Nú slær hið ræktaða hjarta

Á grunni dauðs hjarta hafa vísindamennirnir ræktað gervihjarta

Læknisfræði

Nú hafa vísindamenn við Minnesota-háskóla í Bandaríkjunum ræktað gervihjarta og fengið það til að slá. Þessi tímamótaviðburður byggist á nýrri tækni og vísindamennirnir notuðu dautt hjarta sem eins konar skapalón eða stoðgrind fyrir nýja hjartað.

 

Hingað til hafa vísindamennirnir notað hjörtu úr rottum. Með sérstakri upplausn fjarlægðu þeir fyrst allar frumur úr dauða hjartanu þangað til ekki var annað eftir en bandvefur, æðar, hjartalokur o.fl. Í þetta skapalón voru svo settar frumur úr nýfæddum rottuungum.

 

Þær tengdu sig við bandvefinn og átta dögum síðar höfðu vísindamennirnir skapað nýtt hjarta sem sló reglubundið í margar mínútur. Það eina sem hjartað þurfti til að slá var vægt rafstuð svipað því sem hjartagangráður gefur. Enn sem komið er hafa þó ekki náðst nema um 2% af afli eðlilegs rottuhjarta, en vísindamennirnir telja á hinn bóginn aðeins tímaspursmál hvenær unnt verði að rækta hjarta sem geti starfað eðlilega í líkamanum.

 

Nú þegar hafa vísindamennirnir náð að frumutæma önnur líffæri. Og þeim hefur tekist að beita sömu tækni á svínshjarta. Vonir standa svo til að unnt verði að rækta mannshjörtu með þessari aðferð og þannig bæta upp þann mikla skort sem nú er á hjörtum til ígræðslu.

 
 
(Visited 36 times, 1 visits today)

Tengdar Greinar

FULLUR AÐGANGUR AÐ VEFNUM Í 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR

PRÓFAÐU 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR