Skrifað af Jarðfræði Loftlag og umhverfi Náttúran Þróun jarðar

Afríka rifnar fyrir framan augu jarðfræðinga.

Jarðfræðingurinn Dereje Ayalew var varla stiginn úr þyrlunni þegar ósköpin dundu á: Jörðin nötraði undir fótum hans og tók að rifna í sundur. Hver sprungan á fætur annarri, sumar metri á dýpt, opnuðust í eyðimerkursandinum. Eftir fáeinar sekúndur var hættan liðin hjá og rykið tók að setjast. Dereje Ayalew gat dregið andann léttar. Hann vissi sem var að þetta svæði gat boðið upp á miklar hræringar, en að það skyldi gerast með slíku offorsi, einmitt þegar hann mætti á staðinn, kom honum í opna skjöldu. Það sem Dereje Ayalew varð vitni að, var hvorki meira né minna en fæðing á nýju innhafi.

Dereje Ayalew frá háskóla Eþíópíu í höfuðborginni Addis Abeba var kominn til Afar – svæðisins, sem er 300 km breitt láglendi þar sem Eþíópía, Erítrea og Djíbúti mætast í norðaustur Afríku. Afar – svæðið er jarðfræðilegur byggingarstaður þar sem tíminn mun smám saman umbreyta þessu þríhyrnda svæði í nýtt haf.

Séð úr lofti er greinilegt að ótal sprungur skerast í gegnum eyðimerkursandana. Jarðfræðingar vita ennfremur að þessar sprungur munu skipta Afríku í tvennt. Það mun gerast þegar Sigdalurinn fyllist af sjó og breytist í haf. Vestan til mun mestur hluti meginlandsins, eins og við þekkjum það, haldast óbreyttur. Austan til mun lítið land myndast norðaustur af Horni Afríku.

Það voru einmitt röð af slíkum sprungum, sem Dereje Ayalew varð vitni að daginn sem hann steig út úr þyrlunni. Ferð hans var þáttur í rannsóknum á fáséðum jarðfræðilegum fyrirbrigðum. Það er nefnilega aðeins hér á Íslandi, sem hægt er að fylgjast með jafn áhrifamiklum jarðhræringum. Nýmyndun hafs er hins vegar bæði dramatískari og sýnilegri á Afar – svæðinu, og jarðfræðingar fylgjast spenntir með.

Kvika myndar hafsbotn í eyðimörk

Sú gerð sprungumyndana sem Afar – svæðið býður uppá er annars einungis þekkt frá gliðnunarsvæðum á hafsbotni – eins og eftir endilöngum Atlantshafshryggnum. Þar þrýstist stöðugt kvika upp úr iðrum jarðar. Kvikan storknar jafnharðan og myndar nýjan hafsbotn.

Þrátt fyrir að sprungurnar á Afar – svæðinu myndist uppi á landi stafa þær af sömu öflum og eiga sér stað í undirdjúpunum: upp úr sprungunum vellur hraunkvika sem storknar við yfirborðið. Jafnframt þrýstast landflekkarnir í sundur og ný hraunbreiða verður til milli þeirra. Hraunið samanstendur einkum af basalti, sem er einnig algengasta jarðefnið á hafsbotni. Þetta basalt í láglendri Afar – eyðimörkinni verður eftir milljón ár – sem er örskotsstund í jarðfæðilegum skilningi – að hafsbotni þegar sjórinn úr Rauða hafinu ryður sér þar rúms.

Aska litaði himininn í þrjá daga

Í september og október 2005 urðu þar feikimiklar jarðhræringar: jarðskjálftar, eldgos og vellandi hraun kepptust við nýjar sprungur um athyglina. Á aðeins einum degi í september sama ár myndaðist 500 m löng og 60 m djúp sprunga í eyðimörkinni. Það var ekki aðeins hraun sem vall upp, heldur einnig 400 gráðu heit gufa og brennisteinsfnykur. Á þremur vikum skóku meira en 160 jarðskjálfar svæðið, og í einu eldgosi var öskumagnið slíkt að íbúar þar sáu ekki til sólar í þrjú dægur.

Hafsbotnsmyndunin á Afar – svæðinu er afleiðing af hreyfingum nokkurra landfleka sem auðkenna jarðfræði þessa heimshluta. Þarna mætast tveir flekar sem öll meginlönd og höf hvíla á: arabíski og afríski flekinn. Vestari hluti afríka flekans, sá núbíski, hreyfist í átt frá arabíska flekanum, og í þessu ferli toga flekarnir landmassann á milli sín.

Landmassi þessi er vesturhluti Afar – svæðisins og hann þynnist stöðugt, rétt eins og þegar tyggigúmmi er tekið og teygt milli fingranna. Miðjan verður sífellt þynnri þar til tyggjóið brestur.

Á sama máta þynnist jarðskelin undir Afar – svæðinu og verður láglendari. Nú þegar er yfirborð þar víða meira en 100 m undir yfirborði sjávar og það eru einungis fjallgarðar við ströndna sem varna hafinu frá því að flæða þar inn. En veðrun og hreyfingar flekanna munu skjótt ryðja þeirri hindrun úr vegi, og talið er að eftir um milljón ár muni sjórinn mynda þar nýtt innhaf. Við suðurodda Afar – svæðisins eru annars vegar núbíski hluti landflekans, og hins vegar sá sómalski, en flekarnir reka í gagnstæðar áttir og þarna mun á endanum verða hafsbotn. Hreyfingar þarna eru þó hægari og ítarlegri rannsóknir þarf til að leiða megi getum að því hvenær nýtt haf myndist. En jarðfræðingar vita sem er að flekamótin ein og sér eru ófær um að skapa nýtt haf. Það eru fjölmargir kraftar að verki á flekamótum og án togkrafta flekanna á Afar – svæðinu gæti þetta mikla láglendi ekki myndast. En til að nýtt hraun nái upp á yfirborð þess, þarf nægjanlega mikla sprungumyndun á jarðskelinni. Hreyfingar flekanna duga ekki til að svo verði, en þess í stað beina jarðfræðingar sjónum sínum að svonefndum heitum reitum (hot spots).

Í jarðskorpunni má þekkja heita reiti á ótrúlega mikilli eldvirkni og gosum. Á slíkum stöðum nær kvika úr iðrum jarðar greiðlega upp á yfirborðið. Hawaii – eyjar og Ísland hafa báðar myndast á heitum reitum, þar sem stöðugur þrýstingur kviku undir jarðskorpunni er til staðar. Þetta á einnig við um Afar – svæðið þar sem kvikan þrýstir undið komandi hafsbotn, og jafnframt verða hreyfingar flekanna til að nægjanlega stórar og breiðar sprungur myndast.

Fræðistörf í 48 gráðu hita

Stór hópur fræðimanna fylgist náið með þróun mála á Afar – svæðinu og hinn enski prófessor í jarðfræði, Cynthia Ebinger við Royal Holloway University of London, fer þar fremst í flokki. Rannsóknir og greiningar eru gerðar í samvinnu við Dereje Ayalew við háskólann í Addis Abeba og vísindamenn við Oxford University, Bretlandi, Purdue University, BNA og

University of Auckland, Nýja Sjálandi. Fræðimennirnir hafa mátt reyna á eigin skinni að vinna þarna er ekki heiglum hent: annað hvort er regntími með þolanlegu hitastigi, eða skraufaþurrt og allt að 48 gráðu heitt. Svæðið er vægast sagt hrjóstugt. Það er einungis meðfram Awash – fljótinu sem finna má merki um líf: mjótt grænt belti með plöntum og hirðingjum sem halda leiðar sinna meðfram lífgefandi fljótinu. Hirðingjarnir ásamt húsdýrum sínum lifa við sérdeilis þröngan kost þarna í eyðimörkinni. Sums staðar geta zebrahestar, gasellur og nokkrir af síðustu villtu ösnunum í Afríku ennþá dregið fram lífið, meðan risavaxnar saltslétturnar kæfa allt plöntulíf annars staðar í nágrenninu.

Mannkyn á sér djúpar rætur á Afar – svæðinu. Það er einmitt hér sem einn fyrsti forfaðir manna, Astralopitechus afarensis, er uppruninn. Þekktust þessarar tegundar er hún Lucy, sem lifði þarna fyrir milli 3 og 3,9 milljón árum. Að líkindum höfðu þá flekaskilin og heitu reitirnir einnig sín áhrif við að leggja drög að nýju Afar – hafi. Haf sem þegar býr yfir botni úr basalti og liggur 100 metra undir yfirborði sjávar – nú skortir bara sjóinn.

Subtitle:
Á svonefndu Afar – svæði í NA – Afríku er nýtt haf við að myndast með methraða. Haustið 2005 rifnaði bókstaflega hin skraufaþurra eyðimörk í sundur og myndaði aðstæður, sem á jarðfræðilegri sekúndu verður botninn á nýju hafi .
Old ID:
422
257
(Visited 6 times, 1 visits today)
Síðast breytt: nóvember 21, 2019

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.