Svona má þekkja sjálfsdýrkanda

Sjálfsdýrkendur, oft nefndir narcissistar, telja sig merkilegri en aðra og krefjast þess vegna stöðugrar aðdáunar frá umhverfi sínu. Rannsóknir sýna þó að þessi sjálfsupphafning er ekki endilega bara neikvæð, þar eð hún getur gert sjálfsdýrkandanum auðveldara að standast tvo sjúkdóma.

Hvað er sjálfsdýrkandi?

Hugtakið er oft notað án mikillar umhugsunar um fólk sem er mjög upptekið af sjálfu sér og hrokafullt. En narcissismi er hins vegar geðröskun sem flokkast undir „aðrar persónuleikatruflanir“ í alþjóðaflokkun sjúkdóma (ICD).

 

Narcissísk persónuleikatruflun getur á yfirborðinu minnt á siðblindu og andfélagslega hegðun en röskunin er þó öðruvísi. Sjálfsdýrkendur eru þannig almennt ekki árásargjarnir og eru lausir við ofbeldishneigð.

 

Megineinkenni sjálfsdýrkunar er þörf fyrir aðdáun ásamt afar brenglaðri sjálfsmynd. Þetta þýðir að sjálfsdýrkandinn ofmetur eigin hæfni og telur sig betri en aðra. Það gildir hvorki um siðblinda þá sem snúast gegn umhverfi sínu.

Hvað einkennir sjálfsdýrkanda?

Þekkir þú fólk sem þú grunar um sjálfsdýrkun? Sálfræðingar setja fram tiltekin viðmið til að greina narcissíska persónuleikaröskun og viðkomandi þarf að uppfylla fimm skilyrðanna:

 

  • Hátt mat á eigin hæfni sem leiðir til afar mikils sjálfsálits.
  • Hrokafullt atferli.
  • Stöðug athyglisþörf.
  • Væntingar um sérmeðferð hjá öðrum.
  • Sú tilfinning að vera mjög sérstakur eða sérstök.
  • Öfundar aðra eða gerir ráð fyrir öfund annarra.
  • Skortir samkennd.
  • Nýtir aðra af tillitsleysi til að ná markmiðum.
  • Finnur þörf fyrir yfirdrifna aðdáun annarra.

 

Vísindamenn vita enn ekki hvers vegna sumt fólk þróar þessa persónuleikaröskun. Þó ríkir almenn samstaða um að bæði erfðir og umhverfi skipti máli.

Orðið narcissisti er komið úr grískri goðafræði þar sem hinn fagri Narcissus verður svo hugfanginn af spegilmynd sinni að á endanum deyr hann úr þrá eftir sjálfum sér.

Sjálfsdýrkendur verða síður þunglyndir

Rannsóknir við Queensháskóla í Belfast sýna að þótt sjálfsdýrkendur hafi marga galla, virðast ákveðnir kostir fylgja sumum þeirra.

 

700 þátttakendur í tilraun fylltu út ýmsa spurningalista sem ætlað var að mæla narcistíska tilhneigingu, sálarstyrk og einkenni um þunglyndi og streitu. Niðurstöðurnar sýndu að sjálfsdýrkendum mátti skipta í tvo hópa – tilfinninganæma og mikilfenglega.

 

Tilfinninganæmir sjálfsdýrkendur voru almennt óvinsamlegri og líklegri til að fara í vörn en hinir mikilfenglegu höfðu mikið sjálfsálit og var umhugað um stöðu og völd. Mikilfenglegu sjálfsdýrkendurnir voru jafnframt fullir sjálfstrausts og markmiðssæknir og að sögn vísindamannanna virtust þessir þættir draga mjög úr hættunni á bæði þunglyndi og streitu.

Sjálfsdýrkandi getur breyst

Reyndar virðast sjálfsdýrkendur líka geta breyst til batnaðar.

 

Stór rannsókn frá 2019 leiddi í ljós að fólk með sjálfsdýrkunartilhneigingu leggur oft raunsærra mat á sjálft sig eftir að hafa mætt andstöðu í lífinu.

 

Vísindamenn benda m.a. á að oft sé það fyrsta starfið sem breyti hinni narcissísku sjálfsmynd. Þegar komið er út í atvinnulífið verður nefnilega ekki komist hjá gagnrýni – sem einmitt er sjálfsdýrkendum óþolandi.

 

Rannsóknin stóð yfir árum saman og náði til mörg hundruð manns á mismunandi aldri. Og vísindamennirnir slá því alveg föstu að það sé einungis mýta að sumar kynslóðir séu gefnari fyrir sjálfsdýrkun en aðrar.

(Visited 3.367 times, 1 visits today)

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.