Skrifað af Maðurinn Sjúkdómar og læknisfræði

Miltað virkjar varnir líkamans

Eigi að lækna veikt hjarta er þörf fyrir milta. Þetta var ein af niðurstöðum athyglisverðrar rannsóknar sem hópur vísindamanna við Massachusetts sjúkrahúsið og læknadeildina í Harvard unnu að. Þegar þeir rannsökuðu græðingarferlið í skemmdum hjartavef í músum fundu vísindamennirnir, sér til mikillar furðu, ógrynnin öll af stórkirningum í hjartavefnum en samanlagt voru þeir fleiri en í öllu blóðrásarkerfi dýranna.

Stórkirningar eru stærstu hvítu blóðfrumur líkamans og þeir gegna lykilhlutverki í varnarkerfi hans. Öflug starfsemi þeirra og viðgerðarmáttur gera það að verkum að við skynjum bólgur, roða og sársauka. Líkt og við á um flestar aðrar hvítar blóðfrumur eru stórkirningarnir myndaðir í beinmergnum og þaðan berast þeir út í blóðið. Fram til þessa hafði verið álitið að stórkirningarnir streymdu um í blóðinu, þar til vefjaskemmdir og sýkingar nýttu þá til að lagfæra með og endurmóta.

Vísindamennirnir komust hins vegar að raun um að milljónir stórkirninga söfnuðust kringum skaddaðan hjartavef músanna á innan við sólarhring. Þetta var í langtum meira mæli en vísindamennirnir höfðu gert sér væntingar um og fyrir vikið hófu þeir að leita að huldum forða utan blóðrásarkerfisins. Eftir að hafa rannsakað ýmsa vefi og líffæri birtist svarið svo í miltanu, því næstum allir stórkirningarnir kringum skaddaða hjartavefinn áttu rætur að rekja þangað.

Hermenn höfðu gagn af miltanu

Næsta skref var fólgið í rannsókn á músum sem búið var að fjarlægja miltað úr og sem voru eingöngu með stórkirninga úr blóðrásinni fyrir vikið en skemmst er frá því að segja að hjartavefur þessara músa greri ekki vel. Í ljós kom einnig að miltað hefur að geyma tífalt fleiri stórkirninga en allt blóðrásarkerfið. Þessar niðurstöður komu verulega á óvart, segir Mikael Pittet, ónæmisfræðingur við læknadeildina í Harvard, en hann vann að rannsókninni, ásamt Filip Swirski, Matthias Nahrendorf og fleiri starfsbræðrum.

Þó svo að vísindamennirnir byggi niðurstöður sínar á tilraunum með mýs þykjast þeir vita að sömu niðurstaðna sé að vænta eftir rannsóknir á mönnum. Árið 1977 var unnin viðamikil rannsókn á ríflega þúsund hermönnum sem miltað hafði verið tekið úr eftir að þeir höfðu slasast í síðari heimsstyrjöld. Rannsókn þessi leiddi í ljós að miklu meiri hætta var á að þessir hermenn létu lífið um aldur fram, einkum af völdum hjarta- og æðasjúkdóma, en við á um hermenn með heilt milta. Þessum sömu hermönnum var að sama skapi langtum hættara við tilteknum sýkingum á borð við lungnabólgu, því miltað framleiðir sérleg efni sem vinna á bakteríum á borð við streptókokka.

Með þessari nýju vitneskju um að miltað hafi yfir að ráða stórkirningum í bardagahug öðlast þetta líffæri, sem hlotið hafði litla athygli fram til þessa, nú mjög mikla viðurkenningu sem einn af lykilþáttunum í ónæmiskerfinu, því miltað bæði virkjar og stjórnar ónæmisviðbrögðum.

Árum saman var miltað í raun álitið vera eins konar óþarfur hluti líkamans. Milta var oft fjarlægt í kjölfar umferðarslysa og íþróttameiðsla, því ef líffæri springur, sem hefur að geyma jafn mikið af æðum og miltað, skapast mikil hætta af völdum alvarlegra blæðinga. Sjúklingar virðast engu að síður oft spjara sig mætavel án miltans. Nú hafa nýjar rannsóknarniðurstöður enn fremur leitt í ljós að vænlegur kostur er að hafa yfir að ráða heilu milta. Í raun vekur furðu hvers vegna vísindamenn hafa ekki fyrir löngu áttað sig á mikilvægum hlutverkum þessa tiltölulega stóra líffæris, sem rannsakað hefur verið á alla kanta svo öldum skiptir.

„Bábilja vísindanna var sú að stórkirninga er ekki að finna í tilteknum vefjum líkamans, heldur í sjálfri blóðrásinni. Þegar svo eitthvað álíka telst vera vitað, þá er ekkert gert frekar til að rannsaka það. Það er ekki fyrr en sérfræðingar rekast á furðulegar tilviljanir eða reyna að sanna ósennilegar tilgátur sem hið óvænta gerir vart við sig,“ segir Mikael Pittet.

Stórkirningar geta skaðað krabbameinssjúklinga

Pittet og starfsbræður hans lögðu alla áherslu á að komast að raun um hvaða starfsemi örvar miltað til að senda stórkirninga út á orrustuvöllinn í vefnum og hvað ræður magninu. Um er að ræða hárfínt jafnvægi, því of mikið magn stórkirninga gæti aukið sýkingarviðbrögðin og gert illt verra en of lítið magn myndi hefta lækningarmáttinn. Því er mjög brýnt að komast að raun um hvernig miltað ráðstafar stórkirningabúskapnum, meðal annars til að koma í veg fyrir að sjálfsofnæmissjúkdómar geri vart við sig og til að hefta myndun krabbameins.

Mikið magn stórkirninga gæti beinlínis verið varasamt fyrir krabbameinssjúklinga. Ýmislegt virðist nefnilega benda til þess að stórkirningar geti bælt ónæmisviðbrögð gegn litlum krabbameinsæxlum, flýtt fyrir myndun æða nærri æxlum og aukið líkur á meinvörpum. Þetta eru m.a. ástæður þess að sérfræðingar róa að því öllum árum að komast að raun um hvað veldur framgangi stórkirningahersveitanna í líkamanum.

Fyrr eða síðar verður maðurinn hugsanlega fær um að stjórna og hafa hemil á losun stórkirninga úr milta yfir á vígvellina. Ef það tekst verðum við komin öllu nær því takmarki að hafa hemil á ónæmisviðbrögðum. Þegar öllu er á botninn hvolft er það takmark vísindamanna að geta aukið ónæmisviðbrögðin í tengslum við alvarlega smitsjúkdóma og dregið úr þeim þegar um er að ræða sjálfsofnæmi og krabbamein.

Subtitle:
Öldum saman hefur leikið á huldu hvert hlutverk miltans væri. Nú hafa rannsóknir hins vegar leitt í ljós að líffærið hefur að geyma gífurlegt magn af tiltekinni gerð ónæmisfrumna sem endurmynda skemmdan vef og lækna meira að segja mjög alvarlegar skemmdir. Þessi nýja vitneskja hefur leitt í ljós að miltað gegnir lykilhlutverki fyrir varnarkerfi líkamans.
Old ID:
1080
897
(Visited 166 times, 1 visits today)
Síðast breytt: nóvember 21, 2019

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.