Skrifað af Dýr og plöntur Líffræði Náttúran

Bjarnmaurar lifa af tvær vikur í geimnum

Líffræði

Svonefndir bjarnmaurar eru ekki aðeins í hópi allra minnstu fjölfrumunga, á bilinu 0,5 – 1,25 mm að lengd, heldur einnig meðal þeirra harðgerðustu. Nú hafa vísindamennirnir fært sönnur á að þessar smáskepnur þola geimgeislun sem öðrum lífverum er banvæn. Þessum smásæju dýrum var pakkað í sérstakan geymi sem sendur var út í geim með rússneska geimfarinu Foton. Eftir að út í geiminn var komið, var geymirinn opnaður þannig að geimgeislunin átti greiða leið að dýrunum þær tvær vikur sem geimferðin stóð.

Tilraunir á jörðu niðri hafa áður sýnt að hinir harðgerðu bjarnmaurar þola ótrúlegasta álag. Ástæðan er sú að þeir þola algera uppþornun og geta lagst í svo djúpan dásvefn að efnaskipti eru ekki mælanleg. Í slíkum dvala þola dýrin suðu og sömuleiðis má frysta þau niður í -272° C. Í þessu ástandi lifa þau líka af geislavirkni, lofttómt rúm eða leysiefni, án þess að verða fyrir neinni sköddun.

Eftir geimferðina tóku vísindamennirnir fyrstu 18 dýrin úr geyminum. Strax eftir stundarfjórðung tóku hin fyrstu þeirra að sýna lífsmerki. Alls lifðu 80% dýranna þessa geimferð af en það er sama hlutfall og í samanburðarhópi sem geymdur var á jörðu niðri.

Þessi tilraun er að því leyti stórmerkileg að hún sýnir svart á hvítu að fræðilega er mögulegt að lífverur gætu borist um geiminn, t.d. í loftsteinum.

Subtitle:
Harðgerð dýr þola hita, kulda, leysiefni og geimgeislun.
Old ID:
580
423
(Visited 5 times, 1 visits today)
Síðast breytt: nóvember 21, 2019

Pin It on Pinterest

Share This

Fá þér
áskrift?

Við erum með fullt blað af spennandi greinum einsog þeim sem þú ert búin/n að vera að lesa og meira til.