Skrifað af Fólkið á jörðinni Menning og saga Óleystar gátur

Hvernig var höllin byggð?

Hin dularfulla höll, Coral Castle, í Suður-Flórída er meðal sérkennilegustu ferðamannastaða í þessu sólskinsfylki Bandaríkjanna. Á tiltölulega litlu svæði, samtals aðeins nokkur þúsund fermetrum, geta gestir gengið um milli þykkra múra, gegnum hlið sem vega mörg tonn og skoðað turna sem gerðir eru úr risavöxnum steinblokkum.

Allt er þetta byggt af einum manni, lettneska innflytjandanum Edward Leedskalnin, sem hóf bygginguna árið 1920 til að komast yfir æskuástina sína og um leið stóru ástina í lífi hans, sem hafði brugðist honum við altarið. Í 31 ár vann hann að hallarbyggingunni – allt til dauðadags.

Það er hins vegar ráðgáta hvaða tækni hann notaði. Þótt Leedskalnin væri fús til að sýna mannvirkið þegar gesti bar að garði, lagði hann sig í framkróka til að komast hjá að láta sjá til sín við vinnuna.

Nokkrir strákar sem eitt sinn laumuðust inn á byggingarsvæðið, sögðu síðar að Leedskalnin hefði látið stóra steina svífa eins og helíumblöðrur. Opinberlega lét hann sér hins vegar nægja að segja að hann hefði afar góðan skilning á vogstangaraflinu. Á grundvelli þessa leyndarhjúps varð enginn skortur á sögusögnum. Hann var sagður hafa uppgötvað byggingaraðferðir Forn-Egypta, talinn hafa fengið hjálp hjá geimverum og sumir sögðu hann hafa fundið uppsprettu alheimsviskunnar.

Enn í dag er þessi hallarbygging óleyst ráðgáta. Ekkert steinlím heldur steinblokkunum saman, heldur standa þær á sínum stað vegna eigin þyngdar einnar saman. Þær eru höggnar til af ótrúlegri nákvæmni og falla víða svo vel saman að ekki er unnt að koma hnífsblaði á milli. Með nútíma tækjum, vörubílum og krönum, væri hægt að leika þetta eftir, en staðreyndin er sú að Leedskalnin var lágvaxinn og grannur, ekki nema 50-60 kíló að þyngd og hann vann einn og hafði engar vélar.

Árið 1986 öðluðust menn þó lítils háttar innsýn í aðferðir Leedskalnins. Allt fram að þeim tíma höfðu stórar steindyr þótt einna merkilegasta fyrirbrigðið í höllinni. Í þessum dyrum var steinhurð, talin um 9 tonn að þyngd, en í svo hárfínu jafnvægi að hvert barn gat auðveldlega opnað með því einu að ýta á hana. En af einhverri ástæðu var hurðin nú skyndilega föst og ákveðið var að gera við.

Í ljós kom að Leedskalnin hafði borað gat lóðrétt í gegnum hurðina. Þar hafði hann komið fyrir ás úr málmi og neðst hvíldi ásinn á legu úr vörubíl. Legan var orðin tærð og þess vegna stóð hurðin á sér. Gert var við og hurðinni aftur komið fyrir á sínum stað. Hið hárfína jafnvægi náðist þó ekki og nú þarf nokkurt átak til að opna.

Subtitle:
Old ID:
1026
843
(Visited 22 times, 1 visits today)
Síðast breytt: nóvember 21, 2019

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.