Skrifað af Dýr og plöntur Náttúran

Af hverju loka blómin sér?

Flest blóm loka sér yfir nóttina og það gildir einkum um blóm sem skordýr sjá um að frjóvga, en þau eru á ferli yfir daginn. Yfir nóttina gefst sem sé ekkert tækifæri til frjóvgunar og hagsmunum blómanna er því best borgið með því að vernda hin dýrmætu frjókorn gegn hættum sem stafað geta af dögg, meindýrum og örverum.

Frjókorn í opnu blómi geta orðið vot af dögginni og geta þá ekki lengur lagst sem fíngert ryk á skordýr sem koma morguninn eftir til að sækja sér blómasafa. Með því að lokast þegar enginn möguleiki er á frjóvgun, spara blómin líka rokgjörn ilmefni sín og nýta þau þannig á besta mögulega hátt.

Blóm opnast og lokast þannig að frumur innan og utan á krónublöðunum teygja úr sér eða dragast saman. Þessi viðbrögð fara eftir birtu, loftraka og hita. Frumur innan á krónublöðunum eru meiri „kuldaskræfur“ en frumurnar utan á og það veldur því að krónublöðin svigna inn á við í kvöldkulinu og blómið lokast.

Subtitle:
Engin uppgufun verður á nóttunni, en samt loka blómin sér. Hvernig stendur á því?
Old ID:
1180
998
(Visited 6 times, 1 visits today)
Síðast breytt: september 17, 2019