Skrifað af Dýr og plöntur Líffræði Náttúran

Geta tré fengið krabbamein?

Tré geta fengið ýmsar tegundir krabba vegna sýkinga af völdum baktería, sveppa og skordýra.

Margar skordýralirfur geta sýkt laufblöð þannig að þau mynda æxli þar sem lirfurnar hreiðra um sig. Þetta gera lirfurnar með því að gefa frá sér efni sem virka á plöntuna eins og vaxtarhormón. Plöntuvefurinn vex og myndar æxli sem veitir lirfunni skjól fyrir rándýrum meðan hún vex og skaffar henni æti um leið. Gallepli, sem sjá má á blöðum eikartrjáa, myndast af völdum lirfu gallvespunnar. Jarðarbakterían Agrobacterium tumefaciens getur líka sýkt tréð og valdið ákveðinni gerð krabbameins. Þegar þessi baktería sýkir tré laumar hún svonefndu plasmíði, sem er bútur erfðaefnis, í frumur trésins. Í plasmíðinu eru m.a. gen sem kóða fyrir vaxtahormónum og fyrir bragðið taka frumurnar að fjölga sér og mynda æxli.

Sveppir geta svo valdið enn öðrum gerðum krabba í trjám og loks er þess að geta að hnúðar á trjám geta einnig stafað af því að búpeningur, villt dýr eða jafnvel skordýr hafi nagað tréð og valdið sliti.

Subtitle:
Old ID:
1271
1090
(Visited 23 times, 1 visits today)
Síðast breytt: september 17, 2019

Pin It on Pinterest

Share This