Hversu margt tónlistarfólk þjáist af heyrnarskerðingu?

Fær margt atvinnutónlistarfólk eyrnasuð?

Maðurinn – líkaminn

Lestími: 1 mínúta

 

Heyrnarskemmdir, m.a. eyrnasuð (læknisfræðilegt heiti: tinnitus), er afar algengur atvinnusjúkdómur meðal atvinnufólks á sviði tónlistar.

 

Rannsóknir hafa leitt í ljós að um 30% af öllu rokk- og popplistarfólki hefur orðið fyrir varanlegri heyrnarskerðingu en reyndar er hlutfallið enn hærra sé litið til sígildrar tónlistar því alls 52% hljóðfæraleikara á sviði klassíkur þjáist af heyrnarskerðingu.

 

Skynfrumur skaddast

 

Eyrnasuð er nær alltaf tengt slælegri heyrn og því er lýst sem hljóði í eyra sem ekki á rætur að rekja utan líkamans. Heilinn fær með öðrum orðum boð um hljóð sem er ekki fyrir hendi.

 

Þetta gerist þegar skynfrumurnar, þ.e. fíngerðu hárin í innra eyranu, skaddast af völdum endurtekinna háværra hljóðáhrifa.

 

Eyrnasuð er engan veginn alltaf eins. Um getur verið að ræða viðvarandi hljóð eða þá hljóð sem kemur og fer. Það kann að vera í öðru eða báðum eyrum og getur lýst sér sem hvinur, niður eða eins konar vélarhljóð.

 

Fleiri og fleiri þjást af eyrnasuði

 

Talið er að eyrnasuð hafi aukist verulega á undanförnum árum, bæði meðal tónlistarfólks og þeirra sem stunda tónleika af krafti.

 

Ekki þykir ólíklegt að ýmsir eyrnaskaðar geri vart við sig eftir því sem magnarar, hátalarar og tækjabúnaður verður betri.

 

Áður fyrr var ekki hægt að láta tónlistina heyrast vel, jafnframt því að hækka allt í botn, og þetta gerði það eðlilega að verkum að færri en ella urðu fyrir heyrnarskerðingu.

 

Ekki er til nein kraftaverkalækning gegn eyrnasuði en nú á dögum er beitt nýrri sálfræðimeðferð sem gengur út á það að breyta upplifun sjúklinganna á hljóðinu.

Þekktir tónlistarmenn með eyrnasuð

 

Meðal þekktra tónlistarmanna sem þjást af þessum sjúkdómi:

 

Eric Clapton

Phil Collins, 

Anthony Kiedis (Red Hot Chili Peppers), 

Pete Townshend (The Who

Chris Martin (Coldplay)

Barbara Streisand

Will.I.Am

Ozzy Osbourne

Neil Young

Moby

Lars Ulrich

Liam Gallagher

Noel Gallagher

Roger Taylor

Thom Yorke

(Visited 585 times, 1 visits today)

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.