Skrifað af Erfðarannsóknir og vísindi Maðurinn Sjúkdómar og læknisfræði Tækni

Allra fyrsta glasabarnið

Louise Joy Brown kom í heiminn eftir keisaraskurð þann 25. júlí 1978. Barnið reyndist ofurvenjulegt meybarn – en þó kannski ekki alls kostar venjuleg. Þetta var sem sé allra fyrsta glasabarn sögunnar, getið með gervifrjóvgun undir smásjá. Að þessu einu fráteknu var allt samkvæmt venju og hinir hamingjusömu foreldrar, Lesley og John, kölluðu þetta draumabarn sitt „kraftaverk“.

Nú til dags er þessi aðferð, sem felst í því að setja egg úr móðurinni og sáðfrumur úr föðurnum í petriskál, orðin algeng víðast hvar í heiminum. En árið 1978 markaði tilkoma þessa 2.600 gramma stúlkubarns tímamót. Vísindin höfðu í fyrsta sinn náð valdi á fjölgun manna. Atburðurinn vakti vonir um að fólk þyrfti ekki í framtíðinni að vera barnlaust þrátt fyrir ótvíræðan vilja til að eignast börn.

Tilraunirnar fengu sinn sess á forsíðum blaða og gagnrýnendur voru margir harðskeyttir. Þeir skiptust einkum í þrjá hópa; þá sem töldu aðferðina stríða gegn náttúrunni, þá sem höfðu áhyggjur af heilbrigði móðurinnar vegna hormónagjafar til að losa egg, og loks þá sem bentu á þann siðferðisvanda sem skapaðist vegna umframfósturvísanna, en með tilurð þeirra er verið að kveikja möguleika til lífs, sem síðan er eytt. Þessi síðasta röksemd leiddi til þess að páfinn fordæmdi glasafrjóvgun.

Það var reyndar á árunum upp úr 1970 sem rökræður voru hvað harkalegastar. Robert Edwards, prófessor við Cambridge-háskóla og Patrick Steptoe, kvensjúkdómalæknir hjá Oldham-sjúkrahúsinu, sættu mjög óvæginni gagnrýni. Í upphafi misheppnuðust tilraunir læknanna tveggja hvað eftir annað, en árið 1976 komust þeir í kynni við John og Lesley Brown sem í 9 ár höfðu árangurslaust reynt að eignast barn. Eggjaleiðarar konunnar voru stíflaðir en aftur á móti reyndist mögulegt að ná úr henni eggjum með aðferð Steptoes. Brown-hjónin féllust á að reyna þessa tilraunameðferð og afraksturinn varð dóttirin Loiuse.

Meira en 300 manns frá fjölmiðlum um allan heim sátu beinlínis um sjúkrahúsið í marga daga fyrir fæðinguna. Fjöldi manns var einnig inni á fæðingardeildinni sjálfri, þeirra á meðal fulltrúar stjórnvalda. Allt gekk samkvæmt áætlun og skömmu fyrir miðnætti biðu allir spenntir eftir að heyra hljóð. Og hljóðupptökur af kröftugum barnsgrátnum bárust um allan heim. Louise var strax rannsökuð hátt og lágt, en allt reyndist fullkomlega eðlilegt. Sérfræðingarnir drógu andann léttar, enda hefði jafnvel minnsti fæðingargalli verið olía á eld gagnrýnendanna.
Louise Brown var fullhraust og heilsugóð og er enn. Nú hefur hún sjálf eignast son – með hinni hefðbundnu aðferð.

Subtitle:
Old ID:
989
806
(Visited 44 times, 1 visits today)
Síðast breytt: september 17, 2019

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.