Skrifað af Dýr og plöntur Náttúran

Af hverju lýsa eldflugur?

Eldflugur eru reyndar ekki flugur, heldur bjöllur af ætinni Lampyridae. Í heiminum öllum eru til um 2.000 tegundir af eldflugum og langflestar þeirra í hitabeltinu. Nafn sitt draga þær af því að afturbúkurinn gefur frá sér gulgrænt eða gult ljós þegar dýrin eru í mökunarhugleiðingum. Hver tegund notar sína sérstöku aðferð. Sumar senda t.d. frá sér stutt ljósblikk en aðrar lýsa nær stöðugt.

Mökunin hjá sumum eldflugum er eins konar ljósadans þar sem karldýr gefur áhuga sinn til kynna með ljósi og nálgast síðan ef ljóssvar kvendýrsins er jákvætt. Líffræðingar telja að kvendýrin meti karlana eftir ljósasýningu þeirra, svo sem eftir ljósstyrk, blikkhraða eða hreyfingum meðan ljósið er sýnt. Hjá sumum tegundum er það aðeins annað kynið sem lýsir og reynir þannig að laða hitt kynið að sér. Að þessu leyti eru Pteroptyx-eldflugur í Suðaustur-Asíu einkar athyglisverðar. Hér safnast karlar þúsundum saman í eitt tré og senda frá sér blikkljós nánast alveg í takt. Ekki er vitað hvers vegna karldýrin vinna svona saman, en mögulega er tilgangurinn að vekja sem víðtækasta athygli kvendýranna.

Ljósadýrð eldflugnanna er ákveðið form lífrænnar lýsingar, en ýmsar lífverur hafa hæfni til að skapa ljós með sérstökum lífefnaferlum. Þessi lífefnaferli eru mismunandi eftir tegundum en byggist yfirleitt á því að ákveðin efni komast í orkuríkara ástand þegar þau komast m.a. í snertingu við súrefni. Slík efnahvörf eru orkufrek og til þeirra nota lífverurnar sérstök ensím.
Þegar þessi ljósefni falla niður í eðlilegt ástand gefa þau frá sér orku í formi ljóseinda. Þessi efnahvörf gerast í sérstökum ljósfrumum sem eru í afturbúk eldflugunnar.

„“

Subtitle:
Ég hef oft undrast hvað kemur eldflugum til að lýsa. Hvað er það?
Old ID:
756
573
(Visited 9 times, 1 visits today)
Síðast breytt: september 17, 2019