin atriði af ótrúlegri nákvæmni.
Nú síðast hefur hópur bandarískra vísindamanna uppgötvað hvernig genin sjálf hafa áhrif á lyktarspor einstaklingsins. Líkamslyktin getur þannig afhjúpað allt frá kyni til landfræðilegs uppruna – sem sagt hver við erum.
Mikilvægast er þó að fundist hafa mikilvæg frávik í líkamslykt, frávik sem gætu bjargað mannslífum.
Billjón afbrigði
Lykt er skynjun rokgjarnra sameinda sem t.d. gufa upp úr handarkrika og berast síðan með lofti inn í nefið. Þar eru um fimm milljónir lyktarviðtaka í um 400 mismunandi útgáfum í slímhúð nefsins.
Hver lyktarsameind hefur sína sérstöku lögun sem passar að tiltekinni gerð lyktarfrumna líkt og lykill gengur að tiltekinni skrá.
Einstök lyktarsameind getur þó borið utan á sér meira en eina lögun og því haft aðgang að fleiri en einni gerð viðtaka. Það verður þá til þess að heilinn fær samtímis mismunandi boð. Það er þessi samsetning boða sem veldur mismunandi áhrifum tiltekinna lyktarsameinda.
Viðtakar á taugafrumum (gult) í nefholinu skynja lyktina. Frumurnar senda boð til heilans um lyktartaugina.
Lengi var talið að mannsheilinn væri fær um að greina milli kringum 10.000 lyktarafbrigða – sem sagt 10.000 mismunandi samsetninga – en bandarísk rannsókn sýnir að sviðið er miklu víðara og við erum í raun fær um að greina a.m.k. billjón lyktarafbrigði.
Lyktarskynið er þar með miklu víðtækara en sjónskynið sem gerir okkur kleift að sjá muninn á um fimm milljónum litarafbrigða og heyrnarskynið sem talið er að nái ekki að greina nema um 340.000 mismunandi tóna.
Bakteríusaurinn þefjar
Lyktarskynið gerir okkur afar næm á líkamslykt annarra. Líkamslykt berst einkum frá húðinni við svitakirtlana en það er þó ekki sjálfur svitinn sem veldur lykt.
Svitalyktin myndast ekki fyrr en bakteríur á húðinni hafa étið efni úr svitanum. Á húðinni geta verið mörg hundruð gerðir af bakteríum sem allar nærast á tilteknum efnum í svitanum – sumar éta t.d. fitusýrur en aðrar kjósa heldur prótín. Eftir að hafa melt efnin skila bakteríurnar af sér saur og svitalyktin sem við finnum stafar frá honum.
Upptökin eru á fjórum stöðum
Einkum er upptök líkamslyktar að finna á fjórum stöðum. Minnst af henni á þó upptök í líkamsfrumunum. Það eru þess í stað smásæjar örverur sem senda lyktina út frá líkamanum.
1. Lungnalykt út um munninn
Efnaskipti líkamans leiða til myndunar ýmissa efna sem sum berast til lungnanna og út með andardrættinum. Ásamt niðurbrotsefnum í munnholi geta þau valdið andfýlu.
2. Efni úr blóði í svitanum
Fjöldi efna frá efnaskiptum frumnanna getur líka borist úr blóði til frumna í svitakirtlum (fjólublátt) – einkum í fráseytukirtlum undir höndum og í klofi. Efnin berast út með svita (grænt) og setjast á húðina.
3. Húðbakteríur örva lyktina
Efni í svita gefa yfirleitt frá sér mjög daufa lykt en þegar örverur á húðinni brjóta þau niður losa þær úrgangsefni (gult) sem mynda hina vel þekktu og stundum óþægilegu svitalykt.
4. Þarmarnir valda lykt af saur
Lyktin af þvagi, saur og prumpi stafar líka af úrgangsefnum frá bakteríum eða líkamanum. Lykt af þvagi stafar af efnum sem nýrun sía úr blóðinu en lykt af saur og prumpi orsakast af þarmabakteríum.
Meðal úrgangsefna frá bakteríum má nefna própíonsýru með súra og edikkennda lykt, dimetsúlfíð sem minnir á rotnandi grænmeti og ef þú berð óhreinan sokk upp að nefinu geturðu þakkað ísóvaleríansýru fyrir táfýluna.
Líkamslykt hvers og eins ræðst að stórum hluta af því hvaða bakteríur hafa bólfestu á húðinni og þar eð bakteríuflóran er mjög einstaklingsbundin, er líkamslyktin það líka.
Líkamslykt hvers og eins er reyndar ótrúlega stöðug. Belgíski örverufræðingurinn Nico Boon sýndi fram á það 2014 að þrátt fyrir tíð böð og svitalyktareyði rísa sömu bakteríurnar upp aftur og aftur. Það er sem sagt afar örðugt að breyta líkamslykt sinni.
Kynið hefur áhrif
Þessi einstaklingsbundna lykt leiðir af sér að hana má nota sem eins konar fingrafar. Þessa staðreynd nýta menn sér t.d. þegar sporhundar eru notaðir við leit. Tilraunir sýna að hundar sem hafa um þúsundfalt skarpara lyktarskyn en menn, geta þekkt tiltekinn einstakling á lyktinni með um 90% öryggi.
Lyktin er þó meira en bara eins konar fingrafar. Hún getur afhjúpað mikinn fjölda lífefnafræðilegra smáatriða. T.d. sýndu bandarískir vísindamenn fram á það 2023 að lyktin er mismunandi eftir kyni.
Vísindamennirnir notuðu gervigreind til að finna sérstök mynstur lyktarefna sem reyndust vera mismunandi eftir kyni. Í framhaldinu þróuðu þeir sérstakt próf sem dugði til að skilgreina kyn einstaklings með 97% öryggi.
Mismunurinn á milli kynja byggist m.a. á því að karlmenn svitna yfirleitt meira og í svita þeirra er að finna meira af fituefnum.
Nú geta læknar dregið úr svitaframleiðslunni með örbylgjum og losað fólk við vonda lykt með því að flytja svita annarra einstaklinga yfir á það.
Áður höfðu sömu vísindamenn fundið 15 mismunandi lyktarefni sem gátu afhjúpa landfræðilegan uppruna fólks.
Samhengið milli líkamslyktar og uppruna stafar af því að genin hafa áhrif á líkamslyktina. Sérstakar stökkbreytingar á geninu ABCG11 eru einkum algengar í Austur-Asíu og valda því að viss lífefni berast ekki út um svitakirtlana. Þær húðbakteríur sem lifa á þessum efnum drepast úr sulti og ná því ekki að framleiða sína einkennandi lykt.
Lykt afhjúpar breytingar
Þótt líkamslykt okkar sé staðföst tekur hún vissum breytingum á æviskeiðinu. Það stafar m.a. af hormónabreytingum sem hafa áhrif á samsetningu lífefna í svitanum. Slíkar hormónabreytingar geta t.d. valdið því að unglingar gefi frá sér sterka lykt.
Hugarástand getur líka breytt líkamslyktinni. Þegar þú svitnar af völdum streitu eða ótta, verður lyktin oft öflug og óþægileg. Ástæðan er sú að hugarástandið hefur árhrif á fráseytikirtlana í handarkrikum og klofi en sviti úr þessum kirtlum er afar næringarríkur og bakteríur á húðinni umbreyta honum í margvísleg lyktarefni.
Hlaupbitar koma þér til að prumpa, mjólk veldur andremmu og dökkt súkkulaði veldur sætkenndri lykt. Hér færðu margvíslegar skýringar á ýmis konar þef sem þú gefur frá þér.
Mikilvægustu breytingarnar á líkamslykt eru þó trúlega breytingar sem enn hafa ekki verið mikið rannsakaðar í smáatriðum.
Þetta eru litlar breytingar en þær gætu bjargað mannslífum. Smávægilegar breytingar á líkamslykt geta nefnilega afhjúpað lífshættulega sjúkdóma eða breytingar á þeim áður en unnt er að greina sjúkdómana með hefðbundnum aðferðum.
Ástæðan er sú að sjúkdómarnir skilja eftir sig efni í blóði og við losum þau út með andardrætti eða svita.
Þetta gildir t.d. um sykursýki en hundar virðast geta skynjað breytingar á útöndunarlofti fólks þegar blóðsykurmagnið byrjar að falla en blóðsykurfall getur haft alvarlegar afleiðingar. Hundarnir eru þjálfaðir til að vara eigendur sína við lækkuðum blóðsykri til að viðkomandi geti þá strax innbyrt sykur.
Eigendurnir eru almennt mjög ánægðir með þessa hæfni hunda sinna. Rannsóknir hafa þó sýnt að fyrir kemur að hundarnir vari við á röngum forsendum.
Hundar þefa uppi sjúkdóma
Öflugt lyktarskyn hunda gerir þeim kleift að finna í svita eða andardrætti fólks, efni sem geta verið til marks um sjúkdóm. Rannsóknir á þessu sviði eru þó enn skammt komnar.
Krabbafrumur skapa öðruvísi lykt
Efnaskipti krabbafrumna eru öðruvísi en annarra frumna og þær mynda efni sem m.a. losna úr líkamanum í svita. Smjörsýra getur t.d. verið til marks um lungnakrabba en bensaldehýð bendir til brjóstakrabba.
Staða aðferðar: Í rannsóknum en ennþá of ótraust.
Lykt varar við flogaveikikasti
Sumir hundar geta uppgötvað flogakast áður en að því kemur en óvíst er af hverju það stafar. Vísindamenn álíta þó að breytingar á hormónum eða boðefnum valdi lykt sem hundarnir finna.
Staða aðferðar: Þarfnast frekari rannsókna.
Acetónlykt af lágum blóðsykri
Þegar sykursjúkir verða fyrir blóðsykurfalli breyta frumurnar efnaskiptum sínum og brenna fitu og prótínum í stað sykurs. Við þetta myndast m.a. ísópren og og acetón sem berst út með andardrætti.
Staða aðferðar: Í notkun en fullkomnun ekki náð.
Víða um heim vinna vísindamenn nú að því að þjálfa hunda til að finna krabbamein, Covid-19 og malaríu. Takist það fá læknar þar með aðgang að hraðvirkri og öruggri aðferð til að uppgötva sjúkdóma snemma.
Hundar eru þó ekki einir um að geta þefað uppi sjúkdóma. Mannfólkið hefur líka merkilega góða hæfni til að finna lykt af breytingum á heilbrigði líkamans.
Moskuslykt af parkinson
Sænskir vísindamenn hjá Karólínsku stofnuninni í Stokkhólmi gerðu tilraun með að sprauta litlum eiturefnaskömmtum í heilbrigt fólk. Efnin fengu ónæmiskerfið til að taka rækilega við sér.
Eftir þetta var annað fólk látið lykta af bolum sem þátttakendur höfðu notað og lyktin af þeim reyndist marktækt sterkari og óþægilegri en lykt af bolum samanburðarhóps.
Enn merkilegri þótti þó uppgötvun breskrar konu, Joy Milner. Tíu árum áður en eiginmaður hennar greindist með parkinson, tók hún eftir breytingu á líkamslykt hans og þóttist finna af honum moskusilm.
Þegar þau hjónin fóru löngu síðar að taka þátt í stuðningshópi parkinsonsjúklinga, uppgötvaði hún að margir sjúklinganna gáfu frá sér samskonar lykt.
Hún sagði frá þessu og ræddi við lækninn Tilo Kunath hjá Edinborgarháskóla. Hann setti upp litla tilraun og niðurstöðurnar voru óvæntar. Joy Milner þefaði af 12 bolum. Sex voru af parkinsonsjúklingum en hinir sex af heilbrigðu fólki. Hún náði að segja rétt til um boli allra sjúklinganna.
Hin breska Joy Milner tók eftir öðruvísi lykt af parkinsonsjúklingum en heilbrigðum. Vísindamenn sannreyndu síðar að hún hafði rétt fyrir sér.
En þetta skarpa þefnæmi konunnar olli því að hún bætti við einum bol af heilbrigðum einstaklingi. Þremur mánuðum síðar varð ljóst að sá einstaklingur var líka með parkinsonsjúkdóminn. Með annarri tilraun sem gerð var í kjölfarið reynist unnt að slá því föstu að í svita parkinsonsjúklinga séu önnur efni en í svita heilbrigðra einstaklinga.
Næst þegar þú stendur frammi fyrir einhverjum sem stafar frá sér svitagufum ættirðu kannski að taka vel eftir lyktinni. Lyktarfrumurnar í nefinu á þér kynnu að geta bjargað mannslífi.