Bónóbóapar ættleiða unga annarra

Vísindamenn hafa í fyrsta sinn séð bónóbóapa ættleiða óskylda apaunga.

DÝR – APAR

Lestími 2 mínútur

 

Dýr í náttúrunni hugsa oft um afkvæmi hvers annars en það er óvenjulegt að þau ættleiði ungana að fullu. Enn sjaldgæfara er að afkvæmi sem ekki eru hluti af fjölskyldunni verði fullgildir meðlimir hennar.

 

Þetta hafa vísindamenn einmitt séð í Luo-friðlandinu í Kongó, Afríku. Tvö kvendýr apategundarinnar bónóbó (dvergsimpansar) hafa ættleitt afkvæmi annarra.

 

Kvendýrin tvö – úr sitt hvorum hópi bónóbóapa – sáu um, báru og útveguðu mat fyrir unga í að minnsta kosti eitt ár.

 

Svona hegðun hefur áður sést hjá prímötum – en þetta er í fyrsta skipti sem hún sést hjá mannöpum eins og bónóbóöpum.

 

MYNDBAND: Ættleiddur bónóbóungi nýtur sín vel með kjörmóður sinni

 

Hinn ættleiddi ungi Flora (hægra megin og snýr að myndavélinni) borðar ávexti með kjörmóður sinni, Marie og öðrum apaunga, Margaux.

 

Ungarnir birtust allt í einu

 

Á vikutíma þegar vísindamennirnir fylgdust ekki með öpunum birtust nýir apaungar skyndilega í hjörðinni.

 

Kvenapinn Marie átti fyrir tvo unga en ættleiddi svo Floru sem vísindamennirnir vissu að tilheyrði öðrum hópi bónóbóapa.

 

Marie sá um og passaði alla þrjá ungana – og gaf tveimur þeirra brjóst. Samkvæmt einum vísindamanninum, veitti hún hins vegar sínum eigin afkvæmum aðeins meiri athygli en ættleidda unganum.

 

Hinn kvenapinn sem heitir Chio er á fimmtugsaldri og ættleiddi Ruby. Jafnvel þótt Chio framleiddi ekki lengur mjólk leyfði hún Ruby að vera á brjósti.

 

Erfðagreiningar sýndu í kjölfarið að enginn unganna var skyldur hópunum tveimur.

 

Simpansar geta drepið ókunna unga

 

Líffræðingar eru mjög hissa á hegðuninni. Aðrir mannapar eins og simpansar eru oft fjandsamlegir ungum úr öðrum hópum – og drepa þá stundum.

 

Ólíkt simpönsum eru bónóbóapar yfirleitt umburðarlyndir og vinveittir öðrum hópum sem þeir hitta til að deila mat og til mökunar.

 

Ættleiðingar ókunnra unga geta þannig tengst almennri hegðun bónóbóapa, telja vísindamennirnir.

 

Líklega eru aðeins um 10.000 bónóbóapar sem lifa villt í náttúru Vestur-Afríku og eru þeir í mikilli útrýmingarhættu.

 

14.05.2021

 

 

SØREN BJØRN-HANSEN

 

 

(Visited 426 times, 1 visits today)

Tengdar Greinar

FULLUR AÐGANGUR AÐ VEFNUM Í 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR

PRÓFAÐU 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR