Náttúran

Lestími: 2 mínútur

Helvíti á jörð er í Austur-Afríku

Hitastigið yfir 50°C, bullandi sýruvötn og gróðursnauðar saltsléttur – Dallol í Eþíópíu er einn af fáum stöðum á jörðu þar sem lífið nær ekki fótfestu.

Náttúran

Lestími: 2 mínútur

Þrýstingur og hiti skjóta súru saltvatni upp úr jörðinni.

Dallol-jarðhitasvæðið í Eþíópíu er síbreytilegt vegna mikillar eldvirkni. Undir niðri streymir glóandi heitt gasríkt vatn sem myndar svo mikinn þrýsting að brimsaltir sýruhverir gjósa í gegnum yfirborðið.

Brennisteinn og járn lita svæðið gult

Undir forystu örverufræðingsins Puri López-García taka vísindamenn sýni úr óvistlegu vatninu. Þegar vatnið gufar upp í hitanum verður saltið eftir í mismunandi myndum. Guli liturinn stafar af brennisteini og járni sem hvarfast smám saman við súrefni

Uppgufað vatn skilur eftir skúlptúra

Vatnsborðið breytist dag frá degi þannig að fjölbreytt saltform myndast og hverfa á ný. Vísindamenn líkja Dallol-jarðhitasvæðinu við listasafn þar sem sýningin breytist á hverjum degi.

Bláir logar lýsa upp nóttina

Af óþekktum ástæðum kviknaði í brennisteinssallanum eina nótt. Dularfullir bláir logar stóðu upp úr jörðinni ásamt gufum af ætandi brennisteinssýru. Fyrirbæri þetta er vel þekkt frá Kawah Ijeh-eldfjallinu í Indónesíu en hefur einungis sést einu sinni á Dallol-jarðhitasvæðinu.

Járn litar vatnið rautt

Heitar uppsprettur í Dallol bjóða upp á fjölbreytilega litapallettu. Áður en vatnið nær upp á yfirborðið er það hitað upp af kvikuvösum í jörðinni sem innihalda margvíslega málma, t.d. járnsambönd sem lita hverina í rauðum litabrigðum.

Svartavatn rannsakað úr fjarlægð

Hátt innihald af magnesíumklóríði veitir Svartavatni lit sinn. Þetta bullandi vatn er með pH-gildið 1,4 og er afar ætandi, þannig að þegar sýni eru tekin úr því og dýpt þess mæld þarf að gera það úr viðeigandi fjarlægð.

Yfir daginn nær hitastigið sjaldan undir 45°C

Saltsléttan sem umlykur Dallol-svæðið er eitt heitasta svæði jarðar. Jafnvel um vetur nær hitastigið yfir 45°. Vísindamenn safna sýnum í ljósaskiptunum í leitinni að fornbakteríum, afar þrautseigum örverum.

 

 

 

Birt: 09. 09. 2021

 

 

MORTEN KJERSIDE POULSEN

 

 

Tengdar Greinar

(Visited 1.593 times, 1 visits today)

FULLUR AÐGANGUR AÐ VEFNUM Í 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR

PRÓFAÐU 14 DAGA FYRIR 0 KRÓNUR