Steinaldarþjóð fórnaði fötluðum börnum

Fornleifafræði

Evrópskir ættbálkar veiðimanna og safnara fórnuðu bæði fullfrískum og fötluðum börnum á tímabilinu 26000 – 8000 f.Kr. Í þremur fjöldagröfum í Rússlandi, Tékklandi og Ítalíu hefur ítalski vísindamaðurinn Vincenzo Formicola við háskólann í Pisa allavega fundið ummerki sem benda til fórnarathafna á þessu tímabili.

Engar af beinagrindunum bera ummerki banvæns ofbeldis en í öllum tilvikum hafa fullfrísk börn verið grafin við hliðina á fötluðum jafnöldrum. Jafnframt voru vandlega unnar dánargjafir lagðar í grafirnar og þær hafa ljóslega verið gerðar með töluverðum fyrirvara. Í Vladimir í Rússlandi voru 9 ára drengur og 13 ára stúlka með vanskapaða fætur lögð í gröf ásamt meira en 5.000 perlum – svo vönduðum að gerð hverrar um sig hefur verið klukkutíma verk. Formicola telur þetta benda til að jarðsetningin hafi verið ákveðin með löngum fyrirvara og þau börn vandlega útvalin sem fórna skyldi ættbálknum til heilla.

Þessi ítalski vísindamaður kann engin svör við því, hvers vegna fötluð börn þurftu að láta lífið, en vera kann að þau hafi vakið fólki ótta eða hugsanlega hatur. Og hvers vegna frísk börn voru tekin af lífi er svo ekki minni ráðgáta. En sé það rétt að börnin hafi verið líflátin í sambandi við trúarathafnir eru þetta elstu dæmin um mannfórnir á steinöld.

Subtitle:
Uppgröftur bendir til barnfórna í Evrópu fyrir 28.000 árum
Old ID:
525
369
(Visited 11 times, 1 visits today)

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.