NASA áætlar að senda fyrstu geimfarana í meira en 50 ár til tunglsins fyrir lok árs 2024.
Megintilgangurinn er að undirbúa langtímabúsetu manna á þessum fylgihnetti okkar. Þess vegna rannsaka menn nú gaumgæfilega hvað bíður geimfaranna.
Og nú er varað við suðurpól tunglsins sem lendingarstað í niðurstöðum Smithsonian-stofnunarinnar en rannsóknarverkefnið var kostað af NASA.
Ógnina að finna í miðjunni
Suðurpóllinn þykir heppilegur lendingarstaður vegna þess að þar er talið vera vatn í ísformi og einmitt það er mikilvægasta forsenda búsetu manna til langframa, enda bæði erfitt og fokdýrt að flytja nægilegt vatn til tunglsins.
Ógnina er að finna inni í miðju tunglsins sem á síðustu milljónum ára hefur kólnað mikið.
Við kælinguna harðnar ytri skel hnattarins en massinn þjappast inn á við.
Af þessu leiðir að þvermál tunglsins hefur minnkað um nálægt 200 metra síðan það myndaðist fyrir 4,5 milljörðum ára.
Þess vegna minnkar tunglið
- Áður ríkti mikill hiti innan í tunglinu en það hefur kólnað á mörgum milljónum ára.
- Við kælinguna harðnar ysta skelin, jafnframt því sem massinn minnkar að rúmfangi. Einmitt vegna þess að ysta lagið harðnar, brotnar það upp þegar hnötturinn dregur sig saman.
- Þessu má líkja við vínber sem skreppur saman og verður að rúsínu. En yfirborð tunglsins brotnar upp og myndar hæðir og dali.
- Þegar yfirborðið dregst inn á við myndast plötur sem núast saman. Það gæti verið orsök margra þeirra skjálfta sem NASA greinir frá.
Þetta leiðir af sér landskjálfta. Hér á jörð taka jarðskjálftar ekki nema fáeinar sekúndur en á tunglinu geta þeir staðið yfir klukkutímum saman.
Slík þróun gæti truflað verulega áætlanir um búsetu til lengri tíma.
„Rétt eins og jarðskjálftar verða tunglskjálftar vegna eins konar ágalla á talsverðu dýpi. Þeir geta orðið nógu öflugir til að skadda menn og mannvirki ásamt tækjabúnaði,“ segir jarðfræðingurinn Thomas Watters sem er yfirmaður hjá Smithsonian-stofnuninni og einn af vísindamönnunum sem gerðu rannsóknina.
Myndir NASA sýna sprungur í yfirborði tunglsins og þær eru sagðar til sönnunar um öfluga jarðvirkni einmitt á þeim svæðum sem talin hafa verið vænlegust til lendinga.

Tunglið hefur kólnað á nokkrum milljónum ára, sem veldur því að tunglið minnkar um um 100 metra í radíus. Myndin hér sýnir hvernig yfirborð tunglsins springur vegna samdráttar tunglsins. Örvarnar sýna hvernig tveir jarðvegsflekar eru að færast í áttina að hvor öðrum - hugsanlegur undanfari tunglskjálfta.
Það er mikilsvert að hafa þessar nýuppgötvuðu afleiðingar af samdrætti tunglsins í huga þegar að því kemur að ákvarða nákvæmlega staðsetningu varanlegra bækistöðva á tunglinu, segja vísindamennirnir sem unnu rannsóknina.
Artemis er geimferðaáætlun Nasa sem á næstu árum á að koma mönnum til tunglsins á ný. Langtímamarkmiðið er að koma á fót tunglstöð og geimstöð á braut um tunglið. Lestu hér um Artemis-áætlunina.
„Þetta getur virst gerast hægt og hægt en samdrátturinn veldur umtalsverðri röskun yfirborðsins á tilteknum svæðum – þar á meðal svæðum þar sem NASA hefur gert ráð fyrir mögulegum lendingarstöðum fyrir mannaða geimfarið Artemis III,“ segir Thomas Watters.