Skrifað af Dýr og plöntur Náttúran

Hvernig geta plöntur hreyft sig?

Yfirleitt tengjum við hreyfigetu aðeins við menn og dýr. En plöntur eru alls ekki jafn hreyfingarlausar og halda mætti, þótt þær séu vissulega bundnar jörðinni með rótum sínum og hafi ekki vöðva til að hreyfa sig. Venjulegur vöxtur stafar af frumuskiptingu og vaxtarhreyfingin verður þá ekki aftur tekin. En sumar plöntur búa yfir hæfni til hreyfinga sem þær geta snúið aftur í upphafsstöðu. Þessar hreyfingar tengjast vökvaspennu í frumunum. Þetta geta t.d. verið taktfastar dægurhreyfingar, svo sem þegar blóm eða blöð lokast yfir nóttina. Súrsmæra og ýmsar baunaplöntur hafa blöð sem vefjast upp yfir nóttina og vísindamennirnir telja þetta gert til að draga úr hitatapi. Sænski grasafræðingurinn Carl von Linné kallaði næturhreyfingar plantna „plöntusvefn“ og enn tala margir grasafræðingar um „svefnhreyfingar“.

Innst á þeim blöðum sem geta hreyft sig er yfirleitt að finna útbólginn, sívalningslaga stilkhluta, þar sem er að finna fjölmargar stórar frumur með þunna frumuhúð. Þegar vökvamagn í þessum frumum breytist, veldur það hreyfingu. Þegar t.d. þarf að lyfta blaðinu fyllast frumur í neðri hluta þessa líffæris plöntunnar af vökva en frumur í efri hlutanum tæmast. Plantan stýrir vökvamagni í frumunum m.a. með kalíum-jónum. Í frumuhúðinni er að finna eins konar dælur sem dæla kalíum-jónum inn í frumuna þegar auka þarf vökvamagnið. Aukin þéttni kalíum-jóna kallar nefnilega á meira vatn inn í frumuna. Og þegar draga á úr vatnsmagni í frumunni er kalíum-jónum dælt út.

Þessar frumudælur geta t.d. stjórnast af lífsklukku jurtarinnar, sem gert er úr lífefnasameindum, svo sem efninu phytochrom, sem er ljósnæmt. Virkni þessarar lífsklukku er ekki þekkt en þó er vitað að hún er stillt eftir dagsbirtunni, en á því byggist einmitt hæfni plöntunnar til að hreyfa blöð sín á sama tíma dag eftir dag.

Subtitle:
Blöð sumra plantna lokast á nóttunni eða ef þau eru snert. Hvernig fer plantan að þessu?
Old ID:
623
461
(Visited 10 times, 1 visits today)
Síðast breytt: nóvember 21, 2019