Skrifað af Dýr og plöntur Náttúran

Geta dýr úr dýragarði bjargast í náttúrunni?

Að meðaltali lifir aðeins þriðja hvert dýr af að vera sleppt lausu eftir uppeldi undir umsjá manna. Þetta sýnir alveg ný rannsókn sem vísindamenn við Exeter-háskóla á Englandi hafa nú lagt fram.

Í þessari rannsókn fylgdust vísindamennirnir með alls 45 dýrum, m.a. tígrisdýrum, úlfum, björnum og otrum sem var sleppt út í náttúruna. Aðeins 30% þeirra lifðu þetta stóra stökk af. Í meira en helmingi tilvika voru dýrin skotin eða urðu fyrir bíl, en rannsóknin leiddi einnig í ljós að dýrin voru almennt illa fær um að sjá um sig sjálf. Þau drápust úr hungri vegna þess að þau voru ekki vön veiðum. Þeim gekk illa að aðlagast villtum dýrum sömu tegundar og þau reyndust einnig viðkvæmari fyrir veirusjúkdómum en villtu dýrin. Stærstu veikleika þessara dýra telja vísindamennirnir fólgna í því að þau skorti ótta við menn og önnur dýr, ásamt því að þau hafi aldrei þurft að berjast fyrir mat sínum.

Á grundvelli þessara heldur dapurlegu niðurstaðna mæla vísindamennirnir nú með að dýragarðar og aðrar uppeldisstofnanir dýra búi dýrin betur undir það eðlilega líf sem bíður þeirra úti í náttúrunni. Samskipti við menn þurfa að vera sem allra minnst meðan dýrin búa við ófrelsi. Auk þess þyrfti að koma á fót sérstökum svæðum þar sem þjálfa mætti veiðieðli og þá félagsfærni sem villidýrum er nauðsynleg.

Subtitle:
Hvað gerist er dýri sem fætt er og uppalið í ófrelsi, er sleppt út í náttúruna? Hvaða möguleika á það til að lifa af?
Old ID:
605
445
(Visited 9 times, 1 visits today)
Síðast breytt: nóvember 21, 2019