Lifandi Saga

Nasistaveiðar meðal óvina 

Ríkissaksóknarinn Fritz Bauer fær á sjötta áratug síðustu aldar veður af dvalarstað SS-foringjans Adolfs Eichmann – en fyrrum nasistar hjá hinu opinbera torvelda honum leitina. Hér er sagan um manninn sem rauf afneitun Þjóðverja á fortíðinni.

BIRT: 27/06/2024

Fritz Bauer horfir forvitinn á póstburð dagsins. Hann rekur augun í bréf frá Argentínu sem hefur borist þennan sumardag árið 1957 inn á skrifstofu þýska ríkissaksóknarans í fylkinu Hessen. Bauer opnar bréfið og les það gaumgæfilega. 

 

Um áraraðir hefur gyðingurinn og lögmaðurinn Fritz Bauer reynt að þefa uppi brotlega nasista sem tekist hefur að flýja réttvísina – meðal þeirra er SS-foringinn Adolf Eichmann. Sá hafði við skrifborð sitt skipulagt útrýmingu á gyðingum í Evrópu. Bréfið ritar þýskur innflytjandi að nafni Lothar Hermann og segist hann vita hvar Eichmann sé að finna. 

 

SS-liðsforinginn býr í fátæku borgarhverfi í útjaðri Buenos Aires, útskýrir Lothar Hermann. Jafnframt kemur fram að dóttir hans hafði átt í tygjum við son Eichmanns.

„Þegar ég yfirgef skrifstofu mína er ég kominn inn á yfirráðasvæði óvinanna“.
Fritz Bauer um hina mörgu nasista sem unnu sem embættismenn í Vestur-Þýskalandi eftir stríð.

Í einhverju matarboði hafði sonurinn grobbað sig af því að faðir hans hefði þjónað Þýskalandi dyggilega í síðari heimsstyrjöldinni. 

 

Sonurinn lýsti því einnig yfir að það „hefði verið betra ef Þjóðverjar hefðu getað fullklárað þetta ætlunarverk sitt“. 

 

Bauer er hæstánægður – loksins mun Eichmann hljóta réttláta refsingu. Saksóknarinn veit þó sem er að hann starfar í landi þar sem enn er að finna fjölmarga gamla nasista í háum embættum. Enginn þeirra vill láta grufla í fortíðinni og Bauer verður því að leita uppi Eichmann með mikilli leynd. 

 

Bauer starfar meðal óvina 

Fritz Bauer fæddist í gyðingafjölskyldu í Stuttgart árið 1903. Einungis 22 ára gamall lauk hann lögfræðinámi sínu og fjórum árum síðar var hann tilnefndur sem yngsti borgardómari Weimar-lýðveldisins.

 

Vegna þess að hann var gyðingur var Bauer þó settur af í starfinu þegar nasistar komust til valda árið 1933. Nokkrum mánuðum síðar sendi Gestapó hann í útrýmingarbúðir þar sem sök hans var að vera sósíaldemókrati. Þar var hann píndur og auðmýktur af varðmönnum en sleppt lausum níu mánuðum síðar eftir að hafa skrifað undir eiðstaf um að reynast tryggur nýrri stjórn. 

 

Alla tíð síðan skammaðist Bauer sín fyrir undirskriftina en hún tryggði þó að hann gat skömmu síðar flúið til Danmerkur og síðar til Svíþjóðar, þar sem hann bjó í útlegð meðan á stríðinu stóð.

 

Með stofnun Vestur-Þýskalands árið 1949 sneri Bauer aftur heim til föðurlandsins til að endurreisa starfsferil sinn. Sem saksóknari í Hessen var hann harðákveðinn í að treysta lýðræðið og koma í veg fyrir allar arðræðistilhneigingar pólitíkusa.

 

Refsa skyldi glæpsamlegum nasistum og Þjóðverjar yrðu að horfast í augu við fortíð sína að mati hans.

Fritz Bauer Þýski gyðingurinn og ríkissaksóknari átti þátt í að koma Auswitch-dómstólnum í Frankfurt (1963-1965) á laggirnar.

En Bauer mætti skjótt andstöðu meðal embætismanna Vestur-Þýskalands. Á sjötta áratugnum voru ríflega 60% hæst settu embættismanna fyrrum meðlimir nasistaflokksins og þeir vildu – rétt eins og drjúgur hluti annarra Þjóðverja – sópa fortíðinni undir teppið.

 

„Þegar ég yfirgef skrifstofu mína er ég kominn inn á yfirráðasvæði óvinanna“, útskýrði Bauer síðar.

 

Hjá samveldislögreglunni voru 33 af 47 hæst settu leiðtogunum fyrrum SS-meðlimir og árið 1957 upplýstu þeir Bauer um að hann gæti ekki vænst liðsinnis þeirra í leit hans að Eichmann.

 

Á þeim tíma hafði Eichmann verið efstur á lista Bauers yfir nasista sem höfðu flúið úr landi, ásamt lækninum Joseph Mengele og nánasta samstarfsmanni Hitlers, Martin Bormann. Vestur-þýska rannsóknarlögreglan (BKA) var á árunum 1956 til 1968 undir stjórn fyrrum nasistaforingjans Reinhard Gehlen og þar á bæ var gefið skýrt til kynna að enginn áhugi væri á því að finna Eichmann.

Nasistar fengu góð störf í Vestur Þýskalandi 

„Maður hellir ekki niður drulluga vatninu fyrr en maður er kominn með hreint vatn“, útskýrði fyrsti kanslari Vestur-Þýskalands, Konrad Adenauer. Í þessum anda fengu margir nasistar ágæt störf hjá ríkinu. 

Nasistadómari fór í pólitík

Hans Filbinger starfaði sem dómari í stríðinu. Að því loknu tók hann þátt í vestur-þýskri pólitík og endaði sem forsætisráðherra í fylkinu Baden-Württemberg.

Nóbelshafi var SS-hermaður

Günther Grass var rithöfundur og kannski ein helsta rödd Vestur-Þjóðverja. Hann hlaut Nóbelsverðlaunin í bókmenntum 1999. Hann þagði þó yfir því að hafa verið SS-hermaður fram til ársins 2006.

Adenauer réði til sín nasistalögfræðing

Hans Globke vann að gyðingalöggjöfinni í Þriðja ríkinu. Þessi eindregni hatursmaður gyðinga var árið 1993 útnefndur sem yfirmaður í stjórnartíð Konrads Adenauer.

Geðlæknir myrti fatlaða

Werner Villinger var geðlæknir og tók þátt í T4-drápunum á fötluðu fólki. Síðar varð hann forstöðumaður stofnunar við Margburgs Universitet. Eftir að hafa verið afhjúpaður árið 1961 framdi hann sjálfsmorð.

Leynilögregla fékk nýja stöðu

Reinhard Gehlen var yfirmaður leyniþjónustunnar á austurvígstöðvunum. Árið 1956 varð hann forstöðumaður nýtsofnaðrar leyniþjónustu Vestur-Þjóðverja Bundesnachrichtendienst (BND).

Þegar Bauer tók á móti bréfinu frá Lothar Hermann sumarið 1957, valdi hann því að láta yfirvöld ekki vita af því. Hann grunaði nefnilega sterklega að sumir valdamenn í kerfinu myndu koma skilaboðum til fyrrum nasista að vera á varðbergi, vegna þess að þeirra væri nú leitað. 

 

Bauer vissi að það jaðraði við landráð þegar hann í nóvember 1957 með mikilli leynd hitti agenta frá ísraelsku leyniþjónustunni Mossad. Hann mat það svo að samvinna við hana væri eina færa leiðin til að handsama Eichmann. 

 

Netið þrengist um toppnasistann 

Í meira en tvö ár vann Bauer með Ísraelsmönnum að því að fanga Eichmann. Þegar agentar Mossad hittu Lothar Hermann í Argentínu komust þeir að því að hann var nánast blindur. Lothar Hermann hefði því ekki getað séð Eichmann með eigin augum og því stóluðu Mossad ekkert mikið á upplýsingar hans.

 

Þegar húsið sem hann sagði vera heimili Eichmanns líktist auk þess einhverju hreysi var mat Mossad það að enginn „áhrifamikill nasisti“ gæti búið þar. Agentarnir sáu heldur hvorki tangur né tetur af hinum grunaða og því var málið lagt á hilluna.

 

En Bauer gafst ekki upp. Frá skrifstofu sinni í Frankfurt komst hann í samband við annan Þjóðverja í Argentínu sem árið 1952 hafði unnið með grunsamlegum manni en sá kallaði sig Ricardo Klement. 

„Ég þarf vart að nefna í hve mikilli þakkarskuld ég stend við þig“. 
Haim Cohn, ísraelski ríkissaksóknarinn í bréfi til Fritz Bauer. 

Maðurinn bjó yfir ljósmynd þar sem hann stóð við hliðina á þessum Klement og Bauer var ekki í nokkrum vafa um að þetta væri sjálfur Eichmann.

 

Argentískt gælunafn afbrotamannsins passaði einnig við það nafn sem var skráð fyrir rafmagnsmæli í því húsi sem Lothar Hermann hafði áður bent á. Kapallinn gekk upp og í desember 1959 veitti forsætisráðherra Ísrael, David Ben-Gurion, grænt ljós á að taka aftur upp leitina að Eichmann. 

 

„Ef í ljós kemur að Eichmann er þarna hyggjumst við handsama hann og færa hann hingað. Isser mun sjá um málið“, skrifaði Ben-Gurion í dagbók sína. 

Við lok síðari heimsstyrjaldarinnar óttuðust háttsettir nasistar að þurfa að svara fyrir glæpi sína. Því voru margir þeirra með leynilegar flóttaáætlanir.

Eichmann handsamaður í Argentínu

Isser Harel var yfirmaður Mossad. Hann setti saman teymi manna sem skipulagði skjótt sólarhringsvöktun á Eichmann. Kvöldið þann 11. maí 1960 lögðu Ísraelar til atlögu þegar Eichmann steig út úr strætó nærri heimili sínu. 

 

„Nú er ævintýrið á enda“, urraði einn agentinn þegar stríðsglæpamaðurinn var handsamaður og honum síðar smyglað til Ísrael. 

 

Bauer táraðist af gleði þegar hann fékk skilaboð um handtökuna. Hann hafði þó vonast til þess að geta komið Eichmann fyrir dómstól í Þýskalandi en yfirvöld voru andvíg því að Eichmann yrði framseldur.

Adolf Eichmann var einn höfuðpaurinn að baki helförinni. Að stríði loknu var hann dæmdur til dauða fyrir ísraelskum dómstóli.

Bauer til mikilla vonbrigða fóru því réttarhöldin yfir Eichmann á þjóðarmorði Þjóðverja fram í Ísrael en vitaskuld fylgdist heimspressan grannt með framvindu mála. En þrátt fyrir að Þjóðverjar hafi ekki vitað um þátt Bauers í þessu máli – þannig varð málum að vera háttað til að hann yrði ekki saksóttur fyrir landráð – þá vissu Ísraelar vel hve miklu hlutverki hann hafði gegnt í þessum málalyktum. 

 

„Ég þarf vart að nefna í hve mikilli þakkarskuld ég stend við þig“, skrifaði ísraelski ríkissaksóknarinn Haim Cohn þýska kollega sínum.

 

Þann 31. maí 1962 var Eichmann tekinn af lífi fyrir þátt sinn í þjóðarmorði á Gyðingum. Vestur-þýsk yfirvöld höfðu leitast við að hunsa réttarhöldin en þrátt fyrir það stefndi Bauer ótrauður að því að flytja óhugnaðinn heim til Þýskalands. 

 

Málaferli dynja á Þýskalandi 

Á meðan réttarhöldin yfir Eichmann fóru fram hafði Bauer unnið hörðum höndum að því að finna aðra fyrrum nasista sem höfðu sloppið við refsingu vegna ábyrgðar þeirra í þeim hryllingi sem átti sér stað í útrýmingarbúðunum Auswitch-Birkenau.

 

Bauer hafði óvænt í desember 1958 komist yfir skjöl sem íbúi í pólska bænum Wrocław hafði tínt upp af götunni á síðustu dögum stríðsins, þegar m.a. aðalstöðvar SS urðu fyrir sprengjuregni. 

 

Í skjölunum var að finna lista yfir SS-liða og fórnarlömb þeirra, beinharðar sannanir sem yfirmenn nasista í Auswitch höfðu sjálfir skrifað niður. Með þetta efni í höndunum gat Bauer nú leitt böðlana fyrir rétt og kortlagt afbrotin í einhverjum skelfilegustu útrýmingarbúðum nasista. 

 

Bauer, ásamt fámennu teymi annarra lögmanna sem hann hafði sjálfur handvalið, hófst nú handa við að yfirheyra meira en 1.300 vitni víðs vegar að í heiminum. Mestur hluti þessa starfs fór fram með mikilli leynd þannig að BND – með nasistann Gehler í fararbroddi – gæti ekki unnið gegn Bauer og félögum hans, rétt eins og reynt var að gera meðan Eichmann-málið var í fullum gangi. 

Toppnasistar flúðu til Suður-Ameríku

Um 2.000 nasistar komust hjá refsingu með því að flýja yfir Atlantshafið. Sumir þeirra báru ábyrgð á grimmilegum stríðsglæpum og voru loks dregnir fyrir rétt áratugum síðar. Sumir sluppu án refsinga.

Nasistaforingi fékk vinnu hjá Volkswagen

Franz Stangl var SS-foringi í fangabúðunum Sobibór og Treblinka. Hann flúði til Brasilíu þar sem hann starfaði hjá Volkswagen þar til nasistaveiðimaðurinn Simon Wiesenthal fann hann árið 1967. Stangl fékk lífstíðardóm fyrir morð á 900.000 gyðingum.

Engill dauðans fannst aldrei

SS læknirinn Josef Mengele stóð á bak við tilraunir á mönnum í Auschwitz. Eftir stríðið faldi hann sig í þrjú ár í Þýskalandi áður en hann flúði til Suður-Ameríku árið 1948. Þar var hans leitað í áratugi án árangurs. Hann lést í Brasilíu árið 1979.

Hugmyndafræðingur gasbílsins gerðist njósnari

Walter Rauff var SS liðsforingi og maðurinn á bak við vörubílana sem notaðir voru sem gasklefar á hjólum til að taka gyðinga af lífi. Eftir stríðið flutti hann til Chile og árið 1958 var hann ráðinn sem vestur-þýskur leyniþjónustumaður - til að njósna um Kúbu.

Yfirmaður vinnubúða faldi sig í 42 ár

Josef Schwammberger var yfirmaður nokkurra vinnubúða í Kraká þar sem hann drap sjálfur fjölda gyðinga á hrottafenginn hátt. Eftir að hafa falið sig í Argentínu til ársins 1987 var hann handtekinn og dæmdur í ævilangt fangelsi.

SS- maður fannst 81 árs að aldri

SS-foringinn Erich Priebke tókk þátt í að drepa 335 almenna borgara í hefndaraðgerðum eftir árás andspyrnumanna á Ítalíu árið 1944. Hann var ekki handtekinn fyrr en 50 árum síðar, þá 81 árs að aldri. Hann fannst í argentínskum fjallabæ og dæmdur í lífstíðarfangelsi.

„Í hvert sinn sem ég þurfti að senda símskeyti fór ég niður á markaðinn og bað grænmetissalann að senda það fyrir mig“, sagði samstarfsfélagi Bauers, Joachim Kügler síðar. 

 

Eftir margra ára starf höfðu Bauer og teymi hans árið 1963 safnað saman nægilegum sönnunargögnum til að þýsk yfirvöld gátu ekki lengur neitað honum um réttarhöld. 22 vesturþýskir nasistar voru handteknir og ákærðir fyrir morð eða hlutdeild í morðum í Auswitch. Í áraraðir höfðu þeir lifað óáreittir sem bændur, viðskiptamenn, verkfræðingar og tannlæknar – en núna var fortíðin búin að leita þá uppi.

 

Réttarhöldin í Frankfurt hófust í desember og Bauer lét Joakim Kügler og aðra unga lögfræðinga lesa upp ákærurnar, enda þótti Bauer við hæfi að unga kynslóðin tæki þátt þessari hreingerningu. 

 

„Í Auschwitch réttarhöldunum sitja 22 milljónir á sakborningabekknum við hliðina á þessum 22 sem hér eru ákærðir“, skrifaði Bauer í bréfi til vinar síns með vísun til allra þeirra milljóna Þjóðverja af eldri kynslóðum sem hann grunaði um að vera mótfallnir réttarhöldunum, enda báru þeir einnig ábyrgð á ódæðunum. 

NPD er í dag flokkur öfgahægrisins í Þýskalandi en á sér fáa áhangendur meðal almennings.

Nasistar söfnuðust í nýja flokka 

Þrátt fyrir að nasistahreinsun Bandamanna hafi haldið nasistum utan pólitískra áhrifa um hríð tókst fyrrum nasistum með tímanum að lauma sér inn í stjórnmálaflokka – án mikils árangurs. 

 

Á fyrstu árunum að stríði loknu fylgdu Bandamenn því fast eftir að fyrrum nasistar gætu ekki gegnt neinu hlutverki á stjórnmálasviðinu.

 

En eftir því sem nasistahreinsunin fór þverrandi tókst sumum fyrrum nasistum – sem nú töldust vera endurhæfðir – að komast til áhrifa innan íhaldssama flokksins Deutsche Rechtspartei og fengu fimm sæti á þingi við fyrstu kosningarnar í Vestur-Þýskalandi 1949. 

 

Áhrif þessa litla flokks voru þó afar takmörkuð. Og ekki bætti úr skák að meirihluti meðlima flokksins stofnaði nýjan flokk með næstum sama nafni, Deutsche Reichspartei, þar sem meiri áhersla var lögð á öfgasinnuð sjónarmið til hægri.

 

Í kosningunum á sjötta áratugnum hlaut flokkurinn einungis 1% atkvæða. Þetta varð til þess að árið 1964 var stofnaður enn inn flokkurinn, Nationaldemokratische Partei Deutschlands, NPD sem var enn þjóðernissinnaðri. Eiginlega nýnasískur. 

 

Flokkurinn fékk nokkurn meðbyr í efnahagskreppunni á sjöunda áratugnum en ekki nóg til að komast inn á þing. Núna telur flokkurinn minna en 4.000 meðlimi og telst aðallega vera samkomustaður þeirra sem leggja fæð á útlendinga. 

Auschwitch verður tákn fyrir syndir fortíðar

Í tvö ár beindust augu heimsins að Frankfurt þar sem tólf sjónvarpsstöðvar og meira en 200 blaðamenn fjölluðu um réttarhöldin. Dauðaverksmiðja nasista í Auschwitch var þar sýnd í öllu sínum kerfisbundna viðbjóði og sjónarvottar vöktu söguna aftur til lífs.

 

Þrátt fyrir að réttarhöldin í ágúst 1965 hafi einungis skilað af sér 17 fangelsisdómum, þá sýndu þau fram á að þýsku þjóðinni var ekki lengur stætt á því að reyna að hundsa söguna. Hryllingurinn frá Auschwitch var eins og meitlaður í stein og hvorki mátti hundsa þjóðarmorðið né vísa því í gleymskunnar dá. 

Hryðjuverkasamtökin Rauða herdeildin (Rote Armee Fraktion) voru reiðubúin að beita hryjðuverkum í uppgjöri sínu við fortíð nasista í Þýskalandi.

Þjóðverjar gerðu nasistafortíðina upp

Allt frá því að herdómstóllinn í Nürnberg og Bauers Auswitch réttarhöldin fóru fram hefur nasistahreinsun blossað upp í Þýskalandi mörgum sinnum. 

 

1970: RAF áfellist foreldrana 

Hryðjuverkasamtökin Rote Armee Fraktion (RAF) leit á Vestur-Þýskaland sem skilgetið afkvæmi nasista. Til þess að úthrópa gamla nasista rændi RAF 1977 formanni samtaka atvinnurekenda, Hans Martin Sleyer en hann var fyrrum SS-liðsforingi. 

 

1990: Venjulegir Þjóðverjar taka ábyrgð 

Bandaríski gyðingurinn og fræðimaðurinn Daniel Goldhaken gaf út bók sína 1996 „Hitlers Willing Executioners“ þar sem hann lýsti þýsku þjóðinni sem viljugum aðstoðarmönnum Hitlers. Margir sagnfræðingar gagnrýndu bókina en í þeim deilum stóðu margir Þjóðverjar með Goldhaken. 

 

2000: Fyrirtæki opna skjalasöfn sín


Frá aldamótunum leyfðu þýsk fyrirtæki sagnfræðingum að fara í gegnum skjöl sín þannig að opinbera mætti fortíð nasista. Eftir það greiddu m.a. Krupp, Siemens, Allianz, Volkswagen, Daimler og BMW skaðabætur til fyrri verkamanna í þrælabúðunum. 

Þannig var starf Bauers mikilvægt framlag til nasistahreinsunar. Vissulega voru enn margir nasistar óáreittir í störfum sínum meðan unga kynslóðin varð með árunum gagnrýnni á gamla fólkið. 

 

Eftir viðvarandi afneitun þjóðarinnar á sjötta og sjöunda áratug aldarinnar tóku yngri kynslóðir smám saman við uppgjörinu vegna ódæðisverka Þjóðverja og spurðu áfram hvernig foreldrar þeirra og afar og ömmur höfðu þögul sætt sig við morðæði stjórnar Hitlers. 

 

Fritz Bauer náði sjálfur ekki að upplifa mikið af þessari nýju framvindu mála. Ríkissaksóknarinn lést 64 ára að aldri í baðkari sínu í Frankfurt árið 1968. En barátta hans fyrir réttlæti lifir áfram eftir brotfall hans. 

Lestu meira um Fritz Bauer

Ronen Steinke: Fritz Bauer: The Jewish Prosecutor Who Brought Eichmann and Auschwitz to Trial, Indiana University Press, 2020 

 

HÖFUNDUR: TROELS USSING , ANDREAS ABILDGAARD

© Topham Picturepoint/Bridgeman Images,© Israel Government Press Office/Wikimedia Commons,© SZ Photo/Imageselect,© Imageselect, Wikimedia Commons

Náttúran

Bakteríur örva ilminn af sumarregni

Náttúran

6 atriði sem þú ættir að vita um skeggskottu: Gráðugur ættingi silfurskottunnar gæti brátt hertekið heimili þitt

Tækni

Lúxus eftir dómsdag: Lítum á skýli milljarðamæringanna

Menning og saga

Indiana Jones raunveruleikans leitaði að sáttmálsörkinni

Náttúran

Átvögl sjávarins geta kælt loftslagið

Lifandi Saga

Í bók frá miðöldum leyndist óþekkt portrett af Michelangelo

Tækni

Edison gegn Tesla: Meistarar rafmagnsins hötuðust

Maðurinn

7 magnaðar staðreyndir um augu þín

Tækni

Minnislisti nördanna: Búnaður

Tækni

Nú fá róbótar siðferðilegan áttavita

Heilsa

Ný tækni vekur latar sáðfrumur

Jörðin

Glóandi sprengingar skapa hljóðhöggbylgjur

ÁSKRIFT AÐ VÍSINDI.IS

Prófaðu í 14 daga ókeypis!

  • Fullur aðgangur að vefnum okkar með rúmlega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Lifandi vísindi/Lifandi saga í rafrænni útgáfu á vefnum,
  • Aðeins 1.790 krónur á mánuði.
  • Engin skuldbinding – Þú getur hætt hvenær sem er.

ÁSKRIFT AÐ TÍMARITINU

Þrjú tölublöð + gjöf: Skemmtilegur sjónauki
  • Þrjú næstu tölublöð Lifandi vísinda/Lifandi sögu – sent heim til þín – eins færðu lítinn og vandaðan sjónauka að gjöf.
  • Fullur aðgangur að vefnum okkar – visindi.is – með tæplega 3000 skemmtilegum og spennandi greinum um allt milli himins og jarðar á sviði vísinda og sögu.
  • Spennandi greinar og flottar myndir sem svala forvitni þinni.
  • Þú getur hætt eftir tilboðið en ef þú heldur áfram skuldbindur þú þig aðeins þrjú tölublöð í einu og þú getur sagt upp hvenær sem sem og klárar þá tímabilið sem er hafið.
  • Venjuleg áskrift – þrjú tölublöð – kostar aðeins 7.590 kr

Sjónauki og þriggja blaða áskrift – Alls 3.800 kr.

Lifandi vísindi

Lyf

Lifandi saga

Search

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Innskráning

Ertu áskrifandi að tímaritinu?

Áskrifendur að tímaritinu geta fengið frían aðgang að vefnum hér.

Viltu lesa greinina?

Fáðu aðgang að visindi.is

Ókeypis í 2 vikur!

Eftir það kostar eingöngu 1.790 kr. á mánuði og enginn uppsagnarfrestur.

Innifalið er aðgangur að öllum greinum á vefnum ásamt rafræna útgáfu af nýjustu tölublöðunum.

  • Fullur aðgangur að visindi.is
  • Frábærar myndir og myndbönd
  • Aðgengilegt í öllum snjalltækjum
  • Fullur aðgangur að gríðarlegu magni eldri greina
  • Nýjustu tölublöðin í rafrænu formi

Núverandi áskrifendur að tímaritinu fá að sjálfsögðu ókeypis aðgang að vefnum og þurfa bara að virkja aðgang sinn hér.

Ef þú ert þegar áskrifandi að visindi.is