Hversu oft á að þvo rúmfötin?

Rúmin okkar svigna undan óboðnum gestum á borð við húðfrumur, skít og rykmaura. Við þurfum því að vera iðin við þvotta hvað rúmfötin snertir.

Lestími: 4 mínútur

Þeir sem sofa einsamlir mega trúa því að þeir eru alls ekkert einir í rúminu.

Sveppagró, gerlar, dýrahár, rykmaurar, frjóduft, mold, litarefni, matarleifar, húðfrumur, sviti, munnvatn, þvag og útferð úr leggöngum og endaþarmi.

Þessi upptalning sýnir svolítið af því sem leynist í fellingum rúmfatanna.

Við losum okkur við 100 lítra af svita á ári

Við missum á bilinu hálft til heilt gramm af húðflögum daglega. Stór hluti þeirra lendir á dýnunni þar sem húðleifarnar mynda sitt eigið vistkerfi sem byggir á eigin lögmálum um líf og dauða.

Þegar einstaklingur hefur losað sig við húð og hár til þessa vistkerfis, brjóta gerlar og sveppir niður húðleifarnar.

Ný rannsókn: Þess vegna ilma sængurfötin betur ef þau eru þurrkuð úti í sólinni

Rúmföt sem hengd eru til þerris í sólinni gefa frá sér sömu vellyktandi efni og við þekkjum frá súkkulaði, möndlum, sítrusávöxtum og rósum.

Þetta er ein af niðurstöðum nýrrar rannsóknar sem gerð var við Kaupmannahafnarháskóla, þar sem teymi vísindamanna hugðist sýna fram á hvers vegna þvottur sem hengdur er til þerris utanhúss ilmar betur en þvottur sem hangir innandyra.

Rannsóknin stóð yfir í tvö ár og í henni notuðu vísindamenn handklæði úr hreinni bómull sem þvegin höfðu verið úr tandurhreinu vatni, án nokkurra kemískra efna og hengdu til þerris á þremur ólíkum stöðum: í sólinni úti á svölum, á svölum sem stóðu í skugga og á dimmri skrifstofu.

Með því að bera handklæðin svo saman komust vísindamennirnir að raun um að sólþurrkuðu handklæðin mynduðu ýmsar lífrænar sameindir sem lyktarfrumurnar í nefjum okkar tengja við angan af jurtum og ilmvatni, þ.e. svonefnd aldehýð og ketón.

Sem dæmi gáfu sólþurrkuðu handklæðin frá sér efnið nónal sem ilmar af rósum, efnið pentanal sem er að finna í kardimommum, svo og efnið oktanal sem lyktar líkt og sítróna. Vísindamennirnir greindu jafnframt efnið metýlfúran í handklæðunum en það felur í sér súkkulaðilykt.

Ef marka má sérfræðingana á góð anganin sennilega rætur að rekja til ljósefnafræðilegra efnahvarfa, þar sem sólarljósið eða lofttegundin óson hvarfast við efnasambönd í blautum handklæðunum.

Síðan éta rykmaurar gerlana og sveppina. Þeir þurfa sjálfir að gæta sín á gráðugum ránmítlum sem fá ekkert betra en vel nærðan rykmaur.

Þú gefur frá þér um 100 lítra af svita í rúminu ár hvert en um er að ræða raka sem sveppir þrífast vel í.

Rannsóknir hafa leitt í ljós að fjórar til sextán ólíkar sveppategundir lifa á hefðbundnum koddum.

Þú sérð þúsundum rykmaura fyrir fæðu dag hvern

  • Rykmaurar eru 0,1-0,6 mm á lengd.
  • Þeir eru með átta fætur og lifa í þrjá til fimm mánuði.
  • Kvendýrið verpir 40-80 eggjum sem klekjast út á tveimur vikum.
  • Rykmaurar lifa m.a. á lausum hárum og húðflögum.
    Hver maður losar sig við á bilinu hálft til heilt gramm af húðflögum daglega. Það magn nægir til að sjá þúsundum rykmaura farborða í heilt ár.
  • Hver maður losar sig við á bilinu hálft til heilt gramm af húðflögum daglega. Það magn nægir til að sjá þúsundum rykmaura farborða í heilt ár.

Bólfélagar valda ofnæmi

Þessir óboðnu gestir í rúminu liggja ekki bara og kúra. Þeir geta haft slæleg áhrif á heilsuna.

Einn af hverjum sex einstaklingum er með eins konar ofnæmi og óhreinir íbúar rúmfatanna geta gegnt hlutverki ofnæmisvalda sem annað hvort valda ofnæmi ellegar magna það upp.

Ofnæmi getur versnað til muna ef rúmið er einn allsherjar ruslahaugur af t.d. rykmaurum og úrgangi þeirra, því við verjum um þriðjungi ævinnar í rúminu.

Bandarísku ofnæmis-, astma- og ónæmisfræðisamtökin mæla fyrir vikið með vikulegum þvotti sængurfata, einkum ef einhver á heimilinu þjáist af ofnæmi.

Aðrir sérfræðingar telja nóg að þvo sængurfötin aðra hverja viku.

(Visited 10.804 times, 1 visits today)

Tengdar Greinar

FULLUR AÐGANGUR AÐ VEFNUM Í 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR

PRÓFAÐU 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR