Á síðustu áratugum hefur sú kenning, að önnur pláneta hafi rekist á jörðina fyrir um 4,5 milljörðum ára, öðlast aukna viðurkenningu vísindamanna.
Plánetan hefur fengið heitið Theia og var á stærð við Mars en sundraðist alveg við áreksturinn. En það eru þó m.a. leifar hennar sem hafa myndað tunglið.
Nú telur hópur jarðfræðinga og jarðskjálftafræðinga hjá Caltech, tæknistofnun Kaliforníuríkis í Bandaríkjunum, að leifar af Theiu hafi líka skapað jarðflekana og þar með landrekið.
Á níunda áratugnum uppgötvuðu jarðeðlisfræðingar að rétt við kjarna jarðar eru tveir efnisklumpar úr óþekktu efni, hvor um sig á stærð við tunglið. Annar er undir Kyrrahafi en hinn að hluta undir Afríku.
Á máli sérfræðinganna kallast þessir klumpar LLSVP (large low-shear velocity provinces) og 2023 uppgötvuðu menn að þetta gætu verið þær leifar af Theiu sem ekki mynduðu tunglið.
Bein áhrif á myndum jarðskorpufleka
Nú hafa vísindamennirnir hjá Caltech safnað saman aðgengilegum gögnum og notað þau til að skapa tölvulíkan sem sýnir áhrif þessara klumpa á jarðskorpuna síðustu milljónir ára.
Líkanið sýndi að klumparnir væru gerðir úr svipuðum efnum og kjarni og möttull jarðar og gætu hafa haft bein áhrif á myndun jarðskorpuflekanna.

Nálægt kjarna jarðar eru tveir stórir efnisklumpar sem taldir eru ættaðir úr Theiu. Annar er undir Afríku (t.v.) en hinn undir Kyrrahafi (t.h.).
Rúmum 200 milljónum ára eftir að Theia rakst á jörðina, leiddi þrýstingur frá klumpunum til myndunar heitra kvikustrauma frá kjarnanum til yfirborðsins.
Afleiðingin varð sú að hlutar af jarðskorpunni tóku að sökkva sem er einmitt hið sama og gerist þar sem jarðskorpuflekar rekast á og sá þyngri leitar niður undir hinn.
Þetta leiddi til þeirrar brotamyndunar í jarðskorpunni sem nú aðskilur skorpuflekana.
Niðurstöður rannsóknarinnar geta líka skýrt annan jarðfræðilegan leyndardóm, sem sé það að sum af elstu steinefnum jarðar bera merki um að hafa borist upp vegna landreks.
Rannsóknin birtist í tímaritinu Geophysical Research Letters.