Fjórir hafa fengið Covid-19 tvisvar: Þess vegna smitar kórónuveiran aftur

Fjórir hafa fengið Covid-19 tvisvar: Þess vegna smitar kórónuveiran aftur Fyrstu staðfestu tilvikin um endursmit eru komin fram. En vísindamenn segja enga ástæðu til örvæntingar.

Lestími: 3 mínútur.

Einn í BNA, einn í Hong Kong, einn í Belgíu og einn í Hollandi. Fjórir sjúklingar hafa smitast aftur af Covid-19 svo staðfest sé.

Í öllum þessum tilvikum hefur veiran verið raðgreind og þannig staðfest að seinna afbrigðið sé örlítið frábrugðið hinu fyrra og því örugglega um sama smit að ræða.

Þar með laskast vonin um ónæmi lítils háttar – en það eru ekki endilega jafn slæmar fréttir og maður gæti haldið.

Þrír endursmitaðir voru einkennalausir

Í þremur af þessum fjórum tilvikum fékk sjúklingurinn alls engin einkenni í seinna skiptið. Sé það reglan fremur en undantekningin, merkir það að ónæmiskerfið bregst við veirunni í seinna skiptið.

Sumir farsóttarsérfræðingar lýstu því yfir að þetta væru góðar fréttir þegar í ljós kom að sjúklingurinn í Hong Kong var einkennalaus.

Fyrsti sjúklingurinn sem fékk staðfest annað smit var í Hong Kong.

En fjórði sjúklingurinn – 25 ára bandaríkjamaður – fékk verri einkenni í seinna skiptið. Sé það reglan, hefur ónæmið ákveðnar takmarkanir.

Vísindamenn sjá tvennt fyrir sér

Ónæmisviðbrögðin eru misjöfn og einstaklingsbundin. Á grundvelli þeirra tilvika sem komin eru fram, sjá vísindamenn fyrir sér tvær sviðsmyndir varðandi þá sjúklinga sem hafa fengið Covid-19:

1. Líkaminn myndar ónæmi

Eftir að hafa smitast af veirunni SARS-Cov-2 mynda sumir sjúklingar mikið af mótefnum. Að auki myndar líkaminn nýjar ónæmisfrumur, t.d. T-frumur sem hjálpa til við að vinna bug á Covid-19. Ónæmið útilokar ekki alveg þá áhættu að smitast aftur en vegna mótefnanna og nýrra T-frumna verða einkennin í annað skiptið yfirleitt væg.

2. Líkaminn myndar ekki ónæmi

Þar eð líkaminn hefur ekki myndað mikið af mótefnum – vegna þess að líkaminn hefur sigrast á sýkingunni án mótefna – eða vegna þess að veiran stökkbreytist hratt, verður líkaminn ekki ónæmur fyrir veirunni. Í versta falli gæti þá annað smit valdið verri sjúkdómseinkennum, eins og t.d. gildir um beinbrunasótt.

Þeir farsóttarsérfræðingar sem hafa rannsakað endursmituðu sjúklingana, telja líklegast að það gerist aðeins örsjaldan að fólk smitist öðru sinni. Til dæmis var ónæmiskerfi hollenska sjúklingsins veikburða.

Bóluefni munu samt hafa áhrif

Möguleikinn á endursmitun skiptir miklu varðandi hvort þau 140 bóluefni sem nú eru í þróun, geti skapað hjarðónæmi en virkni þeirra er þó ekki í neinni stórhættu vegna þessara fjögurra tilvika.

Yfirleitt skapa bóluefni nefnilega miklu traustari ónæmisviðbrögð en sjúkdómurinn gerir sjálfur.

Til viðbótar mun þurfa að endurbæta góð bóluefni jafnharðan og veiran stökkbreytist. Sumir sérfræðingar telja að þau bóluefni sem nú er unnið að muni í mesta lagi virka í fimm ár.

Þannig virkar hjarðónæmi

(Visited 3.186 times, 1 visits today)

Tengdar Greinar

FULLUR AÐGANGUR AÐ VEFNUM Í 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR

PRÓFAÐU 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR