Munnurinn getur veitt mikilvægar upplýsingar um heilsu okkar.
Sé skyggnst snögglega inn í munnholið er hugsanlegt að við getum séð ummerki um veiklað ónæmiskerfi og sykursýki. Þá geta tennur okkar og tannhold jafnframt leitt ýmislegt í ljós um næringu, streitu og sjúkdóma.
Þar með lýkur upptalningunni raunar ekki. Tiltekinn hluti af innganginum að meltingarfærum okkar kann jafnframt að geyma upplýsingar um hættuna á að við þróum með okkur heilabilun.
Þetta er niðurstaða breskra vísindamanna við háskólann í Exeter í rannsókn sem birtist í tímaritinu PNAS Nexus. Prófessor Anni Vanhatalo stýrði rannsókninni.
Sérstakar bakteríur hafa áhrif á heilann
Tilraunir vísindamannanna leiddu nefnilega í ljós að tilteknar bakteríur í munnholinu geta haft jákvæð áhrif á heilann og m.a. bætt starfsminni okkar.
Þessi nýja rannsókn tók til 55 ólíkra þátttakenda með væga vitsmunahnignun og 60 annarra sem höfðu yfir eðlilegri vitsmunagetu að ráða.
Ein af niðurstöðunum var á þann veg að einstaklingar sem höfðu yfir að ráða miklu magni af bakteríum tilheyrandi fjölskyldunni Neisseria, virtust búa yfir starfhæfari heilum á ýmsum sviðum en ella.
Góðgerlaviðbót í fyrirbyggjandi skyni
Neisseria-fjölskyldan felur í sér 20 tegundir af bakteríum sem lifa undir venjulegum kringumstæðum í friði og ró í munni okkar og nefi og hafa jafnvel bætandi áhrif á heilsu okkar.
Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að Neisseria-bakterían gerir gagn með því að umbreyta nítrati í nítratríkum fæðutegundum, svo sem eins og grænmeti, í köfnunarefnisoxíð (NO), en um er að ræða boðefni sem veldur víkkun æðanna og lækkun blóðþrýstings.
Boðefni þetta kann að gagnast til að viðhalda heilanum heilbrigðum og vel starfhæfum.
Rannsóknin sýndi að sama skapi að minna nítrat virtist vera í munni þeirra sem bakteríufjölskyldan Prevotella genus réð ríkjum hjá. Þar með var einnig um að ræða minna af nítrati sem unnt væri að umbreyta í boðefnið köfnunarefnisoxíð.
Áhuga vekur að þeir sem virðast vera í aukinni hættu á arfgengum Alzheimer-sjúkdómi eiga oft í basli með myndun þessa tiltekna boðefnis.
Vísindamennirnir að baki rannsókninni komust jafnframt að raun um að af þeim 33 einstaklingum sem áttu á hættu á að þróa með sér arfgengan Alzheimer-sjúkdóm var að finna miklu meira af bakteríutegundinni Prevotella genus en bakteríutegundinni Nisseria.
Falsaðar og villandi rannsóknaniðurstöður hafa seinkað þróun lyfja gegn Alzheimer um 15 ár. Fölsku niðurstöðurnar bentu á eitt stakt prótín sem sökudólginn. Nú kemur í ljós að þetta prótín er miklu frekar til gagns!
Ef marka má vísindamennina að baki rannsókninni getur mataræði okkar haft áhrif á hvers kyns örverusamfélag ræður ríkjum í munni okkar.
Vísindamennirnir lýstu því yfir í fréttatilkynningu að svokölluð nítratrík fæða, líkt og Miðjarðarhafsfæða og svokallað DASH-fæði, kynni að örva vöxt góðra baktería sem gagnast heilanum.
Þó er þörf fyrir frekari rannsóknir til þess að skilja megi tengslin milli þess sem við nærumst á, annars vegar, og bakteríanna sem lifa í munni okkar, hins vegar.
DASH-mataræðið stuðlar að lægri blóðþrýstingi og þú getur lesið um það hér.