Börn lengja lífið um mörg ár

Eigir þú að minnsta kosti eitt barn eru allar líkur á að þú lifir nokkrum árum lengur en barnlausir vinir þínir. Þetta kom í ljós í viðamikilli rannsókn sem gerð var í Svíþjóð.

Maðurinn

Lestími 1 mínúta

 

Langar nætur sem einkennast af bleiuskiptum, barnsgráti og stopulum svefni virðast í fljótu bragði ekki vera uppskriftin að löngu og heilbrigðu lífi.

 

En sú er engu að síður raunin.

 

Þetta kom í ljós í viðamikilli rannsókn sem gerð var við Karolinska sjúkrahúsið í Svíþjóð, þar sem vísindamenn komust að raun um að fólk sem ætti minnst eitt barn lifði einu til tíu árum lengur en barnlaust fólk.

 

Lifa tveimur árum lengur

 

Vísindamennirnir rýndu í upplýsingar um ríflega 700.000 sænska menn og 725.000 sænskar konur sem fæddust á árunum 1911 til 1925.

 

Rannsóknin leiddi í ljós að lífslíkur tengdust barneignum.

 

Barnlausir karlar um sextugt gátu gert sér vonir um að lifa áfram í 18,4 ár á meðan feður á sama aldri gátu búist við að eiga framundan 20,2 ár. Með öðrum orðum var um að ræða tvö ár að auki.

 

Mennirnir græða mest

                   Ævilíkur karla ráðast meira af því hvort þeir eignast börn en ævilíkur kvenna, ef marka má rannsóknina.

 

Þegar litið var til sextugra kvenna bættist um eitt og hálft ár við meðalaldur mæðranna miðað við barnlausar konur. Mæðurnar gátu gert sér vonir um að lifa í 24,6 ár til viðbótar ef þær áttu minnst eitt barn.

 

Ekki kom á óvart að ágóðinn væri meiri meðal karla en kvenna því tengsl við börn hafa löngum verið talin stuðla að betri heilsu meðal foreldra og þá einkum feðra.

 

Nákvæmlega á hvern hátt börn hafa jákvæð áhrif á ævilíkur er ekki vitað. Samkvæmt rannsókninni virtist þó engu máli skipta hvort börnin byggju nálægt foreldrunum eður ei.

 

 

19.04.2021

 

Nanna Vium

(Visited 2.231 times, 1 visits today)

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.