Bandaríski milljarðamæringurinn Jared Isaacman skráði sig í sögubækurnar á fimmtudaginn þegar hann var fyrsti almenni borgarinn sem fór í geimgöngu.
Í beinu streymi frá SpaceX mátti sjá Isaacman klifra upp stiga og út úr geimfarinu – í 700 kílómetra hæð yfir jörðu.
Þar prófaði hann nýja geimbúninginn frá SpaceX og eftir rúmar tíu mínútur fyrir utan geimfarið skreið hann inn aftur.
Isaacman er leiðangursstjóri Polaris áætlunarinnar sem hann ásamt SpaceX, undir forystu auðkýfingsins Elon Musk, skipulögðu.
Fyrsta af að minnsta kosti þremur leiðöngrum áætlunarinnar – Polaris Dawn – var skotið á loft á þriðjudag og hápunktur ferðarinnar var á fimmtudaginn með geimgöngu milljarðamæringsins.
Fjölmargir geimfarar frá bandarísku NASA og evrópsku ESA hafa farið í geimgöngur, en þetta er í fyrsta sinn sem almennur borgari gengur um í geimnum.
Fjögurra manna áhöfn er í Polaris Dawn geimfarinu. Auk Isaacman er fyrrverandi orrustuflugmaður og vinur Jared og tveir starfsmenn SpaceX í áhöfninni.
Ein úr áhöfninni – Sarah Gillis – fór í geimgönguna með Jared.
Fylgstu með augnablikinu Jared Isaacman skráir sig í sögubækurnar
Áhöfnin hefur þegar ferðast lengra út í geiminn en menn hafa gert síðan seint á áttunda áratugnum.
Til stendur að gera fleiri tilraunir í ferðinni.
En geimgangan hefur fengið mestu athyglina.
Sögulegar myndir úr Dragon geimhylkinu sýna Jared Isaacman taka fyrstu skrefin upp stigann og út í geim. Geimgangan tók alls 20 mínútur.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Jared Isaacman, sem hefur auðgast gríðarlega á rafræna greiðslufyrirtækinu Shift4, fer út í geim.
Fyrir nokkrum árum var hann einn fyrsti geimferðamaðurinn þegar hann fór á braut um jörðu í ferð sem hann fjármagnaði.
Hann hefur einnig fjármagnað Polaris áætlunina – ásamt SpaceX. Hann hefur ekki viljað gefa upp hversu miklu fé hann hefur varið í þetta ævintýri.