Dýrin slá öll hraðamet

Dýrin mega engan tíma missa í baráttunni um hvert þeirra kemst af. Eðlun, veiðar og flótti þvinga dýrin til að gera sitt ýtrasta í hörðum heimi þar sem ónógur hraði eða slæleg tímasetning getur beinlínis kostað þau lífið.

Lestími: 9 mínútur

Hraðaaukning og hámarkshraði – Eðlun og fjölgun – Líf og náttúruval

HRAÐAAUKNING OG HÁMARKSHRAÐI

SNEGGSTU VIÐBRÖGÐIN

 

Gull: Drakúlamaurinn 0,000023 sekúndur, 90 m/s

 

Silfur: Termíti (hvítmaur)  0,000025 sekúndur, 67 m/s

 

Brons: Froskfiskar 0,006 sekúndur

 

Klikk! Skolturinn lokast á methraða

Háhraðaupptökur hafa leitt í ljós að skoltur drakúlamaursins skellur saman á hraða sem nemur 0,000023 sekúndum, en til samanburðar má geta þess að þetta er 5000 sinnum meiri hraði en tekur okkur að blikka auganu. Hámarkshraðinn nemur 324 km/klst. og hraðaaukningin getur orðið meiri en 10.000.000 g.

 

Hraðinn myndast með því að maurinn þrýstir endum skoltsins saman þar til spennan verður svo mikil að annar endinn rennur yfir hinn og skolturinn lokast.

 

MYNDBAND: Sjáðu skoltin skella saman 

Drakúlamaurinn notar skoltinn bæði til að ráðast á með og til að verja sig; en maurinn veiðir t.d. eitraðar þúsundfætlur, sem brýnt er að deyða fljótt áður en þær sjálfar bíta maurinn.

MESTI HÁMARKSHRAÐINN

 • Gull: Förufálki

320-390 km/klst. (hraðskreiðastur í lofti)

 

 • Silfur: Oddnefur

130 km/ klst. (hraðskreiðastur í sjó)

 

 • Brons: Blettatígur

120 km/ klst. (hraðskreiðastur á landi)

 

Þyngdaraflið kemur að góðu gagni

Hraði flokkast sem dyggð í heimi rándýranna. Því hraðskreiðari sem rándýr eru, þeim mun minni hætta er á að þau drepist úr hungri. Þess vegna eru mörg af allra hraðskreiðustu dýrum heims rándýr.

 

Ekkert rándýr kemst hraðar en förufálkinn, en hann getur náð ríflega 320 km hraða á klst. Fálkinn nær þessum ógurlega hraða með því að leggja vængina og fæturna þétt upp að búknum þannig að hann öðlast sömu lögun og dropi í loftinu.

 

Andstætt við dýr sem komast hratt á láði og legi nýtir förufálkinn sér þyngdaraflið og þess má geta að viðnámsþolið nemur 25 g þegar hann dýfir sér í átt að bráðinni, samanborið við þjálfaða árásarflugmenn sem ráða við 8-9 g.

 

HRAÐSKEIÐUSTU HÖGGIN

Hnefaleikastjarna hafsbotnsins kýlir frá sér

Líkt og hver annar hnefaleikakappi kýlir bænarækjan klóm sínum, sem minna einna helst á hamar, inn í kræklinga og krabba þar til skel bráðarinnar brotnar.

 

Hraðaaukning högganna nemur 150.000 m/s2  – en sú hraðaaukning á einnig við um byssuskot og þetta táknar að dýrið getur lamið alls hundrað sinnum á þeim tíma sem það tekur okkur að blikka auga.

 

Myndband: Sjáðu bænarækjuna mölbrjóta krabbaskel

 

Klærnar eru gerðar með það fyrir augum að þola þann gífurlega kraft sem myndast þegar þær lenda á skel bráðarinnar. Ysta lag þeirra er gert úr steinefninu hýroxýapatíti, sem einnig er að finna í glerungi á tönnum okkar. Þar undir leynast tvö sveigjanleg undirlög sem gegna hlutverki höggdeyfa og koma í veg fyrir að ysta lagið springi.

 

EÐLUN OG FJÖLGUN

FLJÓTLEGASTA EÐLUNIN

Limlaus mökun er örugg eðlun

Þó svo að kólibrífuglar verji löngum tíma í að leita hófanna hjá væntanlegum maka og stundi m.a. í því sambandi loftfimleika í 20-45 metra hæð, varir sjálf eðlunin aðeins nokkrar sekúndur.

 

Á meðan fuglarnir maka sig eru þeir ófleygir og með öllu hjálparvana. Eðlunin stendur stutt yfir og er í raun aðferð fuglsins til að stunda öruggt kynlíf.

 

Karlfuglinn er ekki útbúinn neinum getnaðarlim og getur fyrir vikið ekki farið inn í kerluna. Þess í stað er kvenfuglinn með rauf, sem er sameiginlegur æxlunar- og þarfagangur hennar. Karlfuglinn þrýstir sinni rauf upp að rauf kerlunnar og yfirfærir sæði sitt samstundis inn í hana án þess einu sinni að þurfa að hreyfa líkamann sérstaklega.

 

Vísindamenn telja að kólibrífuglar og aðrir limlausir fuglar hafi losað sig við getnaðarliminn í þróunarferlinu í því skyni að geta lokið eðluninni af sem fyrst og komið sér í öruggt skjól.

 

STYSTA MEÐGANGAN

 • Gull: Sminthopsis (pokadýr)

9-11 dagar

 

 • Silfur: Norðuramerísk pungrotta

11-13 dagar

 

 • Brons: Hamstur

16 dagar

 

Pungdýr gengur með í tvo sólarhringa

Ekkert annað spendýr í heimi fjölgar sér jafn hratt og ástralska pokadýrið Sminthopsis. Fóstrin verja einungis 2 til 3 sólarhringum í leginu áður en þau sem agnarsmá, u.þ.b. fimm mm löng dýr, flytjast yfir í poka móðurinnar þar sem þau soga sig föst við geirvörtur hennar.

 

Afkvæmin eru engan veginn fullþroskuð, geta hvorki séð, heyrt, haldið jafnvægi né fundið bragð. Eftir níu til ellefu daga meðgöngu í heild fæðir móðirin svo öll afkvæmin, alls um það bil átta stykki.

 

Þessi skyndimeðganga pokadýrsins er langtum styttri en gerist og gengur meðal annarra spendýra, sem einnig þurfa að kljást við það vandamál að þyngjast til muna og eiga fyrir vikið í meira basli með að finna fæðu og sleppa undan rándýrum.

 

HRAÐSKREIÐASTA SÆÐIÐ

Skrúfusæði þeytist áfram

Þegar söngfuglskarrinn losar sæði sitt inn í rauf kvenfuglsins sendir hann eldflaugarsæði í átt að egginu hennar. Sæðið ferðast um 7,5 mm á mínútu, sem er hartnær tvöfalt hraðar en við á um sæði mannsins.

 

Skýringuna á þessum gríðarlega hraða er að finna í lögun sáðfrumnanna. Höfuðin á sáðfrumum manna eru ávöl en hjá söngfuglunum eru þau hins vegar með sömu lögun og skrúfur. Því meiri skrúfulögun sem sæðið býr yfir, þeim mun meiri hraði er á þeim.

 

Sáðfrumurnar snúast um sjálfar sig, líkt og skrúfur, jafnframt því sem halinn sveiflast fram og til baka.

 

Söngfuglarnir hafa þróað þessa hraðvirku aðferð vegna fjöllyndis kvenfuglanna. Þegar keppinautarnir geta reynst vera margir skiptir öllu máli að búa yfir hraðskreiðum sáðfrumum í baráttunni um að komast fyrst að egginu.

 

LÍF OG NÁTTÚRUVAL

STYSTA ÆVISKEIÐIÐ

 • Gull: Dægurfluga

5 mínútur

 

 • Silfur: Sýlingar

(kviðburstar) 3 dagar

 

 • Brons: Drónamaur

3 vikur

Dægurflugur drepa ekki tímann

Ekkert dýr lifir hraðar en fullvaxta dægurflugur af tegundinni Dolania americana. Á innan við klukkustund tekst henni að finna maka, maka sig og verpa eggjum áður en hún deyr og sumum þeirra tekst að afreka allt þetta á tæpum fimm mínútum.

 

Karlflugurnar lifa að öllu jöfnu eilítið lengur en kvendýrin, því karlarnir þurfa einnig að verja tíma í að finna sér maka. Nýklaktir karlar fljúga fram og tilbaka yfir vatnsföllum í leit að maka áður en þeir detta niður og drukkna, ef rándýr hafa þá ekki þegar náð að éta þá.

 

Koma dægurflugnanna er samhæfð þannig að allar líta þær dagsins ljós á sama tveggja vikna tímabilinu í maí.

 

ÖRASTI PÚLSIN

 • Gull: Moskussnjáldra

1511 slög/mínútu

 

 • Silfur: Kólibrí

1260 slög/mínútu

 

 • Brons: Kanarífugl

1020 slög/mínútu

 

Ör hjartsláttur ornar snjáldurmúsinni

Við mannfólkið erum með hvíldarpúls sem nemur um 70 slögum á mínútu en hjarta snjáldurmúsarinnar berst af alefli með allt að 1511 slög á mínútu.

 

Hjörtu smárra dýra slá að öllu jöfnu hraðar en við á um stærri dýr, sökum þess að æðarnar eru langtum minni. Blóðstreymið verður fyrir meiri mótstöðu frá æðaveggjunum og fyrir vikið þarf meiri orku til að þrýsta blóðinu áfram um líkamann.

 

Líkamshiti lítilla dýra lækkar að sama skapi hraðar og því eru efnaskiptin mjög hröð. Efnaskiptin hafa þörf fyrir súrefni og moskussnjáldran eyðir 67 sinnum meira af súrefni í hvíld en við á um okkur mennina.

 

SNEGGSTU LITABREYTINGARNAR

Smokkfiskur breytir litum á sekúndubroti

Blekfiskurinn getur tekið litabreytingum á aðeins 300 millisekúndum. Húðin er þakin sérhæfðum litafrumum sem kallast litberar og tengjast beint miðtaugakerfinu.

 

Litberarnir samanstanda af sveigjanlegum sekkjum fullum af litkornum sem eru umkringdir tauga- og vöðvafrumum. Þegar vöðvarnir dragast saman breytist lögun litberanna og litefnasekkjanna með þeim afleiðingum að smokkfiskarnir verða ljósari eða dekkri á að líta.

 

Litaskiptin líkja eftir umhverfinu og gagnast smokkfiskunum til að fela sig fyrir rándýrum en litabreytingin kann þó einnig að gera hugsanlegum mökum viðvart um að smokkurinn sé eðlunarfús.

 

 

Birt: 28.12.2021

 

 

Jonas Grosen Meldal

 

 

Lestu einnig:

(Visited 531 times, 1 visits today)

Tengdar Greinar

FULLUR AÐGANGUR AÐ VEFNUM Í 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR

PRÓFAÐU 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR